Umræðan

Varúð!

Ísak Rúnarsson skrifar

Árið er 1997. Úrslitarimma Chicago Bulls og Utah Jazz í körfuknattleik er að ná hápunkti og fremstur í flokki Bulls-liða fer enginn annar en Michael nokkur Jordan. Hvort lið um sig hafði unnið tvo af fyrstu fjórum leikjum rimmunnar og komið var að fimmta leiknum sem allir vissu að væri gríðarlega mikilvægur. Skömmu fyrir leikinn veiktist Jordan og ólíklegt þótti að hann gæti spilað. Þrátt fyrir að vera augljóslega veikburða og sárþjáður spilaði hann þó og tókst með undraverðum hætti að skora 38 stig og leiða liðið til sigurs. Síðan þá hefur leikurinn gjarnan verið kallaður „flensuleikurinn,“ þó nýlega hafi komið í ljós að líklega var Jordan með matareitrun en ekki flensu.

Velta má fyrir sér hvort leikur Íslands og Frakklands á EM 2022 verði innan fárra ára kallaður „Covidleikurinn“ eða „kórónuleikurinn“. Liðið stóð þétt saman og þótt margir lykilleikmenn hafi þurft frá að hverfa vegna smita stigu aðrir upp, áttu heimsklassa frammistöðu og völtuðu yfir Ólympíumeistarana með ógleymanlegum hætti. Af þeim verður ekkert tekið í þessu mikla afreki.

Það er þó ekki laust við því að manni þyki hálfbroslegt að hugsa til þess hvernig atburðarásinni í kringum þennan leik kann að verða lýst þegar fram líða stundir. „Átta leikmenn íslenska landsliðsins smituðust af kórónuveirunni og máttu ekki spila, þeir voru reyndar flestir ef ekki allir nær einkennalausir samt sem áður og hefðu sennilega getað spilað þannig séð.“

Það myndi seint teljast réttlætanlegt að slengja öllum þeim sem finna fyrir hjartsláttaróreglu rakleiðis upp á borð hjá Lækna-Tómasi, þeir opnaðir og hjartað skoðað með berum augum.

Það er allavega ljóst að væri Michael Jordan á hátindi ferilsins nú og smitaðist af Covid hefði honum ekki verið gefið tækifæri til að vinna þá hetjudáð sem nú hefur verið talað um í 25 ár – en á móti kemur að ef hann hefði smitast af ómíkron afbrigðinu og verið bólusettur, hefðu einkenni hans að líkindum ekki verið eins slæm og forðum daga með matareitrunina.

En landsliðið er ekki eitt um þessar einkennilegu en nær einkennalausu aðstæður. Víða í samfélaginu hefur góður hluti starfsliðs vinnustaða þurft frá að hverfa vegna sóttkvía og einangrunar, flestir alveg eða nær einkennalausir. Það er ekki á öllum stöðum hægt að kalla inn nýtt fólk og sumstaðar hefur reynst erfitt að halda eðlilegri starfsemi gangandi vegna þessa, líkt og í skólum og á spítalanum. Í sumum atvinnugreinum hefur mótið hreinlega verið blásið af; í listum, á skemmtistöðum og víða annarsstaðar eins og vel er þekkt. Þá hafa fjöldamörg börn ítrekað þurft að sæta sóttkví og einangrun með tilheyrandi röskun á menntun þeirra og líðan. Spár um innlagnartíðni og alvarleg veikindi hafa sem betur fer ekki ræst og fyrstu skref afléttinga hafa þegar verið tekin.

Á meðan sumir tala fyrir því að farið verði í afléttingar hratt og örugglega tala ráðamenn heilbrigðismála hins vegar fyrir því að stigin verði varfærnisleg skref. Hér telja þau sig sennilega vera að beita varúðarreglunni, þ.e. að gæta eigi fyllstu varúðar andspænis óvissu þar sem möguleg útkoma getur verið skaðleg. Sem dæmi um varúðarregluna má nefna að jafnvel þótt margir ef ekki flestir sem finna fyrir einhverskonar hjartsláttaróreglu séu ekki í sérstakri hættu á að fá hjartaáfall, sé rétt að gæta fyllstu varúðar og ganga úr skugga um að ekki sé hætta á ferðum þegar fólk upplifir slík einkenni.

Það er engin ástæða til að skapa enn frekari fordæmi fyrir því að mjög takmörkuð neyð réttlæti víðtækar skerðingar á borgaralegum réttindum.

Varúðarreglunni verður þó ekki beitt í tómarúmi heldur verða varúðarráðstafanir að vera viðeigandi, og í samræmi við tilefnið. Það myndi seint teljast réttlætanlegt að slengja öllum þeim sem finna fyrir slíkri óreglu rakleiðis upp á borð hjá Lækna-Tómasi, þeir opnaðir og hjartað skoðað með berum augum. Bæði væru slíkar aðgerðir kostnaðarsamar og gengju freklega á takmarkaðir auðlindir (til dæmis tíma Tómasar) en hefðu einnig í för með sér óþarfa áhættu fyrir sjúklinginn.

Að sama skapi er ekki tilefni til þess að taka áhættuna á að fleiri fyrirtæki fari í gjaldþrot, nemendur flosni upp úr námi, eða að geðheilsa versni og félagsleg vandamál grasseri í nafni einhliða varfærni þegar forsendur fyrir aðgerðunum eru ekki til staðar. Það á til að gleymast í hita leiksins, að oflækningar smitsjúkdóma geta haft býsna alvarlegar aukaverkanir. Það er sömuleiðis engin ástæða til að skapa enn frekari fordæmi fyrir því að mjög takmörkuð neyð réttlæti víðtækar skerðingar á borgaralegum réttindum. Og þrátt fyrir að það sé hrífandi að sjá hetjur landsins – hvort sem það eru landsliðsmenn eða starfsmenn á plani hversdagsleikans – stíga upp og vinna kraftaverk, þá er einfaldlega farsælla að leyfa þeim sem eru á annað borð leikfærir að spila. Það er ekki eftir neinu að bíða.

Höfundur er MPA nemi við Harvard og MBA nemi við Dartmouth



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×