Umræðan

Hlaðvörp eru ekki fjölmiðlar

Þórarinn Hjartarson skrifar

Fjölmiðlar sinna gæsluhlutverki gagnvart ríkisvaldinu. Hlaðvörp gera það ekki. Hlaðvörp eru ekki fjölmiðlar. Að telja að svo sé lýsir því miður viðtekinni skoðun og viðhorfi ríkisins til fjölmiðla. Hlaðvörp eru líkari skoðanapistli heldur en fjölmiðli. Að kalla hlaðvörp fjölmiðil gerir því lítið úr fjölmiðlum og er atlaga að tjáningarfrelsi almennra borgara.

Fjölmiðlanefnd hefur undanfarin misseri krafist þess að kalla ákveðin hlaðvörp fjölmiðla. Viðhorf fjölmiðlanefndar til eigin starfsemi orkar tvímælis. Nefndin telur annars vegar mikilvægt að fylgjast með áreiðanleika fjölmiðla og hefur áhyggjur af þeim miðlum sem ekki er treystandi til að veita almenningi sannreyndar upplýsingar. Hún vill hins vegar skilgreina suma sem tjá skoðanir sínar á opinberum vettvangi í hlaðvarpsformi sem fjölmiðla. Hvorugt ferst nefndinni vel úr hendi eins og sjá má í úrlausnarskrá nefndarinnar. 

Fjölmiðlanefnd á villigötum

Skúli B. Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd, mætti í Bítið á Bylgjunni í október síðastliðnum til þess að ræða hvort hlaðvörp ætti að skilgreina sem fjölmiðila. Hann tjáði Gulla og Heimi að ekki væri hægt að skilgreina öll hlaðvörp sem fjölmiðla en að nauðsynlegt væri að svara því hvaða hlaðvörp féllu inn í það mengi. Eftir því sem leið á viðtalið varð hlustendum hins vegar ljóst að það væri eitthvað sem hann gæti ekki gefið skýr svör við.

Að kalla hlaðvörp fjölmiðil gerir því lítið úr fjölmiðlum og er atlaga að tjáningarfrelsi almennra borgara.

Skúli sagði að helst bæri að líta til þess hvort að viðkomandi hefði atvinnu af því að halda úti hlaðvarpi, auglýsingatekna, hvort hlaðvarpið væri birt með reglubundnum hætti og hvort að verið væri að birta efni sem væri keimlíkt því sem væri á hefðbundnum miðlum. Hann var því næst spurður að því hvort að málið snérist ekki um auglýsingar frekar en fjölmiðla. Skúli átti erfitt með að svara því og virtist raunar ekki geta svarað einni einustu spurningu um starf fjölmiðlanefndar sem að þáttastjórnendur báru undir hann. Satt best að segja virtist hann vera jafn ringlaður um það hvað umræðan snérist um og Gulli og Heimir. Hann var spurður hvort að það þyrftu ekki að vera skýrar reglur um það hvað nákvæmlega væri fjölmiðill og hvort að samfélagsmiðlastjörnur gætu talist til fjölmiðla. Hann sagði eiginlega ómögulegt að svara því hvaða skilgreining ætti að gilda og að samfélagsmiðlastjörnur teldust ekki vera fjölmiðlar þó svo að auglýsingatekjur séu að sjálfsögðu töluvert meiri í samfélagsmiðlabransanum heldur en í hlaðvörpum.

Það sama kom fram í hlaðvarpsþættinum Fjórða Valdið sem er óskráð hlaðvarp Fjölmiðlanefndar í umsjón Skúla. Viðmælandinn var Halldóra Þorsteinsdóttir héraðsdómari og sérfræðingur í fjölmiðlarétti. Líkt og með alla umræðu sem snýst um þessi mál sammæltust þau undir lok þáttarins að ekki væri hægt að veita nákvæma lýsingu á því hvaða hlaðvörp væru fjölmiðlar. Halldóra taldi þó að samfélagsmiðlastjörnur gætu talist til fjölmiðla við ákveðnar forsendur.

Í fyrsta þætti ofangreinds hlaðvarps Fjölmiðlanefndar mætti Jón Gunnar Ólafsson, nýdoktor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands til þess að ræða við Skúla. Jón Gunnar sagði að þrátt fyrir að fólk birti hugleiðingar sínar á Facebook væri ekki hægt að kalla það fjölmiðil. Gunnar sagði að vandamálið við internetið væri að í upphafi hefði fólk talið að það yrði vettvangur lýðræðislegrar umræðu, en að raunin hafi orðið önnur. Því væri mikilvægi hefðbundna fjölmiðla við að veita stjórnvöldum aðhald, og að aðgreina áreiðanlegar upplýsingar frá falsfréttum, enn mikilvægara en áður.

Hvorki ritrýni né ritstjórn er til staðar í hlaðvörpum og því getur almenningur ekki að borið sama traust til þeirra og raunverulegra fjölmiðla.

Hugleiðingar á Facebook eða öðrum miðlum á fleira sameiginlegt með hlaðvörpum heldur en nokkurn tímann fjölmiðli. Hlaðvörp lúta ekki ritstjórn, þáttastjórnandi getur sagt hvaða vitleysu sem er án þess að vera leiðréttur og hlustendur þurfa því að taka þeim upplýsingum með fyrirvara.

Rýrir traust almennings til fjölmiðla

Hugtakið fjölmiðill á að vekja traust fólks. Nýlega sagði formaður Blaðamannafélags Íslands, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, að almenningur þurfi að hafa augun opin gagnvart því hvað séu fréttir og hvað sé áhugamannablogg. Nákvæmlega í þessu kjarnast vandinn. Ef fjölmiðlanefnd telur sig þurfa að hlutast til um tjáningarfrelsi áhugamanna um fótbolta með því að skilgreina þá sem fjölmiðla, rýrir það traust almennings til fjölmiðla hér á landi sem að sinna því mikilvæga hlutverki að veita stjórnvöldum aðhald. Hvorki ritrýni né ritstjórn er til staðar í hlaðvörpum og því getur almenningur ekki að borið sama traust til þeirra og raunverulegra fjölmiðla. Ef fjölmiðlanefnd tekst að koma öllum hlaðvörpum undir hatt fjölmiðla glatast skilgreiningin á því hvað fjölmiðill er. Fjölmiðlar á Íslandi starfa við erfiðar aðstæður. Tungumálið sem þeir miðla á skilja aðeins örfáir og því hefur verið gripið til þess ráðs að styrkja fjölmiðla með opinberu fé. Munu hlaðvörp geta gert tilkall til þeirra styrkja?

Ef fjölmiðlanefnd telur sig þurfa að hlutast til um tjáningarfrelsi áhugamanna um fótbolta með því að skilgreina þá sem fjölmiðla, rýrir það traust almennings til fjölmiðla hér á landi sem að sinna því mikilvæga hlutverki að veita stjórnvöldum aðhald.

Starfsmenn fjölmiðlanefndar geta ekki gefið nákvæma lýsingu á því hvenær hlaðvarp verður að fjölmiðli. Þeir mæta í viðtöl til þess að útskýra það og svo virðist sem forsvarsmenn fjölmiðlanefndar komi ringlaðri úr umræðunni heldur en þegar þeir mættu. Samt sem áður krefjast þeir þess að aðrir skilji og að þeir sem ekki séu reiðubúnir að lúta þessum handahófskenndu reglum skuli sæta sektum. Hjálmar Jónsson sagði í Reykjavík síðdegis árið 2011 að það væri mótsögn að ríkið, í þessu tilfelli Fjölmiðlanefnd, myndi styrkja frelsi fjölmiðla með því að hlutast til um þeirra mál. Ég vil biðla til fjölmiðlanefndar að hún geri orð Hjálmars ekki að áhrínisorðum og endurskoði verkferla í atlögu sinni gegn hlaðvörpum.

Höfundur er hlaðvarpsstjórnandi og meistaranemi í opinberri stjórnsýslu.


Tengdar fréttir

Dr. Football sektaður um hálfa milljón

Fjölmiðlanefnd sendi stefnuvott að heimili Hjörvars Hafliðasonar, eiganda hlaðvarpsins Dr. Football, því hann svaraði ekki ítrekuðum erindum nefndarinnar.

Bloggari eða ekki, Björn Ingi heldur ótrauður áfram

Björn Ingi Hrafnsson, sem heldur úti vefsíðunni Viljanum, er ósáttur við skoðun formanns Blaðamannafélags Íslands að Viljinn sé bloggsíða hans. Hann bendir á að formaður félagsins sé fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu og spyr hvort draumurinn sé að allir blaðamenn vinni hjá ríkinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.