Frítíminn

Dagur í lífi Þorbjargar: Líður best þegar fólkið mitt er heima

Ritstjórn Innherja skrifar
Þorbjörg Sigríður, sem er alltað kölluð Obba, situr í umhverfis- og samgöngunefnd og velferðarnefnd. Verkefnin eru innbyrðis mjög ólík, sem henni finnst gott.
Þorbjörg Sigríður, sem er alltað kölluð Obba, situr í umhverfis- og samgöngunefnd og velferðarnefnd. Verkefnin eru innbyrðis mjög ólík, sem henni finnst gott.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, er að eigin sögn innipúki og að kvöldin fari í að horfa á einhverjar (misvandaðar) sjónvarpsseríur.

Þorbjörg, sem er alltaf kölluð Obba, segir að stemmningin á nefndarfundum Alþingis sé allt önnur og léttari en inni í þingsal. „Ég hef verið að vinna með spurningu (sem enginn bað mig um að svara): Er það vegna þess að hér má fólk drekka saman kaffi meðan það fundar? Gæti kaffibolli inni í þingsal breytt einhverju um gang mála og stemmningu þar?“

6:00 Heyri dagblöðin detta inn um bréflúguna. Fyrsta stóra ákvörðun dagsins er fram undan. Á ég að sækja þau? Eða sofa aðeins lengur? Ég kíki á miðlana í símanum. Átta mig á að ég þarf að pissa og fer því fram. Sæki blöðin.

7:15 Vakna aftur. Klukkan hringir ekki fyrr en eftir korter. Á ég að liggja aðeins lengur eða fara fram úr? Heyri að dagurinn er byrjaður hjá menntaskólanemanum frammi í eldhúsi. Hún er að útbúa sér morgunmat og því fylgir umgangur eins og við heiðarlegt múrbrot.

Dagblöðin liggja í rúminu. Ólesin.

7:30 Vekjaraklukkan hringir. Fer fram úr. Dagurinn byrjar á kaffibolla. Alltaf. Hugsa með mér að ég tek kannski bara blöðin með mér í vinnuna.

7:40 Yngsta dóttirin vakin.Hún er vanaföst og borðar alltaf sama morgunmat. Við tekur spjall um lífsins málefni og pælingar.

7:50 Yngsta barnið gefur köttunum okkar tveimur morgunmat eftir að hún er sjálf búin að borða. Kisunum finnst ekki gott að bíða.

8:00 Sturta. Sturta og kaffi marka upphaf dagsins. Mér finnst fráleitt að fara út úr húsi án þess að vera búin að drekka kaffi og fráleitt að fara út án þess að vera búin að fara í sturtu.

8:25 Og við leggjum af stað út í daginn.

Obba með stelpunum sínum þremur en hún segir kvöldmatartímann með þeim vera allt að því heilagan. 

9:00 Ef ég er heppin næ ég einum kaffibolla á skrifstofunni og svara nokkrum tölvupóstum áður en fundaherferð dagsins brestur á. Nefndafundir hefjast oftast á þessum tíma. Þessir fundir eru aftur farnir að eiga sér stað í raunheimum. Maður minn hvað það er miklu skemmtilegri veruleiki en sá rafræni. Og þessum fundum fylgir kaffibolli.

Ég er í umhverfis- og samgöngunefnd og velferðarnefnd. Verkefnin eru innbyrðis mjög ólík, sem mér finnst gott. Þessi vinna er kjarnapunkturinn í því hvernig þingið vinnur að lagasetningu.

Nördinn í mér finnst þetta ferli spennandi. Ég er hins vegar alveg sannfærð um það að lagasetning á Íslandi yrði betri ef þingið fengið meiri tíma í hvert mál fyrir sig. Góður texti þarf tímann með sér.

Sturta og kaffi marka upphaf dagsins. Mér finnst fráleitt að fara út úr húsi án þess að vera búin að drekka kaffi og fráleitt að fara út án þess að vera búin að fara í sturtu.

12.00 Hópferð yfir í mötuneyti Alþingis. Ef fundirnir hafa dregist hitti ég félaga mína úr Viðreisn kannski fyrst þarna. Þetta er góður staður og hér er góður matur. Tvisvar í viku nota ég tímann í hádeginu til að fara í Laugar þar sem ég er með tveimur góðum konum undir harðri stjórn þjálfara.

Þingflokkur Viðreisnar en Obba segir að náið og gott samstarf hafi skilað heiðarlegu hópsmiti þegar Covid bankaði á dyrnar hjá flokknum í desembertörninni.

13:00 Þingflokksfundur þennan daginn. Fundir eru á þessum tíma tvisvar í viku, þar sem við förum yfir vinnuna fram undan, skiptum verkefnum með okkur og ræðum pólitík. Ég mæti alltaf með glósubókina mína vegna þess að ég fíla bók og penna betur en tölvu. Ég er samt fædd eftir 1900. (Tek nokkur eldri dagblöð úr töskunni, því taskan er að verða of þung af blaðabunkanum. Legg þess vegna nýjasta blaðið frá mér á skrifborðið. Það er líka ólesið.)

Við erum átta manna hópur sem vinnum saman á vegum þingflokksins. Vinnum þétt saman. Náið og gott samstarf skilaði heiðarlegu hópsmiti þegar Covid bankaði á dyrnar hjá Viðreisn í desembertörninni. Smituðumst öll á sama tíma. Höfðum varið meiri tíma með vinnufélögunum en mökunum og fjölskyldum því fyrst smituðust vinnufélagar og svo makar og fjölskyldur.

15:00 Leikbann! (Það er kaffi í þinginu kl. 15 og af því að fólkið sem starfar í mötuneytinu er dásemdarfólk þá er gjarnan eitthvað með kaffinu. Ég er hins vegar að vinna að eigin aðför að mjöðmunum mínum með kex- og kökubanni. Mér finnst þessi dagskrárliður núna umtalsvert minna skemmtilegur en áður.)

Obba býður stundum kærastanum í mat sem þýði yfirleitt að hann eldar og segir hún að hann sé mikill pastameistari.

15:00 Dagana sem þingflokksfundir eru haldnir byrjar þingfundur ekki fyrr en kl. 15. Ég heyri stundum að sumir virðast halda að þar með byrji vinnudagurinn á Alþingi. En það er ekki alveg þannig. Mér finnst fínt að skrifa ræðurnar mínar inni í þingsal á meðan ég hlusta á umræðurnar. Mér finnst betra að vera með ræðuna skrifaða, sem er vinnulag sem ég vandist þegar ég vann við að flytja mál inni í dómsal. Ef ég er ekki sjálf að fara að tala nýti ég tímann þarna inn til að svara tölvupóstum og í aðra vinnu.

18:30 Eldamennska. Það er allur gangur á því hvenær ég kem heim, enda kvöldfundir standard á þingi. Þingflokkurinn skiptir hins vegar með sér verkum og það fer eftir því hvaða mál eru til umfjöllunar hversu langur vinnudagurinn verður.

Náið og gott samstarf skilaði heiðarlegu hópsmiti þegar Covid bankaði á dyrnar hjá Viðreisn í desembertörninni. Smituðumst öll á sama tíma.

Mér finnst skemmtilegt að elda og upplifi það sem ákveðna slökun. Á meðan ég elda þá klárar yngsta stelpan mín yfirleitt heimanámið. Hún les oftast fyrir elstu systur sína en stundum við eldhúsborðið hjá mér. Stundum býð ég kærastanum í mat sem þýðir yfirleitt að hann eldar mat sem er auðvitað mjög góður díll. Hann er mikill pastameistari. Kvöldmatartíminn er í uppáhaldi. Mér finnst gott að setjast niður með stelpunum mínum, sem eru þrjár á heimilinu og ná spjalli við þær á meðan við borðum. Mér finnst þessi tími allt að því heilagur.

Sú elsta var að byrja í hjúkrunarfræði, önnur var að byrja í MR og sú yngsta er í 9 ára bekk. Allar á ólíkum stað í sínum verkefnum. María Guðrún 9 ára er yfirleitt með orðið á meðan við borðum. Hún er málglöð lítil kona.

Obba vaknar oft á næturna við það þegar kettlingurinn á heimilinu er að bauka eitthvað frammi í stofu.

20:00 Ég er heimakær manneskja og mér líður best þegar fólkið mitt er heima. Og þegar það eru krakkar hér heima að leika sér. Þessi vetur hefur gefið okkur endalausar leikfléttur af gulum, appelsínugulum og rauðum veðurviðvörunum og fyrir vikið eru innpúkar eins og ég heima sem aldrei fyrr. EM í handbolta var mikil guðsgjöf í þessu veðri. Það var Verbúðin líka sem og Svörtu sandar. Seinni hluta kvöldsins fer í að koma yngstu dótturinni í ró. Endurfundir við sófann taka nú við. Kvöldin fara í að horfa á einhverjar (misvandaðar) sjónvarpsseríur. Innanhúsmet hafa aftur og aftur fallið á heimilinu í notkun sprittkerta. Ég les svo mikið í vinnunni og finnst meiri hvíld í því að horfa á eitthvað á kvöldin.

Mér finnst gott að setjast niður með stelpunum mínum, sem eru þrjár á heimilinu og ná spjalli við þær á meðan við borðum. Mér finnst þessi tími allt að því heilagur.

23:00 Ég fer yfirleitt að sofa um þetta leyti.

03:00 Hér má svo búast við að vakna þegar kettlingurinn á heimilinu er að bauka eitthvað frammi í stofu. Hún fann hárteygju af dætrunum sem framkallar eltingaleik um ekkert.

06:00 Vakna aftur við að kettlingurinn er enn á hlaupum frammi á gangi. En bíddu, nú styttist í Fréttablaðið og Moggann.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.