Innherji

FME kærði meinta markaðsmisnotkun til lögreglu í fyrra

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Þetta var eina málið, tengt verðbréfamörkuðum, sem rataði frá eftirlitsstofnuninni og inn á borð lögreglu í fyrra. 
Þetta var eina málið, tengt verðbréfamörkuðum, sem rataði frá eftirlitsstofnuninni og inn á borð lögreglu í fyrra.  Seðlabanki Íslands

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands kærði meinta markaðsmisnotkun til lögreglu á síðasta ári. Þetta kemur fram í ritinu Fjármálaeftirlit sem Seðlabankinn birti í morgun en í svari við fyrirspurn Innherja kvaðst stofnunin ekki geta veitt frekari upplýsingar um málið.

Á árinu 2021 hóf fjármálaeftirlitið rannsókn á 24 málum sem komu upp á verðbréfamarkaði, þar af byggðust 15 á ábendingum frá Kauphöll Íslands. Málum fækkaði milli ára en árið 2020 voru 32 mál tekin til rannsóknar hjá eftirlitinu.

„Líkt og fyrri ár vörðuðu flest málanna meint innherjasvik og upplýsingaskyldu útgefenda,“ segir í ritinu þar sem fjallað er um helstu verkefni stofnunarinnar á síðasta ári.

„Af þeim málum sem tekin voru til rannsóknar var 16 lokið á árinu 2021 og líkt og fyrri ár lauk flestum málum án niðurstöðu um brot eða í 12 tilvikum. Þremur málum lauk með athugasemd og einu með kæru til lögreglu vegna meintrar markaðsmisnotkunar.“

Fjármálaeftirlitið segir ritinu að markmið eftirlits á verðbréfamarkaði sé að stuðla að því að markaðurinn sé skilvirkur og öruggur. Það sé m.a. gert með viðvarandi eftirliti með upplýsingagjöf útgefenda verðbréfa, eftirliti með viðskiptahegðun þátttakenda á markaði, svo sem mögulegum innherjasvikum og markaðsmisnotkun, og með athugunum á skýrslum eftirlitsskyldra aðila til fjármálaeftirlitsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×