Innherji

Fjármálaráðherra hefur tilmæli Samkeppniseftirlitsins til skoðunar

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Rekstur Isavia er á ábyrgð stjórnar fyrirtækisins sem skipuð er af fjármála- og efnahagsráðherra, sem jafnframt fer með eignarhlut ríkisins í félaginu.
Rekstur Isavia er á ábyrgð stjórnar fyrirtækisins sem skipuð er af fjármála- og efnahagsráðherra, sem jafnframt fer með eignarhlut ríkisins í félaginu. Vísir/Vilhelm

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að ráðuneytið muni, eftir því sem tilefni er til, bregðast við þeim alvarlegu athugasemdum sem Samkeppniseftirlitið hefur gert við starfsemi Isavia. Hann tekur þó fram að það sé ekki hlutverk ráðuneytisins að hlutast til um einstaka rekstrarákvarðanir. Þetta segir ráðherra í skriflegu svari við fyrirspurn Innherja.

Samkeppniseftirlitið birti nýlega álit um Isavia þar sem háttsemi ríkisfyrirtækisins er sögð vekja áleitnar spurningar um það hvernig Isavia nálgast samkeppni og samkeppnismál.

Eftirlitsstofnunin birtir ekki álit af þessu tagi nema það telji að ákvæði laga eða stjórnvaldsfyrirmæli stríði gegn markmiði samkeppnislaga eða torveldi frjálsa samkeppni. Stofnunin byggir álitið meðal annars á þeim fjölmörgu álitamálum sem hafa komið upp á liðnum árum í tengslum við háttsemi Isavia.

„Það skiptir máli að virkt aðhald sé til staðar þegar ríkisfyrirtæki starfa á samkeppnismarkaði, eða sinna verkefnum sem víða annars staðar eru í höndum einkaaðila. Hvað þetta tiltekna álit varðar þá hefur ráðuneytið það til skoðunar,“ segir í svari ráðherra.

Rekstur Isavia er á ábyrgð stjórnar fyrirtækisins sem skipuð er af fjármála- og efnahagsráðherra, sem jafnframt fer með eignarhlut ríkisins í félaginu. 

Í áliti Samkeppniseftirlitsins er lögð áhersla á mikilvægi þess að stjórnvöld beiti virku eigendaaðhaldi gagnvart þeirri mikilvægu starfsemi sem fram fer á vettvangi Isavia og að horft verði til tilmæla stofnunarinnar við endurskoðun eigendastefnu Isavia.

Samningar sem Isavia hefur gert um veitingaþjónustu og bankaþjónustu í flugstöðinni, og við rútufyrirtæki um aðstöðu við flugstöðina hafa komið á borð Samkeppniseftirlitsins á undanförnum árum. Auk þess hefur eftirlitið tekið fyrir samkeppnishamlandi fyrirkomulag við úthlutun á afgreiðslutímum til flugfélaga og stöðvað gjaldtöku Isavia á stæðum fyrir fólksflutninga vegna samkeppnishindrana.

Þá rifjaði Samkeppniseftirlitið upp að Samgöngustofa hefði í tvígang þurft að snúa við ákvörðunum Isavia vegna afturköllunar á leyfi flugafgreiðslufyrirtækis, og að Isavia hefði lagt stein í götu tveggja bílageymslufyrirtækja sem starfa í samkeppni við ríkisfyrirtækið.

Ráðherra svaraði ekki sérstaklega þeirri spurningu sem sneri að því hvort líðandi væri að ríkisfyrirtæki hegðaði sér með þeim hætti sem Samkeppniseftirlitið lýsti í áliti sínu. 

„Það er mikilvægt að muna að skýr ábyrgðarskil gilda um stjórnarhætti slíkra félaga og ráðuneytið hlutast ekki til um einstakar rekstrarákvarðanir. Hlutverk ráðuneytisins er fyrst og fremst að hafa yfirsýn yfir að reksturinn sé sjálfbær og innan ramma laga, reglna og eigendastefnu,“ segir í svari ráðherra.

Samkeppniseftirlitið hefur beint átta tilmælum til ráðherra málaflokksins sem miða að því að skapa heilbrigða umgjörð um starfsemi á Keflavíkurflugvelli, draga úr óhagkvæmni í rekstri hans og efla ferðaþjónustu. Ráðherra segir að brugðist verði við tilmælunum „eftir því sem tilefni er til.“

„Það má líka nefna,“ bætir hann við, „að í viðauka við eigendastefnuna, sem sérstaklega snýr að Isavia, er þegar fjallað um mörg þeirra atriða sem Samkeppniseftirlitið kallar eftir ramma um.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×