Neytendur

Grípa ekki til að­gerða vegna deilna um „Zolo“

Atli Ísleifsson skrifar
Rekstur City Bikes gengur út á leigu og sölu á rafmagnshlaupahjólum.
Rekstur City Bikes gengur út á leigu og sölu á rafmagnshlaupahjólum. Zolo

Neytendastofa sér ekki ástæðu til að grípa til aðgerða vegna deilna um notkun á auðmenninu og vörumerkinu ZOLO. Kvörtun hafði borist stofnuninni frá Zolo og dætrum ehf. þar sem kvartað var yfir notkun City Bikes ehf á merkinu Zolo á rafhlaupahjólum sínum.

Á vef Neytendastofu segir að í kvörtun Zolo og dætra sé rakið að félagið telji notkun City Bikes á auðkenninu villandi, brjóta gegn vörumerkjarétti þess og sé til þess fallin að neytendur ruglist á fyrirtækjunum.

City Bikes hafnaði hins vegar því sem fram kom í kvörtun Zolo á dætra og benti á að félögin væru ekki í samkeppni og starfsemi þeirra ótengd. Zolo og dætur rekur verslun í Keflavík og netverslunina ilmoliulampar.is með vöruframboð yfir tvö hundruð gerða af ilmolíum og ilmkjarnaolíum, ásamt fjölda tegunda ilmolíulampa. Rekstur City Bikes gengur hins vegar út á leigu og sölu á rafmagnshlaupahjólum.

Neytendastofa taldi í ákvörðun sinni nauðsynlegt að horfa til og styðjast við heildarmat á því hvort hætta væri á að neytendur rugluðust á fyrirtækjunum vegna líkinda auðkennanna.

„Starfsemin væri að mati Neytendastofu ólík sem og framboð á vörum og þeirri þjónustu sem fyrirtækin veita viðskiptavinum sínum. Þá væru myndmerki fyrirtækjanna talsvert ólík sem og firmaheiti þeirra. Heildarmat á útliti auðkennanna, notkun þeirra og vöruframboði sem og markhópi leiddi til þeirrar niðurstöðu stofnunarinnar að þrátt fyrir notkun á sama heitinu „ZOLO“ í einhverri mynd þá væri ekki hætta á ruglingi.

Niðurstaða Neytendastofu var sú að ekki væri ástæða til frekari aðgerða í málinu,“ segir á síðu Neytendastofu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×