Klinkið

Miklar breytingar hjá Motus

Ritstjórn Innherja skrifar
Frá vinstri: Magnea Árnadóttir, Eva Dögg Guðmundsdóttir og Sigríður Laufey Jónsdóttir. Á myndina vantar Bjarka Snæ Bragason.
Frá vinstri: Magnea Árnadóttir, Eva Dögg Guðmundsdóttir og Sigríður Laufey Jónsdóttir. Á myndina vantar Bjarka Snæ Bragason.

Fjórir nýir stjórnendur hafi komið til starfa hjá Motus á sviði upplýsingatækni, innheimtu, samskipta og viðskiptastýringar. Þau eru Bjarki Snær Bragason, Eva Dögg Guðmundsdóttir, Magnea Árnadóttir og Sigríður Laufey Jónsdóttir. 

„Það er mikill fengur í því að fá þetta kraftmikla og hæfa fólk í stjórnendateymi okkar. Framundan eru spennandi tímar hjá fyrirtækinu. Við höfum verið að vinna að ýmsum breytingum á innra skipulagi og stefnumótun en áfram leggjum við kapp á að tryggja fjölmörgum viðskiptavinum okkar örugga kröfustýringu. Það er mikilvægur þáttur í því að stuðla að vexti og viðgangi í íslensku efnahagslífi,“ segir Brynja Baldursdóttir, forstjóri Greiðslumiðlunar Íslands, móðurfélags Motus.

Bjarki Snær Bragason hefur tekið við starfi forstöðumanns upplýsingatæknisviðs en hann hefur víðtæka reynslu á sviði upplýsingatækni, nú síðast úr eigin rekstri sem sjálfstæður ráðgjafi. Á árunum 2015-2020 gegndi Bjarki hinum ýmsu stjórnunarstörfum í upplýsingatækni hjá Össuri og þar á undan hjá Íslandsbanka. Hann er með BSc gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Eva Dögg Guðmundsdóttir hefur verið ráðin í nýja stöðu markaðsstjóra og hefur umsjón með samskiptum, fræðslu og markaðsmálum. Hún hefur starfað að markaðs- og kynningarmálum hér heima og erlendis í yfir tuttugu ár. Áður var hún meðal annars markaðsstjóri Creditinfo, verkefnastjóri hjá Marel og ráðgjafi hjá auglýsingastofunni Jónsson & Lemacks.

Magnea Árnadóttir er nýr fjármálastjóri og kemur til félagsins með mikla reynslu frá Íslandsbanka þar sem hún starfaði í tæp 13 ár sem forstöðumaður á viðskiptabankasviði, í áhættustýringu og í markaðsviðskiptum. Magnea lauk meistaranámi í fjármálum fyrirtækja (MCF) frá Háskólanum í Reykjavík 2021 og er með BSc gráðu í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands.

Sigríður Laufey Jónsdóttir hefur tekið við stöðu forstöðumanns innheimtusviðs. Hún kemur frá Creditinfo þar sem hún starfaði sem lögfræðingur og persónuverndarfulltrúi og hefur víðtæka reynslu af innheimtustarfsemi. Áður starfaði hún sem forstöðumaður innheimtudeildar Búnaðarbanka Íslands, sviðsstjóri innheimtu og greiðendaþjónustu hjá Motus og sem sviðsstjóri hjá Umboðsmanni skuldara. Hún er lögfræðingur frá Háskóla Íslands með héraðsdómslögmannsréttindi.

Móðurfélag Motus er Greiðslumiðlun Íslands en önnur dótturfélög þess eru Faktoría og Greiðslumiðlun, sem á og rekur Pei greiðslulausnina.

Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×