Neytendur

„Ef þú gerir ekki neitt þá ferðu á hæsta raf­magns­verð Ís­lands­sögunnar“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, segir mikilvægt að neytendur séu vakandi. 
Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, segir mikilvægt að neytendur séu vakandi.  Vísir/Egill Adalsteinsson

Framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar gagnrýnir harðlega að ekki sé virkt eftirlit með sölu á raforku í landinu og segir að svindlað sé á neytendum með núverandi fyrirkomulagi. Hún segir óvanalegt að ríkið geti ákveðið til lengri tíma við hvaða fyrirtæki fólk eigi í viðskiptum við og kallar eftir aukinni umræðu.

Markmiðið með reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar sem tók gildi í desember 2019 var að auka samkeppni á raforkumarkaði og tryggja að heimili og fyrirtæki væru örugglega í viðskiptum við eitthvað raforkusölufyrirtæki. Áður var fyrirkomulagið þannig að fólk fór sjálfkrafa til raforkusala og fór það eftir því á hvaða svæði heimilið eða fyrirtækið var.

Í maí 2020 gaf Orkustofnun síðan út leiðbeiningar um val á sölufyrirtæki til þrautavara og er það fyrirtæki tilnefnt sem hefur lægstan heildarkostnað á sex mánaða tímabili. Þegar að fólk flytur inn í nýtt húsnæði fær það tilkynningu um að það hafi sjö daga til að velja raforkusala en ef það velur ekki fer það sjálfkrafa til fyrirtækisins sem Orkustofnun hefur valið í sex mánuði í senn.

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra Orku náttúrunnar, segir að breytingin hafi verið mikilvægt fyrsta skref en fyrirkomulagið sé verulega gallað eins og það er núna.

„Þetta umhverfi á rafmagnssölumarkaði byggir á reglugerð sem er gölluð að ýmsu leyti, hún hjálpar ekki til við að auka meðvitund neytenda um þá staðreynd að þau hafa val en það sem er eiginlega alvarlegra er að þessi reglugerð er misnotuð og hefur verið misnotuð frá upphafi,“ segir Berglind.

Átta fyrirtæki selja raforku í beinni samkeppni til heimila og fyrirtækja, það eru Fallorka, HS Orka, N1 rafmagn (Íslensk orkumiðlun), Orka Heimilanna, Orka Náttúrunnar, Orkubú Vestfjarða, Orkusalan og Straumlind.

N1 rafmagn hefur boðið upp á lægsta meðalverðið frá því að reglugerðin tók gildi og fyrir vikið fengið mánaðarlega að jafnaði um þúsund nýja aðila til viðskipta.  

Síðar hefur þó komið í ljós að viðskiptavinir sem fara sjálfkrafa til fyrirtækisins eru rukkaðir um allt að helmingi hærra verð en Orkustofnun tekur mið af. Í stað þess að borga listaverðið 6,44 krónur á kílóvattstund eru þau að borga 11,16 krónur, að sögn Berglindar. 

„Þessi reglugerð hefur þessa risastóru galla sem að eru mjög alvarlegir og það þarf að laga þetta strax því það er í raun verið að svindla á neytendum núna,“ segir Berglind. „Þú færð eitt sms og svo ef þú gerir ekki neitt þá gerist ekkert annað en að þú ferð á hæsta rafmagnsverð Íslandssögunnar hjá N1.“

Hún segir óvanalegt að ríkið geti ákveðið fyrirtæki sem neytendur eiga í viðskiptum við og bendir á hvað það væri skrýtið ef sömu reglur væru í gildi til að mynda um tryggingar og fjarskiptamarkaðinn.

„Það sem mér finnst mikilvægasta breytingin sem þarf að gera er að neytendur þurfi að samþykkja sinn raforkusala og það er svo óvanalegt að ríkið geti ákveðið bara til lengri tíma í hvers konar viðskiptum fólk á að vera,“ segir Berglind.

Hún segir ýmsar stofnanir á borð við Neytendastofu nú þurfa að taka þátt í umræðunni og búa til umhverfi þar sem samkeppni er á eðlilegum grunni.

„Það hlýtur að vera fyrsta skrefið að gera þá kröfu til neytenda og að neytendur geri þá kröfu líka sjálfir að þeir þurfi að velja, þannig það sé ekki valið fyrir fólk,“ segir Berglind en hún segist gera fastlega ráð fyrir því að málið sé til skoðunar hjá yfirvöldum.

„Það hljóta að verða gerðar breytingar og þær þurfa líka að gerast hratt þegar fyrirtæki er að misnota svona reglugerðir. Mér finnst ekki hægt að bíða lengi með það þegar þetta er komið upp á yfirborðið.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×