Innherji

Stórbætt afkoma gerir Landsvirkjun kleift að greiða 15 milljarða króna arð

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. Vísir/Vilhelm

Stjórn Landsvirkjun mun leggja til að greiddur verði út arður að fjárhæð 15 milljarðar króna eftir umtalsverðan aukningu á bæði tekjum og hagnaði á síðasta ári. Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu Landsvirkjunar fyrir árið 2021.

Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, sem er sá mælikvarði sem Landsvirkjun lítur helst til þegar afkoma fyrirtækisins er skoðuð, var 29,5 milljarðar króna og hækkaði um 64 prósent á milli ára í Bandaríkjadal talið.

Rekstrartekjur Landsvirkjunar námu tæplega 73 milljörðum króna og hafa aldrei verið meiri í sögu fyrirtækisins. Þær jukust um rúm 23 prósent milli ára.

„Bætta afkomu má rekja til mikils bata í rekstrarumhverfi stórnotenda viðskiptavina okkar og Landsvirkjunar sjálfrar. Þegar leið á síðasta ár varð raforkukerfið á Íslandi fulllestað og eftirspurn mikil frá fjölbreyttum viðskiptavinum," er haft eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, í tilkynningunni. 

Selt heildarmagn jókst um 5 prósent á milli ára. Meðalverð inn á heildsölumarkað til heimila og smærri fyrirtækja nam 5,3 kr/kWst og hækkaði ekki frá fyrra ári. Meðalverð til stórnotenda hækkaði hins vegar um 55 prósent og var 32,7 USD/MWst.

Hörður segir að hækkunina megi einkum rekja til hagstæðra ytri skilyrða á ál og orkumörkuðum og þess að endursamið hefur verið við flest fyrirtækin. „Greiða þau sambærileg verð og þau greiða í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Bætta afkomu Landvirkjunar á síðasta ári má því alfarið rekja til hækkunar á tekjum af sölu til stórnotenda.“

Bætta afkomu Landvirkjunar á síðasta ári má því alfarið rekja til hækkunar á tekjum af sölu til stórnotenda

Þá lækkuðu nettó skuldir um tæpa 175 milljónir dala, sem jafngilda um 23 milljörðum króna, og voru þær 1.500 milljónir dala í lok árs. Hörður segir að helstu skuldahlutföllin séu nú orðin sambærileg hjá systurfyrirtækjum á Norðurlöndunum. Lykilmælikvarðinn nettó skuldir/EBITDA lækkaði umtalsvert á síðasta ári og eru hreinar skuldir nú aðeins um 3,5-faldur rekstrarhagnaður fyrir afskriftir.

„Ekki er því lengur þörf á að leggja áherslu á hraða lækkun skulda og hefur arðgreiðslugeta fyrirtækisins þar af leiðandi aukist. Í þessu ljósi áformar stjórn fyrirtækisins að leggja til við aðalfund um 15 milljarða króna arðgreiðslu vegna síðasta árs.“

Landsvirkjun greiddi ríkissjóði 6 milljarða króna arð í fyrra og árið 2020 nam arðgreiðslan 10 milljörðum. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.