Handbolti

Leikjum allra Íslendinganna í Danmörku frestað vegna fjölda smita

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Pálmarsson og félagar í Álaborg spila ekki í dag.
Aron Pálmarsson og félagar í Álaborg spila ekki í dag. EPA-EFE/RENE SCHUETZE

Kórónuveirufaraldurinn hefur sett allt úr skorðum í danska handboltanum í dag. Búið er að fresta sex leikjum í úrvalsdeild karla í Danmörku.

Þegar þetta er skrifað er leikur Bjerringbro-Silkeborg og Skjern eini leikur dagsins sem eftir stendur, samkvæmt frétt TV 2, og búist er við því að hann verði spilaður.

Þetta þýðir þó að landsliðsmennirnir Aron Pálmarsson (Aalborg), Sveinn Jóhannsson (SönderjyskE) og markverðirnir Viktor Gísli Hallgrímsson (GOG) og Ágúst Elí Björgvinsson (Kolding), spila ekki í dag.

Aron átti til að mynda að spila með liði Álaborgar, þar sem Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari, gegn Holstebro en leiknum var frestað vegna hópsmits hjá Holstebro.

Íslendingarnir fjórir eru hins vegar ekki komnir í jólafrí því enn stendur til að spila í dönsku deildinni 27. og 30. desember, áður en við tekur hlé vegna Evrópumótsins.

Fjórmenningarnir eru allir í EM-hópnum sem Guðmundur Guðmundsson valdi og tilkynntur var í gær. Áætlað er að hópurinn komi saman á Íslandi 2. janúar til æfinga en fyrsti leikur á EM er 14. janúar gegn Portúgal í Búdapest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×