Umræðan

Slökkvistarf í borginni

Hildur Björnsdóttir skrifar

Reglulega berast fregnir af húsnæðisskorti á höfuðborgarsvæðinu. Fyrstu vikuna í janúar voru á söluskrá 487 íbúðir, en það eru 20 prósent færri eignir en mánuði fyrr. Fjöldi einbýla og íbúða í fjölbýli eru í sögulegu lágmarki og enn eitt metið féll á höfuðborgarsvæðinu í nóvember þegar nær helmingur allra seldra íbúða seldist yfir ásettu verði. Skorturinn er áþreifanlegur.

Reykjavíkurborg sem stærsta sveitarfélag landsins bera ríka ábyrgð á því ástandi sem upp er komið. Ekki skortir framtíðarsýn fyrir íbúðauppbyggingu í borginni og ýmsar ágætar skipulagsáætlanir hafa litið dagsins ljós á undanliðnum árum - en betur má ef duga skal – og fögur fyrirheit duga skammt ef framkvæmdin er ekki í lagi.

Upp á síðkastið hafa borgarbúar mátt þola langdreginn leikþátt þar sem sögusviðið er Bústaðarvegur í Reykjavík. Þar lögðu borgaryfirvöld fram þéttingaráform sem mættu svo mikilli andstöðu að borgarstjóri neyddist til að afturkalla áformin. Séu tillögurnar rýndar skyldi engan undra. Hvítum klunnalegum kössum var komið fyrir á þröngum ræmum meðfram götunni. Útfærslan svo óvönduð að ætla mætti að ásetningur hafi staðið til að stuða íbúa – vitaskuld upplifðu íbúar áformin sem ógn við sitt nærumhverfi. Í kjölfarið hófst meirihlutinn handa við að slökkva elda og vinda ofan af vitleysunni – en óstjórn, ístöðuleysi og slökkvistarf hafa einmitt einkennt störf meirihlutans á yfirstandandi kjörtímabili.

Upp á síðkastið hafa borgarbúar mátt þola langdreginn leikþátt þar sem sögusviðið er Bústaðarvegur í Reykjavík. Þar lögðu borgaryfirvöld fram þéttingaráform sem mættu svo mikilli andstöðu að borgarstjóri neyddist til að afturkalla áformin. Séu tillögurnar rýndar skyldi engan undra. Hvítum klunnalegum kössum var komið fyrir á þröngum ræmum meðfram götunni.

Þegar viðfangsefni eru umfangsmikil og flókin er mikilvægt að verja orku í það sem raunverulega skiptir máli. Kunna að skilja kjarnann frá hisminu. Tíma og orku kjörinna fulltrúa er illa varið í tilraunir til að troða niður tugum íbúða í gróin hverfi þvert á vilja íbúa - með tilheyrandi fjölmiðlastofmi og tímafrekum fundahöldum. Leggja þarf aukna áherslu á þau verkefni sem munu raunverulega vinna að lausn húsnæðisvandans.

Á yfirstandandi kjörtímabili hefur skort áherslu á stóru myndina. Borgarfulltrúar meirihlutans sveiflast eins og lauf í vindi, sýna ístöðuleysi og eltast við gæluverkefni sem oftar en ekki reynast illa ígrunduð og óundirbúin. Lausn leikskólavandans, húsnæðisvandans, samgönguvandans og fjárhagsvandans er hvergi í sjónmáli. Slökkvistarf hefur einkennt kjörtímabilið og stærstu hagsmunamálin setið á hakanum. Það er nefnilega eitt að halda saman sundurlyndum meirihluta en annað að raunverulega stjórna honum.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×