Umræðan

Af hneykslum og reginhneykslum

Þórður Gunnarsson skrifar

„Það er með öllu ólíðandi að [...] taka á okkur skuldbindingar og lán vegna uppbyggingar Landsvirkjunar.” Þessi orð lét einn borgarfulltrúa í Reykjavík falla þegar viðræður um sölu á hlut Reykjavíkurborgar til Landsvirkjunar voru til umræðu í borgarstjórn. Þetta viðhorf var skynsamlegt þá og stenst tímans tönn.

Hann man það kannski ekki sjálfur, en borgarfulltrúinn sem um ræðir var Dagur B. Eggertsson sem í dag gegnir embætti borgarstjóra.

Borgarstjóri hefur enn á ný gert það að umtalsefni að Reykjavíkurborg hafi ekki fengið nægilega mikið fyrir sinn snúð þegar tæplega 46% eignarhlutur borgarinnar í Landsvirkjun var seldur til ríkisins. Hann gerði slíkt hið sama árið 2015 og kallaði söluna reginhneyksli. Í morgun sló hann aðeins úr og lét nægja að kalla söluna hneyksli.

Kaupverðið árið 2006 um 27 milljarðar króna, en um var að ræða yfirtöku á lífeyrisskuldbindingum. Dagur lét það hjá líða að uppreikna kaupverðið miðað við verðtryggða ávöxtunarkröfu lífeyrissjóða síðastliðin 15 ár, en látum það liggja milli hluta (90 milljarðar).

Það voru margvísleg, sterk rök fyrir því að ríkið tæki við eignarhaldi Landsvirkjunar að fullu. Enda var það mikið baráttumál R-listans að eignarhaldið færðist til ríkisins. Gagnrýnin í dag snýr að því að verðmiðinn hafi verið of lágur. Er sú gagnrýni sett fram með tilvísan í methagnað Landsvirkjunar á árinu 2021.

Skoða verður stöðuna á Landsvirkjun á árinu 2006 til að leggja mat á hversu sanngjarnt söluverðið var. Eigið fé Landsvirkjunar við árslok 2006 var um 61 milljarður króna og því svarar söluverð Reykjavíkurborgar á þeim tíma um það bil til bókfærðs eigin fjár fyrirtækisins á þeim tíma.

Við kaup og sölu fyrirtækja er líka mikilvægast að líta til framtíðarhorfa þeirra. En hvaða hugmyndir voru uppi um þróun eigin fjár og rekstrar Landsvirkjunar á þessum tíma? Svo heppilega vill til að þingmaðurinn Kristinn H Gunnarsson spurði iðnaðarráðherra þess tíma, Valgerði Sverrisdóttur, um einmitt þetta atriði á svipuðum tíma og Reykjavíkurborg þrýsti á um sölu á eignarhlut borgarinnar.

Aðalatriðið í þessu máli er auðvitað að borgarstjóri segir eitt í dag og annað á morgun. Allt eftir því sem hann telur henta í trausti þess að aðrir séu jafnóminnugir og hann sjálfur á sín eigin orð.

Svör iðnaðarráðherra voru byggð á upplýsingum frá Landsvirkjun. Þar var gert er ráð fyrir að eigið fé Landsvirkjunar, sem var ríflega 57 milljarðar undir árslok 2005, lækkaði í um 40 milljarða í árslok 2009 en hækki síðan á nýjan leik og yrði um 63 milljarðar króna í árslok 2015.

Allir vita að reyndin varð önnur. Eigið fé Landsvirkjunar var yfir 250 milljarðar við árslok 2015. Engan óraði fyrir því, hvorki Dag B Eggertsson né sjálfa Landsvirkjun. Verðmiði þess tíma var því fullkomlega eðlilegur miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir þá.

Vonandi munu kapp- og umræður í aðdraganda borgarstjórnarkosninga ekki snúast um eftiráspeki sem þessa. En ef það verður reyndin, þá verður borgarstjóri að svara því hvers vegna hann keypti ekki bitcoin fyrir hönd borgarsjóðs árið 2015? Ef rekstur borgarinnar á að snúast um hinar ýmsustu stöðutökur þá hlýtur allt að vera undir í þeim efnum.

Aðalatriðið í þessu máli er auðvitað að borgarstjóri segir eitt í dag og annað á morgun. Allt eftir því sem hann telur henta í trausti þess að aðrir séu jafnóminnugir og hann sjálfur á sín eigin orð.

Höfundur er hagfræðingur og frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×