Innherji

Góðir frumkvöðlar verði ekki í vandræðum með fjármagn

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Helga Valfells, Jenny Ruth Hrafnsdóttir og Hekla Arnardóttir, eigendur Crowberry Capital.
Helga Valfells, Jenny Ruth Hrafnsdóttir og Hekla Arnardóttir, eigendur Crowberry Capital.

Helga Valfells, einn af eigendum Crowberry Capital, segir að fjármögnunarumhverfið á Íslandi hafi gjörbreyst á undanförnum árum. Nú séu fimm einkareknir og vel fjármagnaðir vísissjóðir starfandi á landinu, hver með sína áherslu, og hún býst við að næsta ár verði fullt af spennandi fjárfestingatækifærum.

Hvernig var rekstrarumhverfið á árinu 2021?

„Rekstrarumhverfið var mjög gott fyrir nýsköpunarfyrirtæki sem byggja á stafrænum lausnum. Eignarsafn Crowberry 1 óx og dafnaði. Félögin sem við höfum fjárfest í náðu bæði viðbótarfjármagni frá virtum erlendum vísissjóðum og jafnframt náðu þau að bæta við sig viðskiptavinum um allan heim.“

Hvað stóð upp úr í rekstrinum?

„Crowberry lokaði nýjum vísissjóði sem mun fjárfesta í ungum tæknifyrirtækjum á Íslandi og hinum Norðurlöndunum. Við erum þakklát þeim fjárfestum sem komu í þessa vegferð með okkur. Íslenskt fjármögnunarumhverfi hefur gjörbreyst á undanförnum árum og nú er fimm einkareknir vel fjármagnaðir vísissjóðir starfandi á landinu. Hver með sína áherslu þannig að góðir frumkvöðlar ættu ekki að vera í erfiðleikum með að finna fjármagn.“

Það er  mikilvægt að loka fyrirtækjum á ábyrgan hátt og skilja ekki eftir skuldaslóð.

Hverjar voru helstu áskoranirnar?

„Það var ákveðin áskorun að loka stórum vísissjóði og samþætta kröfur innlenda og erlendra fjárfesta en það tókst með hjálp góðra lögfræðinga. Þrátt fyrir að Covid hafði lítil áhrif á tekjumöguleika tæknifyrirtækja, þá var það orðið ansi þreytandi til lengdar að þurfa sífellt að endurskoða áætlanir um ráðstefnur, fundi og viðskiptaferðalög vegna Covid ástandsins í heiminum. Það að geta ekki alltaf ferðast eða fundað í eigin persónu hægir á ýmsu yfir lengri tíma litið. Við þurftum líka að loka einu fyrirtæki úr okkar eignasafni sem náði ekki flugi. Það er að sjálfsögðu leiðinlegt en eitt af því sem að gerist í nýsköpun og mikilvægt að loka fyrirtækjum á ábyrgan hátt og skilja ekki eftir skuldaslóð. Á móti kemur þá erum við fjárfestar í mörgum öðrum fyrirtækjum sem gengur vel og setjum kraftinn í að bakka þau upp.“

Hvernig lítur næsta ár út frá ykkar bæjardyrum séð?

„Við hjá Crowberry erum mjög bjartsýn þegar við lítum til ársins 2022. Eftirspurn eftir nýjum tæknilausnum heldur áfram að aukast. Við vitum af fullt af sterkum frumkvöðlum sem eru að skapa flottar lausnir t.d. í umhverfismálum, jafnréttismálum, heilbrigðistækni, fjártækni og fleiru. Við erum að horfa á gífurlegar framfarir í gervigreind, bálkakeðjum og viðbættum veruleika (metaverse) - þannig að það verður fullt af spennandi fjárfestingartækifærum á næsta ári. Þetta verður spennandi ár tækni og nýsköpunar.“


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×