Erlent

Lifði tvö­földu lífi og segir af sér sem verka­lýðs­leið­togi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Per Christensen átti bæði eiginkonu og kærustu.
Per Christensen átti bæði eiginkonu og kærustu. Ole Jensen - Corbis/Corbis via Getty Images)

Per Christensen, formaður stærsta verkalýðsfélags Danmerkur, hefur sagt af sér eftir að upp komst að hann lifði tvöföldu lífi.

Danskir fjölmiðlar greindu frá því að Christensen, formaður verkalýðsfélagsins 3F sem er með rúmlega 260 þúsund meðlimi, hefði árum saman verið í sambandi með minnst tveimur konum, án þess að þær vissu af hvor annarri.

Var hann giftur annarri þeirra og í sambandi með hinni. Hafa danskir fjölmiðlar meðal annars greint frá því að hann hafi í raun átt tvö sett af tengdaforeldrum, tvö sett af vinum og svo framvegis.

Hann hafi farið í frí með hvorri konu fyrir sig, farið í afmæli og þar fram eftir götunum án þess að neitt kæmist upp.

Varaformaður 3F, Tina Christensen, segir að eftir að málið hafi komist upp hafi skugga verið varpað á hæfi formannsins fyrrverandi til að gegna embættinu. Komist hafi verið að sameiginlegri niðurstöðu um að hann myndi stíga til hliðar.

Sjálfur segist Christensen fráfarandi formaður sjá mjög eftir að hafa blekkt konurnar tvær og fjölskyldur þeirra. Hann hafi elskað þær heitt en ekki getað valið á milli þeirra. Hann segir þá af og frá að um einhvers konar #Metoo-mál sé um að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×