Innherji

Stefnir í æsispennandi bæjarstjóraslag á Seltjarnarnesi

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Ragnhildur Jónsdóttir, Árni Helgason, Magnús Örn Guðmundsson og Þór Sigurgeirsson eru öll orðuð við oddvitaframboð á Seltjarnarnesi.
Ragnhildur Jónsdóttir, Árni Helgason, Magnús Örn Guðmundsson og Þór Sigurgeirsson eru öll orðuð við oddvitaframboð á Seltjarnarnesi.

Fjögur eru nefnd til sögunnar og talin líkleg til að reyna fyrir sér í fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi, en sögulega tryggir oddvitasætið á lista flokksins jafnframt bæjarstjórastólinn. 

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri ætlar sér að hætta eftir kjörtímabilið. Nýjum oddvita bíður ærið verkefni að sætta sjónarmið í klofnum Sjálfstæðisflokki á Nesinu.

Árni Helgason, lögmaður og annar stjórnandi hlaðvarpsins Hismisins, er sagður liggja undir feldi, Magnús Örn Guðmundsson sem nú skipar annað sæti listans á Seltjarnarnesi hefur þegar sagst sækjast eftir fyrsta sætinu, Ragnhildur Jónsdóttir sem er fyrsti varamaður á lista flokksins er orðuð við oddvitaframboð ásamt Þór Sigurgeirssyni verkefnastjóra hjá Rými en hann hefur áður setið í bæjarstjórn, á árunum 2006 til 2010.

Þór er sonur Sigurgeirs Sigurðssonar sem var bæjarstjóri Seltjarnarness í áratugi og lét af embætti stuttu eftir aldamót.

Framboðsfrestur til þess að skila inn framboði á lista Sjálfstæðisflokks rennur út þann 17. janúar næstkomandi, eða á mánudaginn eftir slétta viku.

Þór er sonur Sigurgeirs Sigurðssonar sem var bæjarstjóri Seltjarnarness í áratugi og lét af embætti stuttu eftir aldamót.

Fráfarandi bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins er Ásgerður Halldórsdóttir. Hún segist í samtali við Innherja stefna á ný mið og hyggst hætta í bæjarpólítíkinni í bili.

Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri á Seltjarnarnesi. Hún skilur nú við bæjarpólítíkina eftir þrjú kjörtímabil.

Innanflokksdeilur einkennt kjörtímabilið og síðustu ár

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið með meirihluta á Seltjarnarnesi frá 1950. Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar árið 2018, spratt upp klofningsframboð frá flokknum. Skafti Harðarson, sem lengi hafði stutt og unnið fyrir Sjálfstæðisflokkinn, leiddi framboðið sem bar heitið Fyrir Seltjarnarnes. Framboðið var sprottið af óánægju með rekstur bæjarins.

Af þeim sem nú eru orðaðir við oddvitaframboð í bænum er framboð Ragnhildar talið líklegt til að slíðra sverðin milli þessara tveggja fylkinga Sjálfstæðisflokksins á Nesinu, afla nýs fylgis í bænum og skila þeim sameinuðum til kosninga í maí, að mati viðmælenda Innherja. 

Magnús Örn er einnig nefndur sem trúverðugur kandídat, þó af öðrum meiði og öllu íhaldssamari, sem gæti lánast að koma Sjálfstæðismönnum sameinuðum að kjörkössunum.

Á yfirstandandi kjörtímabili hafa Sjálfstæðismenn líka klofnað í afstöðu sinni til lykilmála, meðal annars í borgarlínumálinu en Magnús Örn er meðal fárra sveitarstjórnarmanna Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu sem leggst alfarið gegn aðkomu síns bæjarfélags að borgarlínu. 

Þá var samþykkt að hækka útsvar í bænum en fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Torfi Álfþórsson, lagðist þá á sveif með minnihlutanum og var skattahækkunin samþykkt.

Skafti Harðarson, sem lengi hafði stutt og unnið fyrir Sjálfstæðisflokkinn, leiddi framboðið sem bar heitið Fyrir Seltjarnarnes. Framboðið var sprottið af óánægju með rekstur bæjarins.

Guðmundur Ari áfram en Karl Pétur undir feldi

Bæjarstjórnarsætin á Seltjarnarnesi eru alls sjö. Þau skiptast nú þannig að Sjálfstæðisflokkurinn heldur á fjórum sætum, Samfylking á tveimur og Neslistinn á einu.

Guðmundur Ari Sigurjónsson oddviti Samfylkingarinnar ætlar sér að halda áfram. Karl Pétur Jónsson oddviti Neslistans liggur undir feldi.

Fyrir Samfylkinguna sitja þau Guðmundur Ari Sigurjónsson og Sigurþóra Bergsdóttir. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvernig stilla skuli upp á lista Samfylkingarinnar á Nesinu, en á félagsfundi sem haldinn verður í næstu viku mun það skýrast.

Í framhaldinu verður haldinn aðalfundur þar sem tekin verður formleg ákvörðun. Stefnt er að því búið verði að ganga frá fyrirkomulaginu við uppstillingu í lok febrúar eða byrjun mars. Guðmundur Ari gefur áfram kost á sér í oddvitasæti Samfylkingarinnar.

Fyrir Neslistann situr Karl Pétur Jónsson, en Neslistinn hefur verið keyrður í gegnum Viðreisnarfélagið á Seltjarnarnesi á þessu kjörtímabili. Karl Pétur hefur enga ákvörðun tekið um hvort hann muni áfram leiða Neslistann á næsta kjörtímabili.

Líklegt þykir þó að einhvers konar útgáfa Neslistans verði aftur í framboði. Það er, framboð sem tekur frekar hægri sinnaða afstöðu til skattamála en framfarasinnaða afstöðu til uppbyggingar þjónustu, samgangna og velferðarþjónustu.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×