Innherji

Íslenski markaðurinn ódýr, einkum ef Marel er tekið út fyrir sviga

Hörður Ægisson skrifar
Úrvalsvísitalan hefur lækkað um nærri 5 prósent frá áramótum.
Úrvalsvísitalan hefur lækkað um nærri 5 prósent frá áramótum. VÍSIR/VILHELM

Sé litið á helstu verðkennitölur íslenska hlutabréfamarkaðarins þá eru þær nokkuð lægri borið saman við helstu markaði í Evrópu og Bandaríkjunum. Þetta á einkum við ef Marel, langsamlega stærsta félagið í Kauphöllinni hér á landi, er undanskilið í slíkum samanburði.

Þetta kemur fram í nýrri greiningu greiningu Jakobsson Capital.

Þar segir að ef Marel, sem er með markaðsvirði upp á 622 milljarða og vigtar um 26 prósent af vísitölu allra skráðra félaga, sé tekið út fyrir sviga þá er hlutfall markaðsvirðis á móti hagnaði (P/E) um 16,8 fyrir íslensku fyrirtækin í Kauphöllinni. Miðgildi annarra vísitalna – S&P 500, Dow Jones og Eurostoxx 50 – á þennan mælikvarða er hins vegar nærri 21 sem þýðir að félögin sem eru að baki þeim vísitölum eru í flestum tilfellum um 25 prósentum dýrari en þau íslensku.

„Það að félög séu verðlögð á tæplega sautfjánföldum hagnaði þýðir að ef við gerum ráð fyrir óbreyttum hagnaði, þ.e. það muni ekki verða nein hagnaðaraukning eða samdráttur, mun ávöxtun vera um 6 prósent á Íslandi og 4,8 prósent ef horft er til stærstu vísitalna í Evrópu og Bandaríkjunum,“ segir í greiningu Jakobsson.

Úrvalsvísitala Kauphallarinnar (OMXI 10) hækkaði um 1,8 prósent á seinni helmingi síðasta árs. Hækkunin er hins vegar meiri ef horft er til heildarvísitölunnar, sem inniheldur öll skráðu íslensku félögin, en hún fór upp á sama tíma tæplega 12 prósent. Þar ræður mestu um að gengi stærstu félaganna á markaði, eins og Marel og Arion, annaðhvort lækkaði eða hækkaði lítið á tímabilinu á meðan smærri fyrirtækin – til dæmis Skeljungur og Eimskip – hafa hækkað mikið í verði.

Ef litið á aðrar verðkennitölur en markaðsvirði á móti hagnaði, útskýra greinendur Jakobsson, þá er niðurstaðan einnig sú að íslenski markaðurinn sé ódýr. Markaðsvirði íslenskra félaga með tilliti til eigin fjár (P/B) er þannig um 25 prósentum lægra en miðgildi annarra hlutabréfavísitalna. Það sama á við þegar litið er til heildarvirðis á móti rekstrarhagnaði (EV) er íslenski markaðurinn lágt verðlagður, hvort sem Marel er tekið með í reikninginn eða ekki.

Í greiningu Jakobsson er hins vegar nefnt að hafa verði í huga að hér sé verið að bera saman íslenska markaðinn við vísitölur landa sem eru mörgum „styrkleikaflokkum“ fyrir ofan Ísland. Hlutabréfamarkaðurinn hér heima hefur verið flokkaður sem vaxtarmarkaður (e. Frontier Market) hjá FTSE Russell frá því í september 2019 og hjá vísitölufyrirtækinu MSCI frá því í maí 2021. Í kjölfarið fór að bera á talsverðu innflæði á markaðinn, einkum í bréf Arion og Marel.

Ávöxtun landa í Frontier-vísitölunni á undanförnum tólf mánuðum er í mörgum tilfellum mjög há og verðkennitölur virðast lægri við fyrstu sýn, að sögn greinenda Jakobsson. Þannig er ávöxtun og verðkennitölur íslenska hlutabréfamarkaðarins mjög svipaðar og meðal landa í Frontier-vísitölunni eða Emerging-vísitölunni.

Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, sagði í viðtali við Innherja í lok síðasta árs að góðar líkur væru á því íslenski hlutabréfamarkaðurinn yrði færður upp um flokk hjá vísitölufyrirtækinu FTSE Russell á þessu ári. Við slíka hækkun mætti búast við innflæði upp á tugi milljarða króna frá erlendum sjóðum sem haga fjárfestingum sínum í samræmi við vísitölur fyrirtækisins.

Ísland og vaxtarmarkaðsríki

Í greiningu Jakobsson er bent á að fleiri félög séu oft á þeim mörkuðum sem mynda Frontier-vísitöluna samanborið við þann íslenska. Þannig séu um 45 félög á palenstínska markaðnum, eða um helmingi fleiri en á þeim íslenska. Miðgildi ávöxtunar landa valinna af handhófi í Frontier-vísitölunni var 29 prósent á síðustu tólf mánuðum en þess íslenska 30 prósent.

Þegar skoðaðar verðkennitölur hlutabréfamarkaða í vaxtar- og nýmarkaðsríkjum má sjá að þær eru háar á Indlandi, þar sem vægi tæknifyrirtækja er mikið, líkt og í Úrvalsvísitölunni ef Marel er tekið með. Íslenskar verðkennitölur, þegar Marel hefur verið tekið út fyrir sviga, eru frekar lágar í þessum samanburði og er hlutabréfamarkaðurinn hérlendis verðlagður svipað og í Eistlandi.

Athugasemd: Fréttin var uppfærð kl. 08:10 vegna reikningsvillu sem var í upphaflegu verðmati Jakobsson Capital.


Tengdar fréttir

Metár í útgreiðslum gæti skilað fjárfestum nálægt 200 milljörðum

Útlit er fyrir að arðgreiðslur og kaup íslenskra fyrirtækja í Kauphöllinni á eigin bréfum á næsta ári verði sögulega háar og geti samanlagt nálgast hátt í 200 milljarða króna. Það yrði þá tvöfalt meira en áætlað er að slíkar útgreiðslur til hluthafa félaganna hafi numið á árinu 2021, eða rúmlega 80 milljarðar, sem eru engu að síður þær mestu sem sést hafa frá endurreisn hlutabréfamarkaðarins eftir fjármálahrunið 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×