Innherji

Heimilin sækja á ný í íbúðalán hjá lífeyrissjóðum eftir langt hlé

Hörður Ægisson skrifar
Á tímabilinu frá því í maí 2020 fram til október á síðasta ári námu uppgreiðslur heimila á lánum hjá lífeyrissjóðunum samtals um 67 milljarðar króna.
Á tímabilinu frá því í maí 2020 fram til október á síðasta ári námu uppgreiðslur heimila á lánum hjá lífeyrissjóðunum samtals um 67 milljarðar króna. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Hrein ný lán lífeyrissjóðanna til heimila námu um 1.449 milljónum króna í nóvember á árinu 2021 og er þetta í fyrsta sinn í um næstum eitt og hálft ár sem slík sjóðsfélagalán eru meiri en sem nemur uppgreiðslum innan mánaðar.

Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Seðlabanka Íslands um eignir lífeyrissjóðanna. Á tímabilinu þar á undan greiddu sjóðsfélagar samfellt upp lán sín hjá lífeyrisjóðunum frá því í maí árið 2020 fram til október á síðasta ári og námu uppgreiðslurnar samtals um 67 milljörðum króna.

Þessi breyting kemur til á sama tíma og verulega hefur dregið úr ásókn heimilanna í óverðtryggð lán hjá bönkunum samhliða því að vaxtakjör þeirra hafa farið versnandi undanfarna mánuði eftir stýrivaxtahækkanir Seðlabankans en tólf mánaða verðbólga mælist nú 5,1 prósent.

Bankarnir bjóða þannig ekki lengur bestu kjörin á óverðtryggðum lánum á breytilegum vöxtum, lánaform sem heimilin sóttu nánast alfarið í á árunum 2020 og 2021, en sumir af stærstu lífeyrissjóðum landsins, eins og meðal annars Gildi og Lífeyrissjóður verslunarmanna, eru í dag með lægri vexti á slíkum sjóðsfélagalánum en til dæmis Landsbankinn og Íslandsbanki.

Aukningin í lánum lífeyrissjóðanna til heimila í nóvember síðastliðnum kemur einungis til vegna óverðtryggðra útlána en ný slík lán – að frádregnum upp- og umframgreiðslum – námu rúmlega 3,7 milljörðum króna. Á sama tíma voru hins vegar nettó uppgreiðslur á verðtryggðum sjóðsfélagalánum upp á samtals tæplega 2,3 milljarða króna. Í lok nóvember voru heildarútlán lífeyrissjóðanna til heimila um 490 milljarðar króna.

Þegar mest var í ársbyrjun 2020 voru sjóðsfélagalánin um 540 milljarðar króna, eða tæplega ellefu prósent af heildareignum lífeyrissjóðanna á þeim tíma, en nú eru lánin aðeins um 7,5 prósent af öllum eignum þeirra en þær hafa vaxið hratt á síðustu misserum og standa nú í 6.555 milljörðum króna.

Á móti hefur innlend hlutabréfaeign sjóðanna aukist, samhliða miklum verðhækkunum í Kauphöllinni, og er hún komin í nærri 15 prósent af heildareignum. Hlutfallið hefur ekki verið eins hátt síðan árið 2007.

Frá því í mars 2016 og þar til kórónuveirufaraldurinn skall á hér á landi í lok mars 2020 voru lífeyrissjóðirnir mjög umsvifamiklir í veitingu nýrra húsnæðislána og með álíka hlutdeild í veitingu nýrra lána og bankarnir.

Hrein ný útlán lífeyrissjóðanna á því þriggja ára tímabili námu samtals 386 milljörðum króna. Má segja að í hverjum mánuði hafi hrein útlán frá lífeyrissjóðunum til íbúðakaupenda numið um það bil 5-10 milljörðum króna.

Á örskömmum tíma breyttist umhverfið fyrir lífeyrissjóðina. Frá því í mars 2020 þangað til í júlí 2020 þróaðist eftirspurn eftir íbúða­lánum sjóðanna úr hreinum nýjum útlánum upp á sjö milljarða á mánuði yfir í hreinar uppgreiðslur upp á fimm milljarða. Heimilin flykktust þá til bankanna, sem buðu hagstæðustu lánin á markaði, til að sækja sér lán til fasteignakaupa.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.