Frítíminn

Dagur í lífi Þórdísar Lóu: „Líður oftast eins og Rocky Balboa"

Ritstjórn Innherja skrifar
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir er komin með æði fyrir fjallahjólum.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir er komin með æði fyrir fjallahjólum.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti borgarstjórnarflokks Viðreisnar, segir uppáhalds árstímann vera háveturinn.

Lóa, eins og hún er alltaf kölluð, getur þá skutlast í að leggja net undir ís og þess á milli legið marflöt og horft á handbolta og skíðakeppnir. Nýja uppáhalds vetraríþróttin til að fylgjast með er skíðaskotfimi.

06.30 - 07.30 Ég er svefnpurka af guðs náð enda að komin af poppurum og bændum sem þykir gott að kúra. Um leið og ég opna annað augað þarf ég að eiga morgunsamtal við mig sjálfa um að ég verði nú að fara á fætur og geti ekki sofið lengur, því ef ég mögulega má það þá geri ég það. Tvo morgna í viku æði ég út á svokallaða kempuæfingu þar sem nokkrar fyrrum íþróttakempur koma saman og við æfum lyftingar, hjólreiðar og sund. Undanfarið höfum við æft úti í Elliðaárdalnum vegna Covid. Þetta hljómar allt mjög fullorðins enda líður mér oftast eins og Rocky Balboa.

09.00 Dagarnir mínir snúast mest um borgarráð og stjórn þess. Það þarf að undirbúa, taka fundi, halda utan um verkefnin og pólitíkina og síðan stýra borgarráði sem fundar alla fimmtudaga. Eitt af verkefnum þessa vetrar er að innleiða góða stjórnarhætti enn frekar í borgina og fyrirtæki hennar.

Ferð borgarstjórnar á höfuðborgarráðstefnu maí 2019. Lóa, Dagur og Líf prófa hlaupahjól.
Undanfarið höfum við æft úti í Elliðaárdalnum vegna Covid. Þetta hljómar allt mjög fullorðins enda líður mér oftast eins og Rocky Balboa.

Ásamt kollegum mínum ofan af Akranesi og úr Hvalfjarðarsveit er ég að leggja lokahönd á nýja eigendastefnu Faxaflóahafna. Svo erum við að leggja lokahönd á nýja eigandastefnu borgarinnar, sem verða mikil tímamót. Þetta hefur verið mjög góð, þverpólitísk vinna. Það skiptir miklu máli að fyrirtæki borgarinnar hafi skýran ramma sem grundvallast á stöðugleika og fyrirsjáanleika og skýrri sýn. Þarna er ég í essinu mínu. Því er ekki að leyna að ég hef mjög gaman af rekstri og stefnumótun fyrirtækja.

Lóa á troðaranum að gera gönguskíðabraut á Ísafirði.

12.00 Hádegið hjá mér fer mikið í fasta fundi og hitta fólk. Borgarfulltrúar meirihlutans funda mikið saman, þar sem pólitíkin er skeggrædd. Borgin er í miklum vexti og mýmörg verkefni í gangi sem þarf að ræða og fylgja eftir. Samstarf meirihlutans hefur gengið afar vel og hópurinn er skemmtilegur og fjölbreyttur. Ég vinn einnig heilmikið með borgarfulltrúum úr minnihlutanum í gegnum borgarráð og þeim verkefnum sem ég leiði, eins og við nýja atvinnu- og nýsköpunarstefnu, stefnumörkun um ferðaþjónustu í borginni, fyrirtæki borgarinnar og lífeyrissjóð starfsmanna Reykjavíkurborgar þar sem ég er stjórnarformaður.

Í þessi tæp fjögur ár í borgarstjórn hef ég kynnst ógrynni af frábæru fólki. Úthverfaskvísan úr Breiðholti og Árbæ hefur aldrei áður þekkt svona marga Vesturbæinga.

Opnun Elliðaár 2019. Lóa ánægð með fenginn sinn.

15.00 Seinni parturinn fer gjarna í að lesa gögn, skrifa og undirbúa mig. Í pólitíkinni les maður gríðarlegt magn af gögnum alla daga og þakka ég mikið fyrir það hvað ég er fljót að lesa. Ég er í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og hef þar tekið að mér verkefni fyrir sambandið eins og að vera í stjórn framkvæmdasjóðs ferðaþjónustu og í ferðamálaráði ráðherra, ásamt því að vera í sveitarstjórnarráði EFTA. Einnig hef ég fengið óhefðbundin tækifæri eins og að vinna að landsáætlun í skógrækt sem mér finnst afar skemmtileg því ég er skógarbóndi ásamt systkinum mínum og mökum. Fyrir öll þessi verkefni þarf ég líka að undirbúa mig og nýtist seinni parturinn þá vel.

Mynd á slóðum Star Wars - Davíð Örn sonur Lóu og Kristín Ósk vinkona þeirra.

19.00 Þegar nær dregur kvöldmat þá hefst kvöldmatarstörukeppnin. Þá spyr ég Pétur minn hvort hann sé búinn að hugsa um hvað verður í matinn, sem hann er sjaldnast búinn að frekar en ég. Svo við horfum tómum augum á hvort annað og vitum ekkert hvað okkur langar í. Þegar við gátum farið í áskrift að kvöldmat, og sleppa þannig að ákveða matseðil hvers dags, urðum við því strax fastakúnnar. Kvöldin fara oft í vinnu en helst vil ég eyða kvöldum og helgum með vinum og fjölskyldu. Við Pétur eigum þrjú uppkomin börn og ég á samhenta og stórskemmtilega fjölskyldu þannig að það er nóg að gera á þeim vígstöðvum líka.

Hið íslenska veiðifélag Vöðlur - við Elliðaár
Þegar nær dregur kvöldmat þá hefst kvöldmatarstörukeppnin. Þá spyr ég Pétur minn hvort hann sé búinn að hugsa um hvað verður í matinn, sem hann er sjaldnast búinn að frekar en ég. Svo við horfum tómum augum á hvort annað og vitum ekkert hvað okkur langar í.

Ég er afar heppin með vini og tilheyri mörgum vinahópum. Við sem ólumst upp í Breiðholtinu höldum mikið hópinn og höfum í raun farið í gegnum lífið saman. Þar eru gamlir skólafélagar úr FB, handbolta og skíðakempur. Einnig á ég frábæra félaga sem ég veiði með eða er í útivist. Æðið hjá mér þessa dagana er vera úti að leika á fjallahjóli og svo er ég að feta mín fyrstu skref í vatnasundi.

Þegar ég verð eldri ætla ég að verða sambland af borgarskvísu og skoskri hálandaprinsessu, í hnébuxum og leðurstígvélum með kaskeiti að skottast um jörðina okkar fyrir norðan í Þingeyjarsveit, faðma tré í tíma og ótíma þess á milli sem ég veiði gæs og græja silung.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.