Frítíminn

Dagur í lífi Ásdísar Kristjáns: Hefðbundin og allt að því óþolandi A-týpa

Ritstjórn Innherja skrifar
Ásdís Kristjánsdóttir á sér fleiri viðsemjendur en á vinnumarkaði, en samningaviðræður eiga sér líka stað við börnin um kvöldverðarseðilinn.
Ásdís Kristjánsdóttir á sér fleiri viðsemjendur en á vinnumarkaði, en samningaviðræður eiga sér líka stað við börnin um kvöldverðarseðilinn.

Ásdís Kristjánsdóttir er aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hún og fjölskyldan eru A-týpur, að hundinum undanskildum. Hún verður pirruð í umferðinni á morgnana en er blessunarlega ein í bílnum þennan morguninn þegar önugheitin eru sem mest. Mánudagsfiskurinn fellur ekki í kramið hjá öllum fjölskyldumeðlimum.

7.15 Vekjaraklukkan hringir alla virka daga á slaginu korter yfir sjö. Ég stekk venjulega fram úr og kveiki á kaffivélinni áður en ég vek börnin. Á mínu heimili er lítið verið að snúsa, við erum hinar klassísku A-týpur. Hundurinn okkar, Perla Möller, er hins vegar mikil B-týpa, sem staulast á lappir til að tryggja sér morgunmat. Hún fer þó fljótt aftur upp í rúm, hrýtur hátt og sefur til hádegis.

Perla Möller er augasteinn fjölskyldu Ásdísar og jafnframt eina B-týpan á heimilinu.
Við reynum að nýta morgnana við hljóðfæraæfingar hjá krökkunum. Ég get nú ekki sagt að það sé alltaf mikil spenna fyrir því en eftir erfiðar samningaviðræður tekst það þó þennan morguninn. Samningaloturnar fara nefnilega ekki bara fram í Karphúsinu. 

Fyrsta kaffibolli dagsins undirbý ég svo vel og vandlega. Við þá heilögu stund er mikilvægt að lágmarka alla truflun, lesa blöðin og vefmiðla í friði með bollanum. Fyrir kaffiunnendur mæli ég með Passalacqua baunum frá Napólí.

8.05 Börnin eru farin af stað í skólann. Ég er þá yfirleitt enn á sloppnum og næsta verkefni er að taka mig til á mettíma. Við búum í efri byggðum og því mikilvægt að leggja af stað snemma til að losna við umferðina. Ég get orðið mjög pirruð í umferðinni og get ekki skilið hvernig algjört aðgerðaleysi borgaryfirvalda hefur fengið að viðgangast ár eftir ár samhliða vaxandi umferð og tilheyrandi öngþveiti. Ég er sem betur fer að glíma við þennan pirring minn ein í bílnum.

Ásdís og kollegi hennar og framkvæmdastjóri SA, Halldór Benjamín Þorbergsson.

8.55 Ég mæti yfirleitt um níuleytið í vinnuna og fyrsta verk dagsins er að fá mér annan og yfirleitt síðasta kaffibolla dagsins. Ég reyni að nýta fyrsta korterið í að renna yfir vefmiðlana. Dagarnir eru fjölbreyttir oft á tíðum. Stundum kemur eitthvað óvænt upp og ég neyðist til að henda verkefnum frá mér til að sinna því. Aðra daga er meira næði og tími til að sinna ákveðnum verkefnum. Ég er oftast nær með tvö til þrjú verkefni í gangi á hverjum tíma, gjarnan greinaskrif, kynningar eða aðrar greiningar sem við erum að vinna.

Ég ætla mér oft að nýta hádegið í að hitta fólk en ég er afskaplega löt við að bóka mig í löns í hádeginu. Ég enda því oftast nær á bensínstöðinni við hliðina á vinnunni, sem ég geri þennan mánudag.
Ásdís og vinkonur hennar æfa saman tvisvar í viku. „Þetta er samt enginn spjallklúbbur," segir Ásdís.

17.00 Er ég mætt í World Class til Bjössa þjálfara eins og alla mánudaga. Ég æfi ásamt systur minni og vinkonum tvisvar í viku. Við höfum æft saman í rúmlega áratug, alltaf á sama tíma, á sama stað með sama þjálfarann. 

Það er frábært að blanda saman hreyfingu og vinkonuhitting. Ég mæli með því. Þetta er samt enginn spjallklúbbur enda sér Bjössi til þess að okkur er haldið við efnið! Engin miskunn.

18.30 Er ég loksin komin heim, krakkanir að tínast inn eftir æfingar og kvöldmaturinn er tilbúinn. Á mánudögum erum við oftast með fisk, sem krakkanir kvarta undan, í hvert sinn. Þá hefjast gjarnan aðrar samningaviðræður við börnin þann daginn, sem enda með loforði um grjónagraut í kvöldmat næsta dag. Við látum munnlegt samkomulag nægja í þetta sinn þó krakkarnir færist æ nær því að vilja það útskrifað í samningum að mánudagsfiskurinn fari alfarið út.

Agnar Tómas Möller, eiginmaður Ásdísar auk barnanna þriggja.

Það er almennt skýr verkaskipting hjá okkur hjónum. Maðurinn minn sér um matarinnkaup og eldamennskuna enda mun flinkari en ég í bæði búðinni og eldhúsinu. Ég sé hins vegar um tiltekt og þvottinn.

21.00 Um níuleytið þarf að viðra hundinn sem maðurinn minn sér um, á meðan ég skelli mér í kósígallann og klára heimalærdóminn með krökkunum. Þegar allir eru komnir í ró fer ég sjálf upp í rúm. Ég renni yfir alls konar miðla, les bækur eða greinar milli þess sem ég horfi á Netflix. Ég er oftast sofnuð snemma, jafnvel á undan unglingunum á heimilinu. Eins og ég segi er ég hin hefðbundna og allt að því óþolandi, A-týpa.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.