Innherji

Eik fær ekki að áfrýja dómi Landsréttar í málinu gegn Andra Má

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Andri Már Ingólfsson, fyrrverandi aðaleiganda Primera Air samstæðunnar.
Andri Már Ingólfsson, fyrrverandi aðaleiganda Primera Air samstæðunnar.

Hæstiréttur hefur hafnað beiðni Eikar fasteignafélags um að fá leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar í máli félagsins gegn Andra Má Ingólfsson, fjárfesti og fyrrverandi aðaleiganda Primera Air. Málið varðaði kaup félagsins á Hótel 1919 af fjárfestinum árið 2016.

Forsvarsmenn Eikar töldu að hlutaféð í Hóteli 1919 hefði ekki haft áskilda kosti í samræmi við ábyrgðaryfirlýsingar Andra Más í kaupsamningnum þar sem gögn og upplýsingar frá fjárfestinum hefðu verið rangar og misvísandi. Skaðabótakrafa fasteignafélagsins hljóðaði upp á 54 milljónir króna.

Fasteignafélagið byggði einkum á því að við endurskoðun ársreiknings hótelsins fyrir árið 2016 hefði komið í ljós röng færsla á viðhaldssjóði sem skammtímaskuldbindingu í efnahagsreikningi félagsins fyrir kaupin. Þannig hefðu gjaldfærslur vegna framlags í viðhaldssjóðinn verið gjaldfærðar skattalega í andstöðu við lög á árunum 2005 til 2015.

Eik hefði því þurft að láta fara fram leiðréttingu upp á 53 milljónir króna til hækkunar á tekjuskattsinneign félagsins og ógreiddum sköttum sem hefði rýrt verðmæti hins selda um samsvarandi fjárhæð.

Andri Már bar því við á móti að Eik hefði fyrir kaupin látið gera ítarlega áreiðanleikakönnun sem hefði meðal annars tekið til viðhaldssjóðsins. Engum gögnum hefði þar verið leynt af sinni hálfu.

Með dómi Landsréttar var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að sýkna Andra Má af kröfu Eikar. Dómurinn taldi meðal annars að Eik hefði ekki fært sönnur á að Andri Már hefði beitt vísvitandi blekkingum eða leynt gögnum um meðferð viðhaldssjóðsins.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×