Innherji

Uppstokkun á næsta aðalfundi Eikar

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Smáratorg er á meðal fasteigna í eignasafni Eikar. 
Smáratorg er á meðal fasteigna í eignasafni Eikar.  VÍSIR/VILHELM

Fyrirséð er að stjórn Eikar fasteignafélags taki breytingum á næsta aðalfundi sem verður haldinn í lok mars en tveir stjórnarmenn félagsins hyggjast ekki sækjast eftir endurkjöri.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar kom fram að Eyjólfur Árni Rafnsson, stjórnarformaður Eikar og Samtaka atvinnulífsins, og Kristín Friðgeirsdóttir, fjármálastjóri Sýnar, hefðu upplýst tilnefningarnefnd fasteignafélagsins um að þau myndu ekki bjóða sig fram í stjórn félagsins. Eyjólfur Árni hefur setið í stjórn Eikar frá árinu 2016 en Kristín frá því í fyrra.

Í stjórninni sitja einnig Guðrún Bergsteinsdóttir, eigandi LOCAL lögmanna, Hersir Sigurgeirsson, dósent í fjármálum við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, og Ragnheiður Harðar Harðardóttir, forstjóri Opinna kerfa.

Fjárfestingafélagið Brimgarðar er langsamlega stærsti hluthafi Eikar með ríflega 16 prósenta beinan hlut en næst á eftir kemur Gildi lífeyrissjóður með 8,7 prósenta hlut.

Fulltrúar Brimgarðar hafa haft sterkar skoðanir á fyrirkomulagi stjórnarkjörs hjá Eik, einkum tilnefningarnefnd. Fjárfestingafélagið hefur, til að mynda, kallað eftir hámarkslengd á setu hvers stjórnarmanns, og því að sjálfkrafa verði gripið til margfeldiskosninga. 

Var þessum tillögum ætlað að auka endurnýjun og veita þeim sem eru á móti niðurstöðum tilnefninganefnda tækifæri til að hafa áhrif á samsetningu stjórnar. Þá hafa Brimgarðar einnig gert athugasemdir við að varaformaður stjórnar sé á sérkjörum miðað við óbreytta stjórnarmenn. 

Stjórnarkjör á síðasta aðalfundi Eikar var ekki í samræmi við tillögur tilnefningarnefndar en þá kom Ragnheiður Harðar ný inn í stjórnina í stað Bjarna K. Þorvarðarson, sem nefndin hafði mælti með.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×