Frítíminn

Dagur í lífi Hönnu Katrínar: Fær mikla orku út úr því að umgangast vinina

Ritstjórn Innherja skrifar
Hanna Katrín Friðriksson á skrifstofu sinni í þinginu.
Hanna Katrín Friðriksson á skrifstofu sinni í þinginu.

Hanna Katrín Friðriksson er þingflokksformaður Viðreisnar. Hún er oftast síðust fjölskyldumeðlima út úr húsinu á morgnana. Hún er dugleg að stunda íþróttir þó hún segi nú orðið fari meira fyrir áhorfi en beinni þátttöku.

7:30 Ég vakna flesta daga á þessum tíma, það dugar eftir að dæturnar komust á legg og eftir að ég sætti mig endanlega við það að ég er ekki og mun aldrei verða manneskjan sem tekur morgunæfingu af því að „það er svo hressandi að byrja daginn þannig.“

Dagurinn byrjar alltaf með kaffi og yfirferð yfir fjölmiðla dagsins nær og fjær auk þess sem við fjölskyldan sitjum eins og tíminn leyfir og ræðum hvað er á döfinni hjá hverri og einni okkar.

8.30 Ég er oftar en ekki síðust út úr húsi en þó aldrei seinni en hálfníu svo ég verði örugglega komin niður á skrifstofuna mína niðri í Austurstræti fyrir kl. 9. Þessi hálftími er eiginlega uppáhaldstími dagsins hjá mér. Ég klæði af mér veðrið, sama hvernig það er, og sting mér út í morguninn með eitthvað áhugavert í eyrunum. 

Stundum útvarpið, stundum hlaðvarp og stundum tónlist. Það fer svolítið eftir dagsforminu og verkefnunum fram undan.
Ragnhildur Sverrisdóttir, eiginkona Hönnu Katrínar, auk dætranna Elísabetar og Margrétar í ferð um Langanes.

Af því að veðurfarið okkar er jafn óútreiknanlegt og það er þýða þessar gönguferðir mínar í vinnuna og til baka að ég þarf að vera viðbúin því að veðrið breytist verulega yfir daginn. Ég er því með gott úrval af yfirhöfnum og skóm (aðallega, en líka regnbuxur o.fl.) í vinnunni og þarf reglulega að grisja þar aðeins til þegar skápurinn heima er orðinn tómlegur.

9:00 Þó svo að dagskrá mín sé yfirleitt mjög breytileg frá degi til dags hefjast dagarnir gjarnan með fundum kl. 9 hjá fastanefndum Alþingis í Austurstræti. Flestir þingmenn sitja í tveimur slíkum nefndum en í vetur er ég bara í Atvinnuveganefnd. Starf mitt sem þingflokksformaður kallar enda á margvíslegt annað fundahald, formlegt og óformlegt auk utanumhalds um starf þingflokks Viðreisnar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar og Hanna Katrín í þingsal.

12.00 Hádegið fer yfirleitt í að hitta fólk. Stundum er um að ræða formlega fundi, stundum óformlegt kaffispjall. Oft líka fólk sem óskar eftir því að hitta mig til að koma tilteknum málum á framfæri eða óska eftir aðstoð en oft er það auðvitað líka þannig að ég leita til fólks sem býr yfir þekkingu á tilteknu málefni, reynslu eða getur upplýst mig um eitthvað sem skiptir máli að ég hafi vitneskju um. 

Listinn yfir málefnin er langur og áhugaverður. Mér þykja þessir fundir eiginlega það mest gefandi við starf mitt sem þingmaður.

13:00 Tvisvar í viku funda einstaka þingflokkar kl. 13 og svo eru þingfundir í kjölfarið kl. 15. Tvisvar í viku byrja þingfundir fyrr og á föstudögum eru svo alla jafna ekki þingfundir nema þegar nær dregur þinglokum fyrir áramót eða fyrir sumarið. Föstudagarnir eru þannig nýttir til að hreinsa upp vikuna og fyrir þingmenn til að funda í kjördæmum sínum.

15:00 Þegar þingfundir eru á dagskrá er ég úti í þinghúsi, annað hvort í þingsalnum eða í þingflokksherbergi Viðreisnar að lesa gögn eða skrifa ræður. 

Sóttvarnaraðgerðir vegna Covid hafa gert að verkum að við getum ekki fengið til okkar gesti í þinghúsið, en alla jafna er algengt að hitta fólk þar til að fara yfir málin.

18:00 Fjölbreytileikinn er þannig töluverður. Það eina sem má segja með vissu er að dagskráin breytist reglulega, oft með mjög litlum fyrirvara. 

Þá daga sem þingfundum lýkur fyrir kvöldið er ég komin heim í kringum sex og reyni þá að nota tímann fram að kvöldmat til að hreyfa mig. Það sem verður oftast fyrir valinu er stutt útihlaup eða góður Pílates tími.

19:00 Ragnhildur konan mín sér oftast um eldamennskuna. Það eru góðar stundir þegar við erum allar heima í kvöld og við sitjum þá gjarnan lengi og gerum upp daginn. Við höfum verið þrjár á heimilinu í vetur. Margrét dóttir okkar er í námi hér heima en Elísabet systir hennar stundar háskólanám í Bandaríkjunum. Elísabet kom heim í jólafrí og gekk beint inn í Covid smitað heimilið þannig að við vorum saman allar fjórar í einangrun yfir jólin. Það var langt frá því að vera planið en við sluppum við veikindi og nutum aðstoðar okkar allra besta fólks þannig að það væsti ekki um okkur.

Valsvinkvennagolf í Borgarnesi

20:00 Ég geri töluvert af því að hitta vini mína á kvöldin þó það fari vissulega minna fyrir því svona yfir háveturinn. Helgarnar eru líka vel nýttar þar; ég er svo heppin að eiga góða vinahópa sem gefa mér mikla orku með því að vera besta og skemmtilegasta fólk í heimi. 

Íþróttirnar eru svo aldrei langt undan þó nú orðið fari meira fyrir áhorfi en beinni þátttöku. 

Ég fór svo á gönguskíðanámskeið síðasta vetur og ætla að verða öflug þar í vetur. Auðvitað með góðum vinum.

Hanna Katrín ætlar að láta til sín taka á gönguskíðum í vetur.

1:00 Ég er mjög mikil B manneskja og fer sjaldan í rúmið fyrir klukkan eitt. Þau kvöld sem ekkert sérstakt er á dagskrá sit ég oft í sófanum með tölvuna í fanginu og horfi á sjónvarpið með öðru auganu á meðan ég skrifa punkta fyrir ræður eða greinar sem ég fínpússa daginn eftir í vinnunni.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×