Jól

Jólamolar: Eiginmanninum ofbauð þegar hún vildi hafa tvö jólatré

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Guðrún Veiga er einstaklega mikið jólabarn, meira að segja svo mikið að hún á það til að ofbjóða fólki með jólaæsing. Hér má sjá hana ásamt eiginmanni sínum og börnum.
Guðrún Veiga er einstaklega mikið jólabarn, meira að segja svo mikið að hún á það til að ofbjóða fólki með jólaæsing. Hér má sjá hana ásamt eiginmanni sínum og börnum.

Samfélagsmiðlastjarnan og mannfræðingurinn Guðrún Veiga er eitt mesta jólabarn sem fyrirfinnst. Hún hlustar til dæmis á jólalög allan ársins hring og horfir á jólamyndir í júlí. Ein af hennar uppáhalds jólahefðum er að liggja í unaðslegri ofátsmóðu með bleikan Mackintosh mola að lesa góða bók.

Jólamolar Vísis munu birtast reglulega fram að jólum. Þar fáum við að kynnast þjóðþekktum einstaklingum í nýju ljósi og komast að því hvað það er sem kemur þeim í jólagírinn. Jólamolunum er ekki síður ætlað að koma lesendum Vísis í hið eina sanna jólaskap.

Hvort myndirðu skilgreina þig sem Elf eða The Grinch?

Tjah, ég hlusta á jólalög allan ársins hring. Horfi á Christmas Vacation í júlí. Ég er komin út í geymslu að gramsa eftir jólaskrauti í byrjun september. Hérna skíðlogar á jólatrénu frá sirka miðjum október og helst ætti að svipta mig fjárforræði upp úr miðjum nóvember af því mig vantar alltaf aðeins meira jólaskraut. Ofbauð manninum mínum örlítið um daginn þegar ég vildi ólm hafa tvö jólatré – við búum í 150 fm, ekki 1500 fm. Þannig að já – þetta svarar líklega spurningunni þinni. Ýkt útgáfa af Elf, sem á það til að ofbjóða fólki með jólaæsing.

Hér má sjá rúmföt Guðrúnar Veigu sem bera þess sterk merki um hve mikið jólabarn hún er í raun og veru.

Hver er þín uppáhalds jólaminning?

Ég er svo gæfusöm að ég hef alla tíð átt óskaplega friðsæl og falleg jól. Þeim fylgja ótal minningar sem erfitt er að gera upp á milli. Einu sinni leið eiginlega yfir bróðir minn úr ofáti á aðfangadagskvöld, ég á myndir því til sönnunar. Mig minnir að við systur höfum talið ofan í hann einhverjar 11 kartöflur með matnum. Þetta er saga sem er oft og ítrekað rifjuð upp og eitthvað sem gaf food coma alveg nýja merkingu.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?

Ætli Nintendo tölva standi ekki upp úr, fékk hana frá mömmu og pabba þegar ég var líklega 10 eða 11 ára. Að vísu fylgdi bara einn stýripinni og Mario Bros var eitthvað sem ég hefði ekki átt að kynna fyrir pabba. Ég kom ekkert höndum yfir stýripinnann fyrr en hann fór aftur til vinnu eftir jól.

Hver er versta jólagjöf sem þú hefur fengið?

Ég var agaleg þegar ég var krakki, ég átti það til að drösla þeim jólapökkum sem borist höfðu heim inn á baðherbergi og gægjast í þá. Og ef mamma er að lesa þetta þá er hún að heyra þetta í fyrsta skipti og ég fæ örugglega símtal. Ég var (er) svo andstyggilega forvitin og varð alltaf að vita hvort ég væri að fara að verða fyrir vonbrigðum eða ekki.

En í minningunni standa gjafir frá yngri systur minni upp úr. Ég þoldi ekki að hún gaf mér alltaf eitthvað sem hún hafði föndrað. Og hún þoldi ekki að ég stillti aldrei handverki hennar upp í herberginu mínu að pakkaopnun lokinni. Ég hef nú tekið út nægan þroska í dag til þess að skilja að þetta voru ó svo fallegar gjafir, sem komu beint frá hjartanu. Verst að ég henti þeim öllum í einhverri fýlunni sem við fórum í við hvor aðra í æsku.

Hver er uppáhalds jólahefðin þín?

Æ, ég held að það sé bara að liggja einhvers staðar í unaðslegri ofátsmóðu með bók. Og bleika Mackintosh mola. Jájájá, það flokkast sem jólahefð.

Að ógleymdu aðfangadagskvöldskaffinu hennar mömmu, hefð sem ég hef tekið upp eftir að ég fór að halda jól sjálf. Þegar líða fer að miðnætti á aðfangadag er sett á tertur, dregnar fram smákökur og majónessalöt og svo setjast allir niður að njóta. Það er ekki gild afsökun að segjast enn vera saddur eftir kvöldverðinn. Og eftirréttinn. Og konfektið með pökkunum. Hlustar ekki nokkur maður á slíka vitleysu.

Hvað er uppáhalds jólalagið þitt?

Jólin eru okkar með Baggalút, Bríet og Valdimar.

Hver er þín uppáhalds jólamynd?

Nú auðvitað Elf! Og Family Stone.

Hvað borðar þú á aðfangadag?

Rjúpur að hætti eiginmannsins og frómasinn hennar mömmu.

Hvað óskar þú þér í jólagjöf í ár?

Nýja bókin hans Arnaldar Indriða er ofarlega á listanum.

Hvað er það sem hringir inn jólin fyrir þér?

Skötulykt! Þrúgandi skötuilmur sem svíður nefhárin. Hann kemur með mín jól. Ég borða samt alls ekki skötu, ekki að ræða það. Lyktin hefur bara fylgt jólunum mínum alla tíð og er algjörlega ómissandi. Ég sit svo bara og borða pylsur og baða mig í lyktinni.

Er eitthvað skemmtilegt á döfinni hjá þér núna fyrir jólin?

Jólaglögg, samverustundir með fólkinu sem ég elska, horfa á enn fleiri jólamyndir (er að reyna að komast yfir allar sem framleiddar hafa verið, góðar og slæmar), sörubakstur, lifa, njóta og hlusta á Bubba á Þorláksmessu.

Hægt er að fylgjast með Guðrúnu Veigu á Instagram.

Guðrún Veiga ætlar að njóta samverustunda með fólkinu sem hún elskar í desember, ásamt því að baka sörur, horfa á allar jólamyndir sem framleiddar hafa verið.

Tengdar fréttir

Jóla­molar: Er ein af þeim fáu sem sendir enn­þá jóla­kort

Það er óhætt að segja að dagskrárgerðarkonan Eva Laufey Kjaran sé ein af þeim sem bakar tvær ef ekki þrjár sortir fyrir jólin. Hún er mikið jólabarn og hefst undirbúningurinn snemma hjá henni. Hún gaf nýlega út sína fjórðu bók, Bakað með Evu, ásamt því að hafa verið að frumsýna aðra þáttaröð af Blindum bakstri síðasta sunnudag en fyrstu þættirnir verða í sérstökum hátíðarbúningi.

Jóla­­­molar: Er ekki týpan sem skiptir gjöfum

Selma Björnsdóttir er einstaklega mikið jólabarn. Það er nóg að gera hjá henni í desember en fyrir utan almennan jólaundirbúning syngur hún á alls þrettán jólatónleikum ásamt því að stýra athöfnum hjá Siðmennt og leikstýra. Þá fer hún einnig með hlutverk í sjónvarpsþáttaröðinni Verbúðinni sem frumsýnd verður á RÚV á annan í jólum.

Jólamolar: „Það er Jesúbarnið sem kemur, ekki Heilbrigðiseftirlitið“

Linda Ásgeirsdóttir og Hrefna Hallgrímsdóttir hafa glatt ófá börnin sem hinar litríku persónur Skoppa og Skrítla. Þeir sem horft hafa á Skoppu og Skrítlu vita að þær eru báðar mikil jólabörn og hafa til dæmis verið með jóladagatal á Stöð 2 og jólasýningu í Borgarleikhúsinu. En eru þær Linda og Hrefna jafn mikil jólabörn og vinkonurnar Skoppa og Skrítla?


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.