Umræðan

Tækifæri kjörtímabilsins

Halldór Benjamín Þorbergsson skrifar

Atburðir víða um heim hafa áhrif hér á landi og geta haft mikil áhrif á hag fólks og fyrirtækja. Ekki er alltaf fyrirséð hvað skiptir máli og hvað síður. Hertaka Rússlands á Krímskaga leiddi til viðskiptahindrana sem bitnar á íslenskum fyrirtækjum sem hafa tapað mikilvægum mörkuðum fyrir loðnuafurðir. Covid veiran hefur nú herjað á heiminn í tæp tvö ár og þótt við sjáum nú vonandi fyrir endann á faraldrinum þá eru áhrifin alls ekki komin fram og reikningarnir óuppgerðir. Faraldurinn og strand stórs flutningaskips í Súes skipaskurðinum í mars síðastliðnum hefur ásamt öðru hefur leitt til gríðarlegrar hækkunar flutningskostnaðar og gámaleigu sem hefur áhrif á vöruverð alls staðar í heiminum – sama hvað Samkeppniseftirlitið á Íslandi segir.

Þannig erum við stöðugt minnt á að við erum hluti af alþjóðasamfélaginu og ráðum ekki öllu um okkar hag þótt við gjarnan vildum. Því er ekki bara mikilvægt að grípa tækifærin þegar þau gefast heldur nauðsynlegt. Það gera einstaklingar sem stofna til reksturs og nýta þekkingu sína til að búa til nýjar afurðir, þróa nýja tækni og sækja fram á nýjum mörkuðum.

Sjónarmið sem eiga vel við í rekstri fyrirtækja um góða stjórnarhætti, samstarf, fjölbreytni, aðhald og útsjónarsemi – ásamt jákvæðri sýn á verkefnin – eiga ekki síður við um rekstur stórra opinberra heilbrigðisstofnana.

Þetta er til dæmis mjög áberandi í fyrirtækjum sem starfa við heilbrigðisþjónustu og við þróun nýrra lyfja og annarrar tækni sem bæta líf okkar og heilsu. Hve ómetanlegt er ekki framlag Íslenskrar erfðagreiningar? Í áratugi hefur lyfjaframleiðsla verið afar öflug hér á landi og það er ekki hægt annað en horfa með óttablandinni virðingu á uppbygginguna í Vatnsmýrinni og víðar. Össur varð á tiltölulega skömmum tíma alþjóðlegt risafyrirtæki á okkar mælikvarða og fleiri. Fjölmörg heilbrigðisfyrirtæki hafa sprottið fram, sýnt fram á góða viðskiptahugmynd og aflað fjármagns og komið afurðum sínum á markað. Þessi mikla gróska ætti að verða stjórnvöldum hvatning til að treysta einstaklingum og fyrirtækjum þeirra enn meira til að annast þjónustu sem annað hvort er til hliðar við meginverksvið hins opinbera eða getur sinnt tilteknum verkefnum með ekki síðri gæðum, öryggi og kostnaði en stofnanir. Sjónarmið sem eiga vel við í rekstri fyrirtækja um góða stjórnarhætti, samstarf, fjölbreytni, aðhald og útsjónarsemi – ásamt jákvæðri sýn á verkefnin – eiga ekki síður við um rekstur stórra opinberra heilbrigðisstofnana.

Í orkugeiranum blasa sömuleiðis við gríðarleg tækifæri. Mikil sátt virðist ríkja um að hér á landi verði dregið úr notkun olíu eins hratt og örugglega og frekast er unnt. Tilgangurinn er annars vegar að draga úr loftslagsáhrifum en einnig að draga úr kaupum á erlendu eldsneyti þar sem verðið sveiflast mikið og skapar óvissu bæði til skemmri og lengri tíma. En þetta þýðir að við verðum að halda áfram að nýta orkulindir landsins í þessu skyni. Einnig skapast möguleikar til framleislu eldsneytis, t.d. vetnis, til útflutnings en bæði vinnsla þess og notkun er þá nánast án loftslagsáhrifa. Ekki má heldur gleyma að unnt er að framleiða vetni með afgangsorku þegar hún er til staðar en nýta það síðan þegar eftirspurnin verður meiri en framboðið. En til þess að nýta tækifærin verður að ráðast í byggingu nýrra virkjana og greiða úr flækjustigi við leyfisveitingar og matsferli. Ég er ekki að tala um gegndarlausa virkjanastefnu á kostnað náttúruverndar heldur að menn nálgist þessi tækifæri á jákvæðan hátt, þannig að sem flestir geti við unað.

Það er líka ólíðandi að starfsmenn ríkis og sveitarfélaga geti sótt ríflegri launahækkanir en þeir sem á almennum vinnumarkaði starfa og ávísað launahækkunum á skattgreiðendur.

Það verður ekki skilið við loftslagsmálin án þess að minna á tækifæri sem felast í bindingu kolefnis í jarðvegi, röskuðu votlendi og með skógrækt, en ekki síst með því að binda kolefni í jarðlög. Þar á Orkuveita Reykjavíkur mikið lof skilið og vonandi uppfyllir aðferðin sem þar var þróuð væntingar sem til hennar eru gerðar.

Samkeppnishæfni Íslands, sem segir til um hvernig okkur gengur að sækja betri lífskjör samanborið við aðrar þjóðir, á sitt ekki síst undir umbótum á vinnumarkaði. Það er alls ekki eðlilegt að Samtök atvinnulífsins þurfi að gera hundruði kjarasamninga við verkalýðsfélög, þar sem hver klifrar upp á bakið á hinum til að sækja frekari launahækkanir en þeir sem fyrstir komu. Það er líka ólíðandi að starfsmenn ríkis og sveitarfélaga geti sótt ríflegri launahækkanir en þeir sem á almennum vinnumarkaði starfa og ávísað launahækkunum á skattgreiðendur – fólkið og fyrirtækin, í landinu þar sem verðmætin verða til. Þetta veldur verðbólgu, hefur áhrif á gengi íslensku krónunnar, vextir verða hærri en ella og óviðunandi sveiflur verða í afkomu allra. Að sjálfsögðu á svigrúm til launaþróunar að ráðast af hag þeirra sem verðmætin skapa. Og aðrir fylgi í kjölfarið. Svo virðist sem ríkisstjórnin vilji koma á einhverjum umbótum á þessu sviði. Það er vel.

Markmiðið hlýtur alltaf að vera að styrkja samkeppnishæfni landsins, stöðu atvinnulífsins og um leið bæta hag fólksins í landinu.

Íslenska þjóðin og hagur hennar mun áfram verða undir áhrifum alþjóðlegrar þróunar og atburða. Það er mikilvægt að fylgjast vel með og greina hugsanleg áhrif – jákvæð og neikvæð. Nú sem fyrr ræðst afkoma okkar fyrst og fremst af því hvernig okkur tekst að koma auga á tækifærin, nýta þau og hrinda verkefnum í framkvæmd. Markmiðið hlýtur alltaf að vera að styrkja samkeppnishæfni landsins, stöðu atvinnulífsins og um leið bæta hag fólksins í landinu. Þar veldur hver á heldur.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.