Innherji

Svanhildur Hólm: Er ASÍ að hvetja til uppsagna?

Ritstjórn Innherja skrifar
Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, og Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, og Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

Tólf mánaða verðbólga mælist nú 5,7 prósent og hefur ekki verið hærri í um áratug. Ljóst er að hækkandi verðbólga mun hafa áhrif á kjör landsmanna, vaxatastig Seðlabankans – og ekki síður á gerð kjarasamninga síðar á árinu.

Í nýjasta hlaðvarpsþætti Þjóðmála ræða þau Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, og Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, meðal annars þessi mál og hvort Seðlabankinn kunni að hafa farið of bratt í vaxtalækkanir í upphafi faraldursins.

Svanhildur Hólm rifjaði upp að Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hefði í liðinni viku hvatt fyrirtæki til að hagræða hjá sér í stað þess að hækka verð, en fyrir liggur að ýmsar innfluttar vörur og aðföng hafa hækkað í verði á heimsvísu sem hefur ýtt undir verðhækkun hér á landi. Hún minnir á að launakostnaður sé stór hluti af rekstrarkostnaði þeirra fyrirtækja sem ASÍ hefur fjallað um og að hann hafi hækkað mikið á síðustu árum.

„[Launakostnaður] hækkaði um nýliðin áramót og það er útlit fyrir að hagvaxtaraukinn detti inn í maí þannig að þá hækkar hann enn meira. Og þá spyr maður: Er ASÍ að hvetja fyrirtæki til að draga saman í starfsmannahaldi? Það hlýtur að vera hin hliðin á peningnum, því þar er þessi breytilegi kostnaður,“ segir Svanhildur Hólm.

Og þá spyr maður: Er ASÍ að hvetja fyrirtæki til að draga saman í starfsmannahaldi?

Höfrungahlaup milli opinbera og almenna markaðarins

Óli Björn segir að það sé miður að okkur sem þjóð hafi aldrei tekist að semja um launakjör á grundvelli samkeppnisstöðu atvinnuveganna – á grundvelli þessi bolmagns sem útflutningsgreinarnar bera. Það sé í raun hið skandinavíska módel. Samkeppnisstaða fyrirtækja á erlendum mörkuðum sé ekki skert með of miklum launahækkunum innanlands en launafólki um leið tryggð kaupmáttaraukning og betri kjör með stöðugleika og lágum vöxtum.

„Við höfum snúið þessu öllu við og það sem er verra, er að hið opinbera – ríkið og upp á síðkastið sveitarfélög – hafa í raun verið leiðandi í kjaramálum,“ segir Óli Björn.

„Að því leytinu hefur höfrungahlaup hafist á milli almenna markaðarins og hins opinbera, sem er auðvitað stórhættulegt. Hið opinbera má ekki og getur aldrei verið leiðandi í kjarasamningum. Það er áhyggjuefni að opinberir starfsmenn hafi hækkað meira í launum á undanförnum misserum heldur en starfsmenn á almennum vinnumarkaði.“

Við höfum snúið þessu öllu við og það sem er verra, er að hið opinbera – ríkið og upp á síðkastið sveitarfélög – hafa í raun verið leiðandi í kjaramálum.

Í þættinum er því einnig velt upp hvort að Seðlabankinn hafi lækkað vexti of hratt í upphafi kórónuveirufaraldursins, hvort að komandi sveitastjórnarkosningar kunni að hafa neikvæð áhrif á hagkerfið, ákvörðun stjórnvalda um að framlengja sóttvarnarráðstöfunum og hvaða áhrif núverandi staða og horfur hafa á stjórnmálin og samstarf ríkisstjórnarflokkanna.


Tengdar fréttir

Ekki útilokað að Seðlabankinn hækki vexti um 1 prósentu í einu vetfangi

Ekki er útilokað að Seðlabanki Íslands ákveði að hækka stýrivexti um 1 prósentu á næsta vaxtaákvörðunarfundi í febrúar. Verðbólgumælingin fyrir janúar var mikið frávik í sögulegu samhengi og undirliggjandi verðbólguþrýstingur er umtalsverður. Þetta segir Birgir Haraldsson, sjóðstjóri hjá Akta.

Heildsölur hafa ekki séð viðlíka hækkanir á einu bretti

Stærstu heildsölur landsins hafa ekki séð á eins víðtækar og skarpar verðhækkanir, og þær sem hafa gengið yfir á síðustu vikum. Fyrirtækin koma litlum vörnum við og telja að hækkanir frá erlendum framleiðendum og birgjum eigi eftir að seytla inn í smásöluverð á næstu mánuðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×