Innherji

PLAY boðar lægsta verðið til New York, spara milljónir dala á lítt þekktum velli

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Birgir Jónsson, forstjóri Play.
Birgir Jónsson, forstjóri Play. Vísir/Vilhelm

Flugfélagið PLAY getur boðið lægstu fargjöldin á flugi frá New York til Evrópu eftir að hafa náð hagstæðum samningum við lítinn flugvöll í nágrenni borgarinnar. Flugfélagið tryggði sér þannig mun betri kjör en keppinautar þess fá á stærri og þekktari flugvöllum í New York.

PLAY mun í dag hefja miðasölu á flugi til New York og bjóða upp á daglegt flug frá 9. júní. Flogið er til flugvallarins New York Stewart International og verður PLAY eina flugfélagið með millilandaflug til og frá vellinum.

„Í stað þess að fara inn á flugvelli þar sem öll samkeppnin er saman komin þá fundum við okkur völl sem er ekki eins þekktur. Hagsmunaaðilar á vellinum lögðu mikið á sig til að fá okkur inn á völlinn en eftir að hafa kynnt okkur völlinn og alla kostina vorum við ekki lengi að stökkva á vagninn. Við fáum afslátt af öllum gjöldum,“ segir Birgir.

„Þetta gerir okkur kleift að bjóða lægstu fargjöldin frá Evrópu til New York. Við erum að fara inn á völl sem er miklu ódýrari en hinir og þannig getum við lækkað verðið án þess að án þess að höggva í framlegðina,“ bætir hann við.

Lendingargjöld á Stewart flugvelli eru 80 prósentum ódýrari en á öðrum flugvöllum í New York og minni umferð um flugvöllinn skila sér í minni eldsneytiskostnaði. Flugvélar PLAY eyða minni tíma í akstur á jörðu niðri og í biðflugi.

Það er auðvelt að bjóða lág fargjöld en erfitt að halda kostnaði lágum.

„Við náum að spara nokkrar milljónir dala á ári með því að fljúga á þennan völl frekar en hina. Þessi ákvörðun er gott dæmi um að við séum að fylgja eftir þeirri stefnu að vera alvöru lággjalda flugfélag. Það er auðvelt að bjóða lág fargjöld en erfitt að halda kostnaði lágum. Reynslan sýnir að viðskiptalíkön sem snúast um að fórna framlegð fyrir lág fargjöld ganga ekki upp.“

Stewart flugvöllur er í um 75 mínútna fjarlægð frá Times Square á Manhattan. Þótt fjarlægðin á korti sé meiri frá Stewart flugvelli til Manhattan heldur en frá JFK eða Newark þá eru farþegar sem fara í gegnum þessa flugvelli oftast nær álíka lengi að koma sér til Manhattan að sögn Birgis.

Þá segir hann að samgöngur frá Stewart til Manhattan séu greiðar. Rútur er ódýrasti kosturinn og verða ferðir þeirra tímasettar eftir komum og brottförum íslenska flugfélagsins.

Þurfa að setja púður í að kynna völlinn sem valkost

Flugvöllurinn er staðsettur í suðvesturhluta Hudson-dals þar sem rúmlega tvær milljónir manna búa. Birgir segir að Hudson-dalurinn sé það svæði New York ríki þar sem íbúafjöldi hefur vaxið hvað hraðast á undanförnum árum.

„Það er stórt svæði í kringum flugvöllinn sem hefur engar alþjóðlegar tengingar og við verðum í raun eina flugfélagið sem tengir þetta svæði við Evrópu,“ segir Birgir.

New York Stewart InternationalAðsend mynd

Aðspurður segir Birgir að eini ókosturinn við valið á þessum flugvelli sé hversu fái kannast við hann. „Við þurfum að leggja meira á okkur til að kynna þetta heldur en ef við værum að fljúga til JFK. En við erum sannfærð um að þetta sé mjög góð viðskiptaleg ákvörðun.“

Þetta er þriðji áfangastaður félagsins í Bandaríkjunum en flug til Logan flugvallar í Boston hefst í maí og til Baltimore/Washington International flugvallar í apríl.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.