Innherji

Borgarpólítíkin áberandi á topplista vikunnar

Ritstjórn Innherja skrifar
Reykjavíkurborg var hástökkvari vikunnar.
Reykjavíkurborg var hástökkvari vikunnar.

Reykjavíkurborg og Veðurstofa Íslands voru hástökkvarar vikunnar á topplista félaga og stofnana sem komu oftast fyrir í vikunni.

Reykjavíkurborg skaust upp í þriðja sæti topplista frétta í liðinni viku, en baráttan um borgina er formlega hafin og hafa fjölmiðlar og umræðuþættir verið undirlagðir umfjöllun um borgarpólítík undanfarna daga. Allt stefnir í spennandi prófkjörsslag um oddvitasætið hjá Sjálfstæðisflokknum í borginni, en flokkurinn skipar einmitt toppsætið að þessu sinni. 

Þá hefur borgarstjóri enn ekki gefið út hvort hann hyggist halda áfram sem oddviti Samfylkingarinnar, þrátt fyrir að hafa fengið spurninguna nokkuð oft. Samfylkingin skipar tíunda sæti topplistans. 

Fjárhagsáætlun borgarinnar var einnig kynnt og fjölmiðlar fjölluðu ítarlega um málið, en rekstrarniðurstaða A-hluta borgarinnar, þess hluta sem rekinn er með skatttekjum, verður neikvæð um tæpa þrjá milljarða á næsta ári. Rekstrarniðurstaða samstæðu borgarinnar verður hins vegar jákvæð um 9 milljarða, samkvæmt áætluninni.

En það er ekki bara skjálfti í borgarmálunum, því aukin skjálftavirkni við Grímsvötn í upphafi vikunnar varð til þess að Veðurstofa Íslands skaut sér inn á topplista vikunnar. Á svæðinu mældist stærsti skjálftinn í vikunni af stærð 3,6. 

Innherji, í samstarfi við Creditinfo, mun birta topplista félaga og stofnana sem hafa oftast komið fyrir í fréttum þá vikuna. Alltaf á sunnudögum.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×