Umræðan

Covid-kynslóðin

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir skrifar

Vegna Covid hefur um einn og hálfur milljarður barna í nærri 200 löndum verið sendur heim úr skóla í skemmri eða lengri tíma. Nýjar alþjóðlegar rannsóknir sýna að fjarvera barna frá skóla hefur haft skelfilegar afleiðingar. 

Ekki einungis verður afturför í námsgetu heldur er sums staðar talað um algjört neyðarástand hvað geðheilsu barna varðar. Það er sorgleg, og oft býsna vel falin, staðreynd að fjöldi barna býr við vanrækslu og ofbeldi á heimilum. 

Fyrir börn í slíkri stöðu er alvarlegt að loka slíkum griðastað sem skólinn getur verið. Með því verða þau fangar í í ömurlegum heimilisaðstæðum.

Blessunarlega hafa Íslendingar ekki gengið jafnt langt og sumar aðrar þjóðir í að loka skólum. Eigi að síður er það svo að börn og ungt fólk hér á landi hefur þegar fært miklar fórnir. Að sæta sóttkví og missa úr skóla, að undirgangast langa einangrun óháð alvarleika sýkingar, bera grímu með tilheyrandi skerðingu á eðlilegum samskiptum og félagsþroska, að taka ekki þátt í iðandi félagslífi og missa að miklu leyti af mikilvægu félagslegu skeiði eru allt fórnir sem við vitum ekki enn hvaða afleiðingar munu hafa. Ekkert af þessu á að vera hluti af eðlilegu lífi til lengri tíma. Það er samt sem áður raunin og þá stöðu verður að endurskoða.

Það er alls ekki óeðlilegt að heilbrigðisráðherra hafi í tveimur atriðum farið gegn minnisblaði sóttvarnalæknis að þessu sinni. Annars vegar neitaði hann kröfu um að gera börnum niður í sex ára aldur skylt að bera grímur í samræmi við þroska. Hins vegar ákvað hann að fresta ekki skólahaldi í samráði við okkur ráðherra skólamála. 

Ég styð báðar ákvarðanir heilbrigðisráðherra fyllilega. Á því eru vissulega skiptar skoðanir en væntingar um að aldrei sé vikið frá tillögum sóttvarnalæknis, jafnvel í smæstu atriðum, virðast hafa skotið rótum býsna víða.

Það er mín einlæga sannfæring að engin ástæða hafi verið, né verði, til að loka skólum. Afstaða mín skýrist einkum af tvennu. Börnum og ungu fólki stafar almennt lítil hætta af covid og börnin líða fyrir það að fá ekki að mæta í skólann.

Allar rannsóknir sýna að innlagnir og alvarleg veikindi meðal barna eru ákaflega fátíð, og mun sjaldgæfari en af margvíslegum öðrum sýkingum, til að mynda árlegri inflúensu. Þá sýna rannsóknir að langvarandi covid (e. long covid) er einnig mjög fátítt á meðal barna.

Sem betur fer leggst veiran ekki þungt á börn og ungt fólk. Andlát af völdum covid eru nánast í algjöru samræmi við það sem gildir um andlát almennt. Eftir því sem fólk er eldra og veikara, þeim mun líklegra er að covid-19 veikindi verði þeim að aldurtila. Samkvæmt upplýsingum sem komu fram í svari Landlæknis hefur ekkert barn á aldrinum 5 til 11 ára verið lagt inn vegna covid-19 veikinda á Íslandi, en alls hafa ríflega þrjú þúsund börn á aldrinum 6-12 ára verið greind með veirusýkingu frá upphafi faraldurs.

Vissulega er rétt að taka fram að börn eru ekki ein í skóla heldur eru þar kennarar og aðrir starfsmenn, sumir hverjir jafnvel í áhættuhópum. Vitanlega þurfum við að taka tillit til þeirra og gera viðeigandi ráðstafanir. Sem betur fer hefur meginþorri kennara verið bólusettur og allar rannsóknir sýna að veiran hefur mun minni áhrif á bólusetta en aðra.

Að þessu sögðu er ljóst að rík rök eru að baki þeirri ákvörðun að loka ekki skólum. Unga fólkið okkar á það skilið að við fórnum ekki meiri hagsmunum fyrir minni—og ekki börnunum fyrir aðra hópa.

Öll viljum við vernda líf og heilsu fólks en það er margt annað sem hefur áhrif á heilsu og líðan fólks en þessi eina tegund veiru. Önnur sjónarmið en sóttvarnir þurfa að heyrast - sérstaklega þegar börn eiga í hlut. Það verður að líta til fleiri þátta en smitvarna þegar íþyngjandi ákvarðanir eru teknar um takmarkanir hér á landi almennt. Það er á ábyrgð okkar. Slíkar athugasemdir á ekki að slá létt út af borðinu. 

Þegar fram líða stundir er einmitt ekki ósennilegt að byrðarnar sem lagðar voru á börn og ungmenni víða um heim vegna farsóttarinnar veki upp áleitnar spurningar.

Þótt jólin 2021 verði óvenjuleg fyrir marga vona ég að þau verði gleðileg - og vonandi þau síðustu sem við höldum í skugga þessa faraldurs.

Höfundur er háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×