Um leið verður streymisveita bandaríska afþreyingarrisans WarnerMedia aðgengileg á 61 landsvæði í Evrópu, Norður-Ameríku og Suður-Ameríku en Ísland er ekki þeirra á meðal.
Reuters greinir frá því að til standi að gera þjónustuna aðgengilega í sex Evrópulöndum til viðbótar síðar á þessu ári, þar á meðal í Grikklandi og Tyrklandi. Morgunblaðið greindi frá þessu fyrst íslenskra miðla.
WarnerMedia hefur áður gefið út að til standi að opna streymisveituna hérlendis síðar á þessu ári en ekki hefur verið gefin út nein dagsetning. HBO Max verður ekki aðgengilegt íbúum í Bretlandi, Þýskalandi og á Ítalíu næstu árin vegna réttindasamninga WarnerMedia við breska fjölmiðlafyrirtækið Sky.
Barist um áskrifendur
HBO Max hóf innreið sína í Evrópu í október síðastliðnum og hóf leik á Spáni og hinum Norðurlöndunum. Víða hefur verið boðið upp á ýmis opnunartilboð til að draga að fólk sem hefur þegar gerst áskrifendur að öðrum alþjóðlegum streymisveitum á borð við Netflix og Disney+.
Áskriftarverð HBO Max er misjafnt eftir mörkuðum en fyrstu áskrifendur í Portúgal munu greiða lækkað afsláttarverð svo lengi sem það heldur áskriftinni, að sögn Johannes Larcher, framkvæmdastjóra HBO Max International. Svo var ekki á Norðurlöndunum og Spáni.
Larcher segir að HBO Max hafi skráð nærri átta milljónir nýja áskrifendur utan Bandaríkjanna á seinasta ári.
Eitt stærsta verkefni HBO um þessar mundir er þáttaröðin House of the Dragon sem gerist í söguheimi Game of Thrones. Mikil leynd hvílir yfir tökum þáttanna en Ísland er skráð sem tökustaður í níu af tíu þáttum seríunnar á vef IMDB.
Auk þess að innihalda efni frá HBO eru kvikmyndir og þættir Warner Bros, DC, TBS og Cartoon Network aðgengilegt á streymisveitunni.