Körfubolti

Segja KKÍ vilja þagga kynbundið ofbeldi

Jakob Bjarnar skrifar
Fanney Lind Thomas leikmaður Aþenu, Jóhanna Jakobsdóttir formaður og Brynjar Karl Sigurðsson yfirþjálfari.
Fanney Lind Thomas leikmaður Aþenu, Jóhanna Jakobsdóttir formaður og Brynjar Karl Sigurðsson yfirþjálfari. skjáskot

Aþena íþróttafélag krefst aðgerða af hálfu Körfuknattleikssambands Íslands. Forráðamenn félagsins telja stöðuna óásættanlega og stúlkur ekki öruggar innan vébanda sambandsins vegna óuppgerðra mála og aðgerðarleysis varðandi kynbundið ofbeldi.

Aþena hefur sent frá sér ítarlega og afdráttarlausa yfirlýsingu um málið, sem finna má í heild sinni hér neðar og jafnframt gert og gefið út myndband þar sem farið er í saumana á því sem þau innan vébanda Aþenu telja ófremdarástand.

„Við teljum afar óábyrgt að í fyrsta lagi vara foreldra iðkenda ekki við því að þjálfarar með meinta sögu um að hafa áreitt ungar landsliðskonur kynferðislega séu enn í þjálfarahóp yngri landsliða,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar segir jafnframt að forgangsmál sé að tryggja öryggi og réttindi leikmanna: „Foreldrar, stúlkur og konur verða að geta treyst því að fá að stunda sína íþrótt án þess að vera áreittar kynferðislega. Þær verða að geta treyst því að það sé sýnt í verki að kynferðislegt ofbeldi sé ekki liðið jafnvel þó öll landslið yrðu skyndilega þjálfaralaus um tíma ef öll mál væru tilkynnt til KKÍ.“ Jóhanna Jakobsdóttir formaður Aþenu skrifar undir yfirlýsinguna sem hlýtur að teljast verulega harðorð.

Krefjast öryggis fyrir stelpurnar sínar

Stúlkur í Aþenu, sem eru margar í fremstu röð, hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér í nein landsliðsverkefni að öllu óbreyttu – en sú ákvörðun tengist jafnframt eldri málum. Stjórnin styður ákvörðun stúlknanna hvað þetta varðar heilshugar. Jóhanna segir, í samtali við Vísi spurð hvers vegna þau grípi til þessara aðgerða, töluvert síðan þau vissu að taka þyrfti á þessum málum:

Jóhanna er ómyrk í máli, hún telur forystu KKÍ hafa brugðist í þeim málum er varða kynbundið áreiti og krefst aðgerða.skjáskot/aþena

„Eða þegar stelpurnar okkar kæmust á unglingsaldur. Við vissum að við þyrftum að tala hreint út við þær um veruleikann sem biði þeirra og gera allt sem við gætum til að undirbúa þær og kenna þeim að bregðast við. Eftir að Fanney Lind Thomas gekk til liðs við félagið og deildi með ungu stelpunum okkar sinni óuppgerðum reynslu sinni gagnvart sambandinu þá ákváðum við að tímabært væri að opna á þetta.“

En hvað er það sem þið viljið sjá gerast?

„Við ætlumst einfaldlega til að okkar stelpur geti æft og keppt í körfubolta í öruggu umhverfi, lausar við kynferðislegt ofbeldi og áreitni. 

Það er okkar lágmarks krafa. Við ætlumst til þeim sé sýnt í verki að réttindi þeirra skipti máli, meira máli en ímynd leiksins eins og KKÍ er svo umhugað um,“ segir Jóhanna.

Formaður KKÍ gagnrýndur harðlega fyrir aðgerðaleysi

Myndbandið er áhrifaríkt en þar má finna viðtöl, meðal annars við Fanney Lind Thomas, þar sem hún greinir frá kynferðislegu áreiti sem hefur tíðkast innan vébanda körfuknattleikssambandsins. Hörð gagnrýni er sett fram á formann KKÍ, Hannes Sigurbjörn Jónsson, en spilaðar klippur úr fjölmiðlum þar sem hann heldur því fram að alltaf hafi verið tekið á málum sem snúa að kynferðislegri áreitni. Fanney Lind segir það einfaldlega rangt og furðar sig á þeirri staðhæfingu.

Klippa: Myndband Aþenu um ófremdarástand innan KKÍ

Í myndbandinu er jafnframt vísað til fundargerðar stjórnar KKÍ sem ákvað að hún myndi „vísa öllum ummælum sem geta skaðað ímynd leiksins til aga- og úrskurðarnefndar.“ Þetta telja þau í Aþenu óásættanlegt, hreyfingunni beri að skoða málin sjálfstætt. Í þessu sambandi er vísað til sagna kvenna sem Margrét Björg Ástvaldsdóttir þjálfari Aþenu og félagsfræðingur safnaði saman; kvenna sem upplifað höfðu vanvirðingu og áreitni inn á körfuknattleikshreyfingarinnar: Reynslusögur sem birtar voru nafnlaust á https://sidastasagan.com/ í febrúar 2021.

Hannes Sigurbjörn Jónsson er formaður KKÍ en hörð gagnrýni á störf hans birtist í myndbandi Aþenu sem og yfirlýsingu sem íþróttafélagið hefur sent frá sér.vísir/vilhelm

Jóhanna telur þær sögur afar upplýsandi um reynslu kvenna í körfuboltanum: „Á sama tímabili barði sambandið af sér gagnrýni. Viðbrögð formanns KKÍ voru þau að benda á að KKÍ gæti ekkert gert við nafnlausar sögur frá nafnlausum aðilum og teldu konur og stúlkur á sér brotið yrðu þær að leita til lögreglunnar eða koma til þeirra.“

Dæmdur nauðgari valinn í landsliðið

Í yfirlýsingunni er vikið að þessu, sagt að Hannes Sigurbjörn vilji ekki kannast við að neitt misjafnt hefði gerst innan hreyfingar í kynferðisáreitnimálum.

„Þó sagði hann að sambandið tæki á öllu sem það fengi inn á sitt borð og engu væri sópað undir teppið. Formaðurinn segir þetta þrátt fyrir að sambandið hafi í hans formannstíð valið mann sem dæmdur hafði verið fyrir nauðgun í landsliðið, en slíkt er óheimilt skv. lögum ÍSÍ, og þrátt fyrir að hafa rekið landsliðsþjálfara og dómara fyrir að áreita leikmenn kynferðislega og haldið ástæðu brottreksturs leyndri,“ segir í yfirlýsingunni.

Myndbandið sem nú birtist er á ensku kemur í framhaldi af myndinni „Hækkum rána“ sem vakti mikla athygli. Hún hefur verið sýnd víða um heim, meðal annars í Finnlandi þar sem hún hefur verið til umfjöllunar; var sýnd þar í kvikmyndahúsum og svo í skólum. Og nýlega vann hún til alþjóðlegra verðlauna; evrópsku barnakvikmyndasamtakanna European Children's Film Association sem veitt eru í tengslum við Berlinale kvikmyndahátíðina sem nú stendur yfir.


Aþena krefst aðgerða: Yfirlýsingin í heild sinni

Aþena íþróttafélag krefst aðgerða KKÍ gagnvart kynbundnu ofbeldi og áreitni

Jóhanna Jakobsdóttir skrifar f.h. Aþenu íþróttafélags

Á síðustu vikum hefur umræðan innan Aþenu íþróttafélags um forystu KKÍ undið upp á sig og hafa efasemdir aðstandenda Aþenu aukist um hvort KKÍ sé treystandi til að tryggja öryggi og réttindi iðkendanna. Töluverðar breytingar eru forsenda þess að traustið sé endurheimt.

Við gagnrýnum KKÍ harðlega fyrir aðgerðarleysi í kynbundum málum síðustu ár.

Aþena íþróttafélag gagnrýnir að:

  • KKÍ tryggi ekki ungum stúlkum og konum öruggt umhverfi til að stunda sína íþrótt
  • þöggun og yfirhylming sé yfir kynferðisáreitnimálum
  • gróf kynferðisáreitni fyrrverandi landsliðsþjálfara kvenna hafi verið þögguð, ástæðu uppsagnar þjálfarans haldið leyndri og að viðkomandi hafi síðan verið endurráðinn og starfi enn innan sambandsins
  • dómari sé látinn hætta í kyrrþey í kjölfar þess að hafa áreitt leikmenn
  • dæmdur nauðgari sé valinn í landslið karla, en slíkt er ekki aðeins siðlaust heldur óheimilt skv. lögum ÍSÍ
  • valdníðsla í formi sekta, eineltis og útskúfunar gagnvart þeim sem gagnrýna sambandið sé við lýði en sambandið veitir sjálfu sér heimild til að vísa öllum ummælum og gagnrýni sem það telur skaða ímynd leiksins og vega að starfsheiðri KKÍ til aganefndar
  • sambandið noti það sem afsökun fyrir aðgerðarleysi að konur leiti ekki til þeirra þegar þær verða fyrir áreitni eða ofbeldi
  • að KKÍ geri ekkert til að byggja upp traust ungra stúlkna og kvenna þannig að þær muni leita til þeirra þegar þær verða fyrir áreitni eða ofbeldi
  • ekki sé tekin afstaða í verki gegn kynferðisáreitni og kynferðisofbeldi og vitundarvakningar látnar duga

Aþena íþróttafélag krefst þess að KKÍ sýni í verki að tekið sé á kynbundnu ofbeldi og áreitni. Við ætlumst til að þar til ungar stúlkur og konur geti æft og keppt í körfubolta í öruggu umhverfi, að hlustað sé á þær og þeim sýnt í verki að réttindi þeirra skipti máli, meira máli en ímynd leiksins.

Það er óásættanlegt að þjálfun stúlkna í körfubolta þurfi enn að snúast um að berjast fyrir jöfnum tækifærum, kenna stúlkum hvað það þýðir að virða sjálfar sig í umhverfi sem lítur á þær sem þriðja flokks og að kenna þeim að stoppa eða takast á við áreitni og perraskap.

Árið 2018 var því heitið að íþróttahreyfingin myndi ekki sitja aðgerðarlaus varðandi þann vanda sem upplýst var um í #metoo byltingunni og krefjumst við þess að KKÍ standi skil á þessum loforðum. Ótækt er að forysta KKÍ stæri sig af því að vera þátttakendur í hinum og þessum vitundarvakningum en ætla öðrum að takast á við að uppræta vandamálin, eins og lögreglunni og ÍSÍ. Það er niðurlægjandi fyrir og vanvirðing við ungar stúlkur að heyra það frá forystunni að hún heyri af vandamálunum en sé ekki til að fara í markvissar aðgerðir.

Í orði og verki sendir forysta hreyfingarinnar beint og óbeint þau skilaboð til stúlkna að ekki verði tekið mark á þeim. Þær eigi að halda sér inni sínu boxi sem hreyfingin og samfélagið setur þeim, þekkja sinn stað og láta ekki í sér heyra. Stúlkur skulu vera svo þakklátar fyrir hænuskref fram á við í jafnréttismálum að í hvert sinn sem skref er tekið áfram þá mega þær ekki krefjast meira í bili. Þær eiga að vera þolinmóðar og sætta sig við “þetta sé að breytast”.

Forystan er ekki í formi til að taka gagnrýni og fer fljótt í vörn. Við efumst um að henni sé treystandi til þess að stunda sjálfskoðun eða sjálfsgagnrýni. Verk forystunnar benda til þess að mál séu þæfð og þögguð niður þar til þau eru þeim gleymd. Einelti, einræðistilburðir og valdníðsla virðast einkenna vinnubrögðin og hafa aðstandendur Aþenu ekki farið varhluta af því.

10 ára stúlkum og fjölskyldum þeirra var mætt af mikilli hörku þegar þær vöktu athygli á því haustið 2017 að þeim væri meinuð þátttaka á drengjamótum KKÍ þrátt fyrir að hafa spilað í tvö ár með drengjum á félagsmótum. Til drepa málinu á dreif þá hét stjórn KKÍ því að setja á laggirnar jafnréttisnefnd til fjalla um þessi mál. Ekkert hefur spurst til þessarar nefndar síðan.

Árið 2019 þegar 12 og 13 ára stúlkur mótmæla ákvörðun hreyfingarinnar að hafna breytingartillögum sem leyfir stúlkum og drengjum spila saman kom formaður KKÍ í sjónvarp þar sem hann sagði sambandið líta málið mjög alvarlegum augum. Hann sakaði auk þess þjálfara liðsins um einhvers konar ofbeldi, sem ástæðu fyrir því að stelpurnar létu í sér heyra, án þess að hafa nokkuð fyrir sér í þeim efnum.

Á stofnári Aþenu 2019 reyndi KKÍ margt til þess að víkja liðum félagsins úr keppni og tókst það tvisvar sinnum með óréttlátum hætti.

Landsliðsþjálfarar sambandsins hafa verið staðnir af því að tala illa um aðstandendur Aþenu á formlegum fundum og æfingum landsliðsins og sagt nýjum iðkendum að láta ekki plata sig í það að ganga til liðs við félagið.

Fyrir fjórum árum hóf Margrét Björg Ástvaldsdóttir þjálfari Aþenu og félagsfræðingur, að safna saman sögum kvenna sem upplifað höfðu vanvirðingu og áreitni inn á körfuknattleikshreyfingarinnar. Sú heimildasöfnun var mjög upplýsandi um reynslu kvenna innan hreyfingarinnar. Reynslusögur þeirra voru birtar nafnlaust á https://sidastasagan.com/ í febrúar 2021. Á sama tímabili barði sambandið af sér gagnrýni.

Viðbrögð formanns KKÍ voru þau að benda á að KKÍ gæti ekkert gert við nafnlausar sögur frá nafnlausum aðilum og teldu konur og stúlkur á sér brotið yrðu þær að leita til lögreglunnar eða koma til þeirra.

Formaðurinn kannaðist ekki við að neitt misjafnt hefði gerst innan hreyfingar í kynferðisáreitnimálum. Þó sagði hann að sambandið tæki á öllu sem það fengi inn á sitt borð og engu væri sópað undir teppið. Formaðurinn segir þetta þrátt fyrir að sambandið hafi í hans formannstíð valið mann sem dæmdur hafði verið fyrir nauðgun í landsliðið, en slíkt er óheimilt skv. lögum ÍSÍ, og þrátt fyrir að hafa rekið landsliðsþjálfara og dómara fyrir að áreita leikmenn kynferðislega og haldið ástæðu brottreksturs leyndri.

Það er óábyrgt af valdhöfum að vita af jafnalvarlegum vandamálum sem þessum og segjast ekkert geta gert af því engin komi og tali við sig. Það virðist ekki áríðandi fyrir forystuna að byggja upp traust þannig konur og stúlkur leiti til þeirra án tafar ef þær verða fyrir kynferðislegu ofbeldi eða áreitni innan hreyfingarinnar.

Í mars 2021 sendir KKÍ aðildarfélögum bréf og áréttar heimildir sínar til að vísa ummælum sem þau telja skaða ímynd leiksins og vega að starfsheiðri KKÍ til aga- og úrskurðarnefndar. KKÍ virðist í lófa lagið að setja sínar eigin agareglur óháð landslögum og því sætir furðu að sambandið sjái sér ekki fært að taka á kynferðislegri áreitni öðruvísi en að vísa konum til lögreglunnar.

Í síðasta ári gekk til liðs við Aþenu Fanney Lind Thomas sem einnig er móðir leikmanns í liði Aþenu. Byggt á frásögn hennar og reynslu teljum við það skyldu okkar að styðja okkar iðkendur og bregðast við.

Af hverju ættu stelpurnar í Aþenu, sem sambandið barði nokkrum sinnum harkalega niður opinberlega, að treysta þeim ef þær lenda í því að landsliðsþjálfari áreitir þær? Af hverju ættu unglingsstelpur að treysta sambandinu þegar þær sjá viðbrögðin við því að 10-13 ára stelpur veki athygli á sínum málstað? Af hverju ætti Fanney Lind og aðrar íþróttakonur sem lentu í svipuðu ofbeldi og áreitni og hún að leita til sambandsins næst þegar þær lenda í eða verða vitni að slíkum atvikum? Sambandið rekur landsliðsþjálfarann en ræður viðkomandi svo aftur síðar. Það er allt og sumt.

Forystan virðist ekki átta sig á fyrir hverju henni er treyst og hverjum hún þjónar. Formaður KKÍ telur að líkt og önnur fyrirtæki þá ætti hreyfingin ekki greina frá því þegar ástæða uppsagnar landsliðsþjálfara eða dómara er kynferðisleg áreitni. Augljóst er að landsþjálfari eða dómari er ekki venjulegur starfsmaður í fyrirtæki.

Við teljum afar óábyrgt að í fyrsta lagi vara foreldra iðkenda ekki við því að þjálfarar með meinta sögu um að hafa áreitt ungar landsliðskonur kynferðislega séu enn í þjálfarahóp yngri landsliða. Í öðru lagi teljum við það að það eigi að vera forgangsmál að tryggja öryggi og réttindi leikmanna. Körfuboltinn er algert aukaatriði og skiptir engu máli þar til öryggi er tryggt og réttindin virt. Foreldrar, stúlkur og konur verða að geta treyst því að fá að stunda sína íþrótt án þess að vera áreittar kynferðislega. Þær verða að geta treyst því að það sé sýnt í verki að kynferðislegt ofbeldi sé ekki liðið jafnvel þó öll landslið yrðu skyndilega þjálfaralaus um tíma ef öll mál væru tilkynnt til KKÍ.

Tími vitundarvakninga er liðinn. Tími aðgerða er núna.


Tengdar fréttir

„Umdeildasti körfuboltaþjálfari landsins“ og stelpurnar hans

Heimildarmyndin Hækkum rána, sem segir frá umdeildri vegferð stúlknaliðs ÍR undir stjórn þjálfarans Brynjars Karls Sigurðssonar, hefur vakið gríðarlega athygli síðustu daga. Viðbrögðin spanna fjölbreytt litróf skoðana en óhætt er að segja að aðferðir Brynjars séu umdeildar. Hér verður farið yfir fjölmiðlaumfjöllun um Brynjar og liðið undanfarin ár og skoðanaskipti síðustu daga gaumgæfð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.