Viðskipti innlent

Bíllinn líka í jóla­baðið: „Þetta er alltaf svona fyrir jólin“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Langar raðir hafa myndast við bílaþvottastöðvar víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu.
Langar raðir hafa myndast við bílaþvottastöðvar víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu. Aðsend/Guðjón Pétursson

Langar biðraðir hafa verið í bílaþvottastöðvar Löðurs síðustu daga en fyrirtækið rekur alls fimmtán bílaþvottastöðvar hér á landi. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir síðustu daga fyrir jól vera allra stærstu daga ársins í bílaþvotti, að frátöldum nýársdag.

Notendur samfélagsmiðilsins Twitter voru gáttaðir á bílaþvottaæði landsmanna og veltu því fyrir sér hvort að bílaeigendum væri óhugsandi að halda gleðileg jól án þess að hafa bílinn tandurhreinan. 

Elísabet Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Löðurs, segir að landsmenn telji ekki nóg að þrífa allt hátt og lágt heima fyrir. Margir bílaeigendur virðist einnig telja óhugsandi að hafa bílinn grútskítugan úti í stæði á aðfangadag og drífi sig því með hann í þvott. Hún segir að einhverjir virðist jafnvel hafa bílaþvott inni í sjálfri jólarútínunni.

„Við erum með rosa langar raðir og fimmtíu bíla í röð en þetta gengur voða hratt fyrir sig. Við getum, eins og niðri á Fiskislóð, tekið 72 bíla á klukkustund,“ og bætir við að starfsfólkið sé á fullu þessa dagana: „Þetta er alltaf svona fyrir jólin. Við erum bara ótrúlega heppin, starfsfólkið er voðalega ánægt og allir kátir. Þetta er bara rosalega gaman,“ segir Elísabet.

Myndin er tekin á bílaþvottastöð Löðurs á Vesturlandsvegi.Aðsend/Guðjón Pétursson




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×