Viðskipti innlent

Lauf metið á þrjá milljarða eftir hluta­fjár­aukningu

Eiður Þór Árnason skrifar
Benedikt Skúlason, framkvæmdastjóri Lauf Forks.
Benedikt Skúlason, framkvæmdastjóri Lauf Forks. Vísir/Vilhelm

Íslenska hjólafyrirtækið Lauf Forks hf. hefur lokið 270 milljón króna hlutafjáraukningu en uppistaða aukningarinnar kemur frá nýjum hluthöfum. Heildarvirði Lauf er metið á um þrjá milljarða króna eftir viðskiptin.

Lögð var áhersla á að styrkja hluthafahóp Lauf til framtíðar en tekjur fyrirtækisins hafa um það bil tvöfaldast á hverju ári undanfarin þrjú ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lauf og er velta félagsins fyrir árið 2021 sögð verða tæpur milljarður króna. Þá mun félagið skila hagnaði. KPMG var ráðgjafi Lauf í hlutafjáraukningarferlinu.

Stofnað utan um demparagaffal

Að sögn forsvarsmanna verður nýtt hlutafé meðal annars nýtt í mikla markaðssókn á næsta ári. Með nýjar einkaleyfavarðar vörur í farvatninu og nýja starfsstöð í Virginíu-ríki í Bandaríkjunum stefnir félagið á áframhaldandi vöxt næstu árin. Tæplega 80% af sölu Lauf eru á Bandaríkjamarkaði.

Lauf Forks var stofnað árið 2011 og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir framsæknar nýjungar í hjólageiranum. 

Í upphafi var fyrirtækið stofnað utan um uppfinningu á demparagaffli fyrir reiðhjól sem fyrirtækið er með einkaleyfi á. Í dag er fyrirtækið einnig með alþjóðlegt einkaleyfi á stýri fyrir reiðhjól sem einnig er uppfinning félagsins. Þá eru tvær tegundir hjóla framleidd undir merkjum Lauf. Annars vegar malarhjólið Lauf True Grit og hins vegar alhliða reiðhjólið Lauf Anywhere.


Tengdar fréttir

Hringdu í fjárfesta í níu ár og velta nú milljarði

Benedikt Skúlason framkvæmdastjóri Lauf Forks segir umhverfi fjármögnunar nokkuð vanþróað á Íslandi fyrir nýsköpun. Fyrirtækið veltir nú tæpum milljarði og gerir ráð fyrir miklum vexti næstu árin.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×