Innherji

Gjörbyltu gömlu ríkisfyrirtæki og fengu gott verð fyrir

Hörður Ægisson skrifar
Salan á Mílu eru sögð viðskipti sem margir höfðu mátað sig við en enginn haft dug né þor til að framkvæma.
Salan á Mílu eru sögð viðskipti sem margir höfðu mátað sig við en enginn haft dug né þor til að framkvæma.

Jón Sigurðsson, sem leiðir eitt stærsta fjárfestingafélag landsins, var valinn viðskiptamaður ársins á Viðskiptaverðlaunum Innherja 2021 fyrir stöðuga verðmætaaukningu í íslensku atvinnulífi með áhrifafjárfestingum Stoða. Þetta er verðmætaaukning sem verður ekki til af sjálfu sér heldur með úthugsaðri stefnumótun áður en Stoðir kaupa sig inn í félög.

Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í gærkvöldi á Hilton Nordica.

Stoðir eiga að baki afar viðburðarríkt og farsælt ár sem hefur skilað sér í ævintýralegri ávöxtun fyrir hluthafa félagsins en eigið fé þess hækkaði úr 32 milljörðum í 48 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins. Fjárfestingafélagið er meðal annars leiðandi fjárfestir í Símanum, Arion banka, Play og Kviku banka.

Í rökstuðningi dómnefndar Innherja er sala Símans á Mílu til franska fjárfestingasjóðsins Ardian fyrir um 78 milljarða króna, ein stærsta erlenda fjárfestingin í íslensku hagkerfi til margra ára, einkum nefnd fyrir valinu á Jóni sem viðskiptamanni ársins. Jón hefur verið stjórnarformaður Símans frá árinu 2019 en Stoðir eru stærsti einstaki hluthafinn með um 15 prósenta hlut.

Salan á Mílu eru sögð viðskipti sem margir höfðu mátað sig við enginn haft dug né þor til að framkvæma.

Þannig er bent á að það hafi verið flókið að aðskilja reksturinn frá Símanum og selja, en það hafi að lokum tekist og gott verð hafi fengist fyrir Mílu. Salan hafi búið til gríðarleg verðmæti fyrir hluthafa Símans en fram hefur komið að áætlaður söluhagnaður sé um 45 milljarðar.

„Það er búið að gjörbylta gömlu ríkisfyrirtæki með því að straumlínulaga rekstur verulega og selja í burtu einingar úr samstæðu þannig að úr varð meira verðmæti fyrir hluthafa en markaðsvirði félagsins endurspeglaði áður. Salan á Mílu er jafnframt mjög flókið ferli að stýra þar sem ýmsir áhættuþættir, meðal annars pólitískir, geta haft afgerandi áhrif. Síður en svo sjálfsagt að ná að klára og hvað þá að fá svo gott verð fyrir eignina,“ segir einn dómnefndarmaður.

Þá er einnig dregið fram að salan hafi vakið „deilur og muni verða prófsteinn á það hvort útlendingar megi – og þá um leið hvort þeir vilji – eiga alvöru viðskipti á Íslandi.“

Viðskiptin munu ekki aðeins búa til mikil verðmæti fyrir hluthafa heldur eru þau einnig mikilvægt skref í að auka þátttöku einkaaðila að nauðsynlegri innviðauppbyggingu og um leið að bæta samkeppnisumhverfið í fjarskiptaþjónustu.

„Uppskiptingin á Mílu frá Símanum fellur vel að meginreglum OECD um innviðauppbyggingu og þátttöku einkaaðila í henni. Þar segir að mikilvægur þáttur í innviðauppbygginu er að bæta samkeppnisumhverfi innviða og skipta upp starfsemi fyrirtækja bæði lágrétt og lóðrétt. Með þessari sölu er tekið enn eitt skrefið í þá átt,“ kom meðal annars fram í rökstuðningi eins dómnefndarmanns.

Þá er jafnframt nefnt að salan muni gefa tóninn fyrir frekari uppbyggingu fjarskiptaneta á Íslandi. „Það er mikil gerjun í gangi og samkeppnisaðilar munu gera allt til að byggja upp heildstætt kerfi sem getur keppt að fullu við sjálfstæða Mílu. Á sama hátt jafnar salan samkeppnisstöðu á milli Nova, Vodafone og Símans, sem ætti að gefa Samkeppniseftirlitinu vinnufrið til að skoða aðra geira.“

Sýnt mikinn stuðning við félögin

Í umsögn dómnefndar Innherja kom meðal annars fram að Stoðir hafa verið í hlutabréfastöðum sínum í talsverðan tíma og sýnt mikinn stuðning við félögin – Símann, Kviku og Arion – sem á sinn þátt í því að þau eru í hópi hástökkvara þessa árs í Kauphöllinni. Jón var á meðal arkitektanna að samruna Kviku og TM, sem kláraðist á árinu og hefur skilað hluthöfum ríkulegri ávöxtun, og sem einn stærsti hluthafinn í Arion banka hafa Stoðir komið að uppbyggingu á nýju viðskiptamódeli sem hefur umbylt rekstri bankans á skömmum tíma.

Á árinu voru Stoðir einnig á meðal fjárfesta sem leiddu stofnun nýs lággjaldaflugfélags, Play, og framundan er næsta stóra atvinnugreinin, uppbygging laxeldis á landi. Þá greindi Innherji frá því í síðasta mánuði að Stoðir hefðu verið á meðal evrópskra hornsteinsfjárfesta sem komu að fjármögnun á nýju sérhæfðu yfirtökufélagi (e. SPAC), undir nafninu SPEAR Investments I, sem sótti sér 175 milljónir evra, jafnvirði um 26 milljarða íslenskra króna, í hlutafjárútboði sem kláraðist fyrr í þessum mánuði. Í kjölfarið var félagið skráð í Euronext kauphöllina í Amsterdam þann 11. nóvember síðastliðinn.

Stoðir fjárfestu í SPEAR Investments fyrir um 5 milljónir evra, jafnvirði um 750 milljónir króna. Voru Stoðir í hópi tólf evrópskra fjárfestingafélaga sem voru hornsteinsfjárfestar í útboðinu og skuldbundu sig til að leggja SPEAR til samanlagt 40 milljónir evra við skráningu á markað í Hollandi.

Viðskipti ársins voru svo hlutafjárútboð og skráning Íslandsbanka á markað, en við verðlaununum tóku Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Þá hlaut Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris Invest, sérstök heiðursverðlaun íslensks atvinnulífshlaut fyrir framlag sitt til íslensks atvinnulífs undanfarna áratugi. Nánar verður fjallað um afrek Þórðar síðar í vikunni.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.