Innherji

Krafa ríkisbréfa hefur ekki verið hærri síðan vorið 2019

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Hækkandi ávöxtunarkrafa á ríkisbréfum hefur áhrif á fjármagnskostnað fyrirtækja og heimila.
Hækkandi ávöxtunarkrafa á ríkisbréfum hefur áhrif á fjármagnskostnað fyrirtækja og heimila. VÍSIR/VILHELM

Ávöxtunarkrafa tíu ára ríkisskuldabréfa hefur hækkað töluvert á síðustu mánuðum í takt við þróun á erlendum skuldabréfamörkuðum og versnandi verðbólguhorfur um allan heim.

„Við höfum séð Seðlabanka Bandaríkjanna gefa merki um að hann muni hækka vexti og draga úr magnbundinni íhlutun til að sporna við mikilli verðbólgu. Ávöxtunarkrafan erlendis hefur því hækkað töluvert og þær hækkanir hafa einnig haft áhrif hér á landi,“ segir Ingólfur Snorri Kristjánsson, forstöðumaður skuldabréfastýringar Íslandssjóða.

Ávöxtunarkrafan stendur í 4,35 prósentum en til samanburðar var hún rétt rúmlega 4 prósent í byrjun árs og 3,4 prósent í byrjun ágústmánaðar 2021. Hún var síðasta á þessum slóðum vorið 2019.

Hækkandi ávöxtunarkrafa á ríkisbréfum hefur áhrif á fjármagnskostnað fyrirtækja og heimila. Bankarnir fjármagna til að mynda fasteignalán til heimila með útgáfu sértryggðra skuldabréfa og viðskipti með þau bréf fylgja þróun á ríkisbréfamarkaðnum.

Eins hefur skuldabréfaútgáfa fyrirtækja vaxið á undanförnum árum og hækkandi ávöxtunarkrafa hefur áhrif því á þeirra fjármagnskostnað. Þá eru áhættulausir vextir ríkisskuldabréfa grunnurinn í allri verðmyndun á hlutabréfum.

Financial Times greindi í síðustu viku frá því að ávöxtunarkrafa þýskra ríkisskuldabréfa til tíu ára hefði sveiflast upp fyrir núllið í fyrsta sinn frá árinu 2019. Á evrusvæðinu nam tólf mánaða verðbólga 5 prósentum í desember sem er hæsta mælingin frá því að evran var kynnt til sögunnar fyrir rúmlega tveimur áratugum síðan. Seðlabanki Evrópu hefur lýst því yfir að bankinn muni draga úr magnbundinni íhlutun, þ.e. uppkaupum á skuldabréfum, í vor.

Ingólfur Snorri Kristjánsson, forstöðumaður skuldabréfastýringar Íslandssjóða.

Þá nam tólf mánaða verðbólga í Bandaríkjunum nam 7 prósentum í desember og hefur ekki verið hærri í fjóra áratugi. Jay Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, hefur lýst því yfir að verðbólga sé „alvarleg ógn“ gagnvart efnahagsbatanum þar í landi.

Á Íslandi mælist verðbólga nú 5,1 prósent og hefur ekki mælst hærri í rúm níu ár. Samkvæmt verðbólguspá Íslandsbanka mun verðbólga hjaðna jafnt og þétt þar til hún nær 2,5 prósenta markmiði Seðlabankans á fyrsta ársfjórðungi 2023.

„Seðlabankar um heim allan hafa verið duglegir við að nýta efnahagsreikning sinn til þess að kaupa skuldabréf. Seðlabanki Íslands hafði boðað magnbundna íhlutun í upphafi faraldursins en var hikandi við að nýta það úrræði og að endingu var það varla notað. Að því leytinu til erum við í betri stöðu en margar aðrar þjóðir,“ segir Ingólfur Snorri.

Það eru hins vegar merki um að innfluttar vörur verði fyrirferðameiri í komandi verðbólgumælingum en áður. Magnús Óli Ólafsson, forstjóri heildverslunarinnar Innnes, sagði í samtali við Innherja í síðustu viku að búast mætti við verulegum hækkunum á verðlagi eftir því sem áhrif hækkana frá erlendum birgjum brjótast fram á smásölumarkaði. Honum kæmi ekki á óvart ef verð innfluttra vara myndi hækka um 10 til 12 prósent á næstu mánuðum.

Aðrar heildsölur sögðust ekki hafa séð eins víðtækar og skarpar verðhækkanir, og þær sem hafa gengið yfir á síðustu vikum. Jón Mikael Jónasson, framkvæmdastjóri Danól, sem flytur inn vörur frá 170 framleiðendum um allan heim, sagði að það heyrði til undantekninga ef framleiðandi hefði ekki boðað verðhækkun.

Á næstu mánuðum gætum við séð hlutfall innfluttrar verðbólgu vega þyngra.

„Við sáum ekki eins miklar hækkanir á innfluttu verðlagi og verðbólgutölur erlendis gáfu til kynna á síðasta ári. Að einhverju leyti hefur styrking krónunnar vegið upp á móti og eins er það líklegt að hækkanirnar eigi eftir að koma inn í mælingar hér heima“ segir Ingólfur Snorri. 

„Húsnæðismarkaðurinn var stærsti einstaki áhrifaþátturinn á verðbólgu á síðasta ári en á næstu mánuðum gætum við séð hlutfall innfluttrar verðbólgu vega þyngra.“

Þegar Seðlabankinn hækkaði vexti um 50 punkta í nóvember vísaði bankinn til versnandi verðbólguhorfa sem endurspegluðu einkum þrálátar alþjóðlegar verðhækkanir, hækkun launakostnaðar og aukna spennu í þjóðarbúinu.

Stýrivextir Seðlabankans eru nú 2 prósent en Ingólfur Snorri bendir á að þróun ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa á Íslandi gefi til kynna að markaðurinn hafi verðlagt inn 1,75 prósentustiga vaxtahækkun af hálfu Seðlabankans á þessu ári.


Tengdar fréttir

Hótun verkalýðsleiðtoga yfirlýsing um að þeir ætli að semja um verðbólgu

Seðlabankastjóri telur að það hafi verið „mistök“ af hálfu aðila vinnumarkaðarins að ná ekki saman í haust um að falla frá hinum svonefnda hagvaxtarauka á næsta ári, sem tryggir launafólki hlutdeild í ávinningnum þegar landsframleiðsla á hvern íbúa eykst, en hann mun að óbreyttu virkjast og leiða til enn meiri launahækkana en áður var spáð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.