Innherji

Svava segir Boozt ekki vera að taka af NTC

Ritstjórn Innherja skrifar
Svava Johansen hefur ekki stórkostlegar áhyggjur af innkomu Boozt.
Svava Johansen hefur ekki stórkostlegar áhyggjur af innkomu Boozt.

Svava Johansen, kaupmaður í NTC, segir innreið netverslunar Boozt til Íslands vissulega kröftuga, en segir þó að staðan muni ekki skýrast fyrr en að áhrifum heimsfaraldurs á hegðun og ferðalög fólks linnir. Sjálf fagnar hún allri samkeppni og segir Boozt ekki fyrstu áskorunina í sínum verslunarekstri, sem spannar áratugi í borginni.

Svava segir að almennt megi vera meiri sveigjanleiki í borginni. Henni finnst að borgaryfirvöld megi taka sér sterkari stöðu með verslunarmönnum og atvinnurekendum í Reykjavík sem gera borgina að skemmtilegum stað, þar sem verslunum, veitingastöðum, viðburðum og því sem almennt gleður borgarbúa er haldið úti.

Innherji greindi frá því á dögunum að stærsta netverslun Norðurlanda, Boozt, hefði selt fyrir tæpan milljarð á Íslandi frá júlí og þar til í nóvember. Boozt selur meðal annars vörur sem Svava í 17 gerir líka í NTC verslunum sínum og ntc.is. Samkvæmt Markaðsvakt Meniga sem greindi innkomu netrisans á íslenskan markað á dögunum er sá árangur ekki síst merkilegur fyrir þær sakir að Boozt er fyrst og fremst að stækka kökuna, frekar en að taka frá öðrum verslunum. Það líka þrátt fyrir að netverslun hafi aukist töluvert frá því að samkomutakmarkanir hófu að taka gildi hér á landi.

Boozt tekur af Asos

Svava segir þróunina mjög áhugaverða. „Það sem gerir þetta svo erfitt að greina er að þegar Boozt koma inn á markaðinn þá eru svo margir heima. Það er sagt að þau séu aðallega að bæta við sölu, frekar en að taka af öðrum, en það er alveg augljóst að þau taka samt af annarri erlendri netverslun eins og til að mynda Asos sem hafði talsvert mikið uppúr því að selja til Íslands fyrir tilkomu Boozt,” segir hún og greining Meniga færir enn frekari rök fyrir því.

„Það hefur verið aukning í sölu hjá okkur undanfarið og eiginlega flestum innlendum kaupmönnum sem ég tala við. Við erum líka með fullt af tilboðum. 

Við erum með Black Friday, Miðnætursprengju, Singles day og svo mætti áfram telja. Fólk er að fara minna til útlanda en það gerði fyrir 2020. Það er bara ekki komin almennileg mynd á hvað þetta þýðir allt saman,” segir Svava.

Merkin vekja athygli

Markaðsátak Boozt er mjög kröftugt líkt og landsmenn hafa eflaust orðið varir við. Svava segir það líka hafa aukið athygli á merki sem hún selur í verslunum sínum. „Við finnum alveg að fólk er að koma með skjáskot af Boozt inn til okkar og versla. Þeir hafa eytt miklum fjármunum í markaðsstarf hér á landi en ef þeir selja fyrir milljarð og þetta er nýr peningur, þá skil ég þá ákvörðun þeirra mjög vel.”

Svava hefur verið í bransanum í tugi ára.

Svava er ekki að stíga sín fyrstu skref í verslunarrekstri, líkt og alþjóð veit. Hún segir það oft hafa gerst á sínum ferli að nýir, erlendir risar komi inn og sérstaklega fyrst um sinn, bjóði þeir lægri verð. „Til dæmis gerði Zara þetta þegar þeir komu til landsins. Buðu lægri verð á mörgum vörutegundum um hríð og svo hækkuðu þeir verðin þegar leið á. Það er ekkert launungamál að Boozt eru að bjóða tilboð á ýmsum vörum en hversu lengi þeir halda það út, skal ég ekki segja til um.” 

Auðvitað sé ódýrara að halda úti verslun þar sem hvorki þarf að borga leigu á verslunarhúsnæði né laun til starfsfólks þar, en lager Boozt í Svíþjóð er að mestu rekinn á róbótum.

Verslunin er að þróast

Sjálf fylgist hún vel með því hvernig verslun er að þróast. „Hefðbundnar verslanir í öllum borgum eru að bregðast við netverslun. Búðir eru að verða miklu skemmtilegri, verslunareigendur eru farnir að vinna mikið með lyktir, með að búa til ákveðinn heim þegar þú gengur inn í búðirnar. Borgir úti í heimi eru líka að vinna með verslunum, útbúa ýmis torg og skemmtileg svæði í kringum verslanir þar sem fólk getur fengið skjól frá veðri og vindum og haft það dálítið gott,” segir Svava og vísar í nýlega ferð sína til London þar sem Covent Garden hverfið var komið í jólabúning og fjöldi sæta komið fyrir um allt þar sem gangandi vegfarendur gátu tyllt sér og notið kakóbolla í vetrarstemningu.

„Við munum auðvitað bara halda áfram að reyna að búa til upplifun inn í okkar verslunum, veita súper þjónustu, persónulega nálgun, fá enn fleira fólk inn í vinsæla NTC-klúbbinn þar sem það fær vildarkjör, hafa góða tónlist og bjóða upp á gott kaffi eða freyðivín eftir stemningu. Búa til stemningu. Ég er til dæmis að hanna nýjar lyktir inn í búðirnar akkúrat um þessar mundir. Þess vegna var ég nú í London, meðal annars,” segir Svava og talar af mikilli ástríðu.

En sér hún fyrir sér að netverslun muni mögulega verða til þess að vöruúrvalið í verslunum hennar breytist? Maður ímyndar sér til að mynda að fólk sé reiðubúnara að versla sér dýrari vörur á staðnum heldur en á netinu.

Svava útilokar ekki að vöruúrvalið kunni að breytast. „Ég prófaði að kaupa mér Ganni skó á netinu áður en við fengum merkið til okkar. Aðallega því ég var svo spennt að prófa. Ég fékk of litla skó og einhvernveginn kláraði aldrei að skila þeim. Ég var með 40-50 þúsund króna skó sem ég bara sat uppi með og endaði á að gefa.

En svo kannski áttu strigaskó sem eru orðnir lúnir og þig langar í aðra eins eða annan lit, þá skil ég vel þægindin í því að ná í þá á netinu og láta senda þetta. Yngri kynslóðir en mín eru svo vanar að vera á netinu og við þurfum líka að vera með í þeirri þróun. Ég hef samt persónulega meira gaman af hefðbundinni verslun. Ég vil að fólk komi inn, fái þessu mannlegu samskipti, eigi í nærandi samtali jafnvel og gleðilegu sem er gott fyrir sálina og hjartað. Jafnvel smá retail therapy,” segir Svava og hlær.

Spennt fyrir framhaldinu

Hún segist ekki stressuð heldur spennt fyrir framhaldinu. Hún hafi þegar farið í gegnum ansi margt á sínum ferli. „Það eina sem ég vona að fólk átti sig á er að ef nógu margir kjósa að eiga viðskipti innanlands þá hefur það mjög þýðingarmikil áhrif á allt efnahagskerfið. Það tryggir lífskjör okkar, ver störf og eflir alla atvinnustarfsemi í landinu.

Ég held að þróunin sé óneitanlega sú að eftir tuttugu ár muni þetta fólk sem er mjög vant að versla á netinu versla ennþá meira þar, en svo veit maður aldrei. Það getur eitthvað nýtt komið inn í myndina sem við sjáum ekkert fyrir. Það kemur alltaf eitthvað nýtt. Ég nefni bara lítið dæmi með bréfpokana sem eru komnir í allar matvöruverslanir núna. Þegar ég var að alast upp voru afi og amma alltaf með svona bréfpoka í sinni verslun og nú erum við komin aftur þangað. Svo um daginn heyrði ég umræðu um að við yrðum að fara að hætta með þá því það sé verið að höggva alltof mörg tré,” útskýrir hún, létt í bragði.

„En ég er bjartsýn að eðlisfari og finnst gaman að finna leiðir. Ef eitthvað þrengir að, þá vakna ég.”

En þú ræðir um borgina, hvað finnst þér að megi fara betur þar?

„Ég er alltaf reiðubúin að taka þátt í nýjum verkefnum með borginni, en mér finnst almennt vanta upp á sveigjanleikann hjá borginni. Það er dálítið eins og að snúa olíuskipi að fá hluti í gegn þar. Mér finnst að það eigi að gera meira fyrir Laugaveginn til dæmis og að það megi aðeins tengja Hafnartorgið betur saman,” segir Svava en hún rekur verslanir á báðum stöðum. Hins vegar finnist henni umræða um bílastæðaleysi í miðbænum ekki eiga rétt á sér. Bílastæðakjallarar séu mjög víða í bænum og stutt að ganga í flesta verslun og þjónustu þaðan.

„Bílastæðahúsið við Hafnartorg er til að mynda æðislegt. Þar eru 1100 bílastæði og frekar breið og góð stæði sem skiptir miklu máli þar sem bílarnir eru mun stærri nú en áður. Það er opið i gegn frá Hörpu yfir í Hafnarhúsið - það eru ekki allir sem átta sig á því.”

Andlitslyfting víða

Hún ræðir um Laugaveginn sem göngugötu sem henni finnst að mörgu leyti æðisleg „Það getur verið ótrúlega gaman, þá aðallega yfir sumartímann. Það væri enn betra að geta opnað og lokað göngugötunni eftir veðri. Önnur hugmynd væri svo að byggja yfir hluta Laugavegarins, til dæmis gangstéttir, með markísum úr plexigleri svo íbúar á efri hæðum gætu ennþá horft í gegn. Þá gætu verslanir og veitingastaðir haft hitara og fólk labbað þó það sé kalt og það er bara mjög ánægjulegt. Þá væri til dæmis hægt að setja stóla út og hafa huggulegt. Mér finnst í þessu samhengi æðislegt að sjá ný og fersk andlit, eins og Hildi Björnsdóttur, sem ætlar nú að bjóða sig fram til forystu í borginni. Það er nauðsynlegt að hleypa ungu og hugmyndaríku fólki að.”

Hafnartorgið þurfi líka smávægilega andlitslyftingu. „Hafnartorgið er að heppnast mjög vel heilt yfir, það þyrfti svo lítið til þess að ná að tengja verslanir og þjónustu aðeins betur saman - allt frá Hörpu, til Edition og svo til okkar í GK. Sniðugar lausnir til að draga til dæmis úr miklum vindstreng sem fer í gegnum hluta Hafnartorgsins.”

Saknar samtals við borgarstjóra

Hún segist sakna almennilegs samtals við borgaryfirvöld. „Mér finnst að það mætti vera meira samtal við okkur atvinnurekendur í borginni. Að borgarstjóri passi dálítið upp á sína bestu leikmenn. Kalli okkur til sín og spyrji, hvað get ég gert fyrir ykkur? Þið eruð að gera svo fínt fyrir borgina!” segir Svava og bætir við að lokum.

„Það er bara eitt sem ég þoli ekki við miðbæinn og það er að akstursstefnunni á Laugaveginum hafi verið breytt. Ef er keyrt niður Laugaveginn, á það bara að vera ein leið!” segir Svava og vísar þar til þess þegar borgaryfirvöld hleyptu umferð í öfuga átt upp Laugaveginn, frá Klapparstíg að Frakkastíg. „Ég keyri daglega um miðborgina og er rétt byrjuð að átta mig á þessu. Þetta er algjört óþarfa flækjustig og í raun hættulegt þar sem fólk áttar sig ekki á þessu og gengur beint út á götu en lítur í ranga átt."


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×