Innherji

Ás­laug Hulda stefnir á odd­vita­sætið í Garða­bæ

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Áslaug Hulda Jónsdóttir brennur fyrir málefnum Garðabæjar. Hún hefur reynslu víða að úr atvinnulífinu, auk þess sem hún hefur setið í bæjarstjórn í rúman áratug.
Áslaug Hulda Jónsdóttir brennur fyrir málefnum Garðabæjar. Hún hefur reynslu víða að úr atvinnulífinu, auk þess sem hún hefur setið í bæjarstjórn í rúman áratug.

Áslaug Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Garðabæjar, býður sig fram til forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Garðabæ í prófkjöri sem haldið verður fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. 

Gunnar Einarsson, sem hefur verið bæjarstjóri Garðabæjar í tæp sautján ár, tilkynnti í gær að hann hyggðist setjast í helgan stein að loknu kjörtímabili.

Áslaug Hulda hefur setið í bæjarstjórn Garðabæjar frá árinu 2010, verið forseti bæjarstjórnar og sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún skipaði fyrsta sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ í síðustu sveitarstjórnarkosningum þar sem Sjálfstæðismenn náðu inn átta bæjarfulltrúum en Garðabæjarlistinn, sem samanstóð af fólki úr Viðreisn, Samfylkingu, Vinstri grænum og Bjartri framtíð, náði inn þremur.  

Ekki hefur enn verið ákveðið hvenær prófkjör verður haldið í Garðabæ, en stefnt er að því að dagsetning liggi fyrir á allra næstu vikum. Engir aðrir hafa gefið kost á sér í efsta sætið.

Hefur sterka framtíðarsýn fyrir Garðabæ

„Fjárhagsstaða sveitarfélagsins er sterk og mikil uppbygging framundan í ört vaxandi bæjarfélagi. Húsnæðisframboð mun aukast og fleiri fyrirtæki munu hefja starfsemi í bænum. Ég hef sterka framtíðarsýn fyrir Garðabæ ,” segir Áslaug Hulda.

Auk pólítískra starfa hefur Áslaug Hulda komið víða við í atvinnulífinu, nú síðast í eigendahópi plastendurvinnslufyrirtækisins Pure North Recycling auk þess að hafa sæti í stjórn lífeyrissjóðsins Gildis. Áður var hún framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar og aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra. Hún er grunnskólakennari að mennt með framhaldsmenntun í stjórnun frá IESE Business School í Barcelona.

„Góð þjónusta við íbúa Garðabæjar skiptir miklu máli en alltaf er hægt að gera betur. Við þurfum að efla leik- og grunnskólana. 

Reynsla mín og þekking á skólamálum, sem eru einn stærsti þátturinn í rekstri sveitarfélaga, vegur þar þungt. Okkur ber líka að auka þjónustu við eldri bæjarbúa og tryggja þeim velferð og vellíðan," segir Áslaug Hulda.

Hún vill gera betur í umhverfismálum, þjónustu við fatlaða einstaklinga og efla íþrótta- og tómstundastarf, meðal annars með uppbyggingu íþróttamannvirkja. „Einnig er brýnt að vinna hraðar að stafrænum lausnum innan sveitarfélagsins en í þeim málum hef ég beitt mér innan Garðabæjar, hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þá eigum við að veita fyrirtækjum góð skilyrði til að reka hér fjölbreytta starfsemi,” segir Áslaug Hulda.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×