Innherji

Advania mun velta 150 milljörðum eftir yfirtöku á bresku skýjaþjónustufélagi

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Advania teygir anga sína um öll Norðurlönd. 
Advania teygir anga sína um öll Norðurlönd.  Mynd/Advania

Advania hefur náð samkomulagi um kaup á breska upplýsingatæknifélaginu Content+Cloud af framtakssjóðnum ECI Partnes og öðrum hluthöfum en um er að ræða fyrstu yfirtöku Advania á félagi utan Norðurlanda.

„Það er ekki markmið í sjálfu sér að stækka heldur að verða betri,“ segir Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi, í samtali við Innherja.

Sameinað félag mun velta yfir 150 milljörðum íslenskra króna og vera með 3500 starfsmenn á sínum snærum.

„En í þessum bransa verða kröfurnar sífellt flóknari og þú nærð ekki að uppfylla þær öðruvísi en með stærðinni, þú þarft að hafa bæði breiddina og dýptina.“

Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi.Advania

Content+Cloud, sem er með 800 manns á launaskrá og ársveltu upp á 18 milljarða króna, er stærsti sjálfstæði þjónustuaðili Microsoft í Bretlandi.

Með kaupunum er horft til þess að sérþekking C+C af skýjaþjónustum Microsoft efli Advania verulega og geri félaginu kleift að styðja viðskiptavinavini sína enn betur á stafrænni vegferð.

„Þú kemst ekki auðveldlega inn á breska markaðinn nema með því að kaupa fyrirtæki sem er búið að koma sér fyrir á markaðinum,“ segir Ægir Már.

„Það er líka gríðarlega spennandi fyrir okkur á Íslandi að geta sótt þekkingu til þeirra enda hefur Content+Cloud verið að gera frábæra hluti í skýjalausnum. Núna höfum við stærri hóp til að þjóna okkar viðskiptavinum.“

Þetta er önnur yfirtaka Advania á þessu ári en í ágúst voru fest kaup á norska upplýsingatæknifélaginu Visolit. Þá fjölgaði starfsmönnum samsteypunnar um 1.200.

„Við getum verið með þúsundir starfsmanna en litla yfirbyggingu vegna þess að við erum að keyra á dreifstýrðu módeli sem gengur út á að vera nálægt viðskiptavinum okkar,“ segir Ægir Már.

„Í hverju landi er stjórnendateymi sem stýrir rekstrinum út frá því hvað er að gerast á hverjum markaði fyrir sig. Þannig náum við árangri.“

Sjóður í eigu fjárfestingabankans Goldman Sachs, ásamt danska fjárfestingasjóðnum VIA Equity keyptu meirihluta hlutafjár í Advania snemma á þessu ári. Goldman Sachs sjóðurinn verður áfram meirihlutaeigandi Advania-samsteypunnar eftir viðskiptin en búist er við að þau verði frágengin áður en árið er liði.

Innan raða sameinaðs félags eru tíu einstaklingar sem valdir hafa verið af Microsoft sem „Most Valuable Professional“ en það er til marks um yfirgripsmikla þekkingu á Microsoft lausnum.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×