Innherji

Útboð hins opinbera dragast saman um 15 milljarða króna milli ára

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Samdráttur í útboðum er áhyggjuefni að mati Samtaka iðnaðarins. 
Samdráttur í útboðum er áhyggjuefni að mati Samtaka iðnaðarins.  VÍSIR/VILHELM

Áætluð heildarupphæð í útboðum þeirra opinberu aðila sem fram komu á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins 2022 nemur á þessu ári samtals 109 milljörðum króna. Það er um 15 milljörðum minna en sömu aðilar áætluðu að yrði boðið út árið 2021. Þetta kemur fram í greiningu samtakanna.

Samtökin benda á að fyrirhuguð útboð segi hins vegar ekki alla söguna hvað varðar framkvæmdir á árinu þar sem það geta verið verk sem klárast ekki endilega innan ársins. Auk þess verður stundum ekki af útboðum eða þau frestast.

Áætluð fjárfesting í verklegum framkvæmdum opinberra aðila sem fram komu á þinginu árið 2022 nemur 125 milljörðum sem er um 20 milljörðum meira en á síðasta ári. Þó að verklegar framkvæmdir þessa árs komi til með að verða umfangsmeiri en framkvæmdir síðasta árs þá er umfang fyrirhugaðra útboða nú að dragast saman á milli ára.

Sá samdráttur er áhyggjuefni að mati Samtaka iðnaðarins. „Samtök iðnaðarins leggja áherslu á mikilvægi þess að fjárfesting í innviðauppbyggingu sé næg og viðhaldi innviða sinnt en með því er rennt stoðum undir hagvöxt framtíðarinnar. Samtök iðnaðarins telja því mikilvægt að ekki sé dregið úr útboðum opinberra fjárfestinga á sviði innviða. Þvert á móti er ástæða til að auka útboð fjárfestinga í innviðum og tryggja framgang efnahagslega arðbærra verkefna á því sviði,“ segir í greiningu samtakanna.

Reykjavíkurborg boðar umfangsmestu framkvæmdirnar á þessu ári. Borgin áætlar að fjárfesta fyrir ríflega 32 milljarða sem er umtalsverð aukning frá því í fyrra ef áætlanir ná fram að ganga. Meðal þess sem er í áætlunum borgarinnar fyrir árið er uppbygging grænna íbúðahverfa og athafnasvæða víða um borgina. Auk þess eru grænni samgöngur, umhverfismál og önnur samfélagsleg verkefni á dagskrá á þessu ári.

Vegagerðin boðar nú framkvæmdir fyrir um 26 milljarða en það er nokkur lækkun frá 2021 þegar fjárfest var fyrir rúmlega 37 milljarða. Af fjárheimildum stofnunarinnar fyrir árið í ár eru tæpir 17 milljarðar til nýframkvæmda og um 9 milljarðar til viðhaldsverkefna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×