Innherji

Gildi selur í Eimskip fyrir nærri milljarð

Hörður Ægisson skrifar
Hlutabréfaverð Eimskips hækkaði um 95 prósent á árinu 2021.
Hlutabréfaverð Eimskips hækkaði um 95 prósent á árinu 2021. Vísir/Vilhelm

Gildi, þriðji stærsti hluthafi Eimskips, minnkaði hlut sinn í félaginu um tæplega eitt prósent í liðnum mánuði og fer eftir söluna með rúmlega ellefu prósenta eignarhlut.

Þetta má lesa út úr nýjum lista yfir tuttugu stærstu hluthafa félagsins í árslok 2020.

Gildi, sem er þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins, seldi samtals 1,63 milljónir hluta að nafnverði á síðasta mánuði ársins 2021. Ætla má að sjóðurinn hafi fengið um 800 milljónir króna fyrir þann hlut í Eimskip.

Hlutabréfaverð Eimskips stóð í 505 krónum á hlut við lokun markaða í gær en gengi bréfa félagsins hefur hækkað um tæplega fimm prósent frá því í byrjun október í fyrra. Markaðsvirði Eimskips stendur nú í um 88 milljörðum króna.

Á síðustu þremur mánuðum hafa fjórir lífeyrissjóðir – Gildi, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Birta og Stapi – minnkað hlut sinn í flutningafyrirtækinu um samanlagt fjögur prósent en sjóðirnir eru allir í hópi sex stærstu hluthafa Eimskip. Samtímis hafa hins vegar innlendir verðbréfasjóðir, meðal annars í stýringu Íslandssjóða, Stefnis og Kviku, verið að bæta við hlut sinn í Eimskip.

Rekstrarumhverfi í sjóflutningum hefur verið nokkuð hagstætt á undanförnum misserum og hækkaði gengi hlutabréfa í Eimskip um liðlega 95 prósent á árinu 2021. Aðeins hlutabréfaverð Arion banka hækkaði meira af félögum í Kauphöllinni.

Langsamlega stærsti hluthafi Eimskip er Samherji Holding með um þriðjungshlut. Undir lok nóvembermánaðar í fyrra, eins og Innherji hefur greint frá, losaði Samherji um lítinn hluta bréfa sinna, eða sem nam 1,43 prósenta eignarhlut, sem má ætla að hann hafi selt fyrir um 1.200 milljónir króna.

Fyrir um tveimur vikum sendi Eimskip frá sér jákvæða afkomutilkynningu þar sem greint var frá því afkoma félagsins á fjórða ársfjórðungi yrði umtalsvert betri en á sama tíma árið 2020. Þannig er áætlað að hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta verði á bilinu 26,7 til 29,7 milljónir evra á fjórðungnum borið saman við 14,9 milljónir evra árið áður. Uppfærð afkomuspá fyrir allt árið 2021 gerir ráð fyrir að EBITDA félagsins verði á bilinu 109,5 milljónir evra til 112,5 milljónir evra.

Helstu ástæður betri afkomu, að því er fram kom í tilkynningu félagsins, eru góður gangur í gámasiglingum með auknu magni og bættri framlegð. Auk þess hefur verið áframhaldandi sterk afkoma í alþjóðlegri flutningsmiðlun á fjórða ársfjórðungi.


Tengdar fréttir

Eim­skip hagnast um 5,6 milljarða við krefjandi að­stæður

Hagnaður Eimskips nam 36,9 milljónum evra, eða um 5,6 milljörðum króna, á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 3,7 milljónir evra fyrir sama tímabil í fyrra. Þar af hagnaðist félagið um 20,7 milljónir evra á þriðja ársfjórungi 2021, eða um 3,12 milljarða íslenskra króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×