Innherji

Eyþór Arnalds: Ekki í fyrsta sinn sem samflokksmenn eru ósammála

Ritstjórn Innherja skrifar
Eyþór Arnalds tilkynnti á dögunum að hann ætlaði sér ekki að halda áfram í borgarpólítíkinni.
Eyþór Arnalds tilkynnti á dögunum að hann ætlaði sér ekki að halda áfram í borgarpólítíkinni.

Eyþór Arnalds hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér á ný á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Í viðtali í nýjasta hlaðvarpsþætti Þjóðmála ræðir Eyþór um ástæður þess að hann hyggist sækja inn á ný mið í vor.

Í þættinum bendir Gísli Freyr Valdórsson, stjórnandi hlaðvarpsins, að oft á tíðum hafi ríkt mikil óeining innan borgarstjórnarflokksins og spyr í framhaldinu hvort að Eyþóri hafi mistekist sem leiðtoga að sameina borgarstjórnarflokkinn.

„Það hefur enginn skilið við hópinn,“ svarar Eyþór þá að bragði og bendir á að varaborgarfulltrúum flokksins hafi fjölgað um einn á kjörtímabilinu.

„Þannig að við erum eini flokkurinn í borgarstjórn sem hefur bætt við sig fulltrúa á kjörtímabilinu. Þannig að ef við horfum á klofning, þá hefur hann verið í átt til okkar en ekki frá.“

Ágreiningur í borgarstjórnarhópi Sjálfstæðisflokksins

Eyþór viðurkennir í framhaldinu að ágreiningur sé um áherslur og að ekki hafi allir borgarfulltrúar kosið með sama hætti um stór mál innan borgarstjórnar. Slíkt hafi þó gerst áður og rifjar hann í framhaldinu upp að innan flokksins hafi gjarnan verið skiptar skoðanir á stórum málum, þá sérstaklega samgöngumálum.

Í þættinum er sem fyrr segir rætt um ástæður þess að Eyþór ákvað að hætta í stjórnmálum en einnig um væntanlegt mótframboð sem Eyþór fékk frá Hildi Björnsdóttur áður en hann tilkynnti ákvörðun sína um að hætta. 

Þá fjallar Eyþór um fjárhagslega stöðu borgarinnar, um framtíðina í samgöngumálum og brýnustu verkefnin sem Reykjavíkurborg stendur frammi fyrir.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×