Innherji

Fjármálastöðugleikanefnd segir kerfisáhættu halda áfram að vaxa

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Rannveig Sigurðardóttir og Ásgeir Jónsson eiga bæði sæti í fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans.
Rannveig Sigurðardóttir og Ásgeir Jónsson eiga bæði sæti í fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans. Vísir/Vilhelm

Kerfisáhætta heldur áfram að vaxa vegna hækkandi íbúðaverðs og aukningu í skuldum heimila. Þetta kemur fram í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar sem segir jafnframt að staða fjármálastöðugleika sé góð þegar á heildina er litið en óvissa vegna faraldursins sé enn nokkur.

Tólf mánaða raunvöxtur skulda heimilanna var 6,5 prósent í lok september samkvæmt því sem kemur fram í minnisblaði sem nefndin birti samhliða yfirlýsingunni.

„Hagstæð vaxtakjör drífa enn eftirspurn eftir nýjum fasteignalánum en dregið hefur úr endurfjármögnun eldri lána. Greiðslubyrðarhlutföll hafa hliðrast í átt að aukinni áhættu síðustu misseri samhliða hratt hækkandi fasteignaverði og vaxtahækkunum, sérstaklega hjá fyrstu kaupendum. Veðsetningarhlutföll fyrstu kaupenda hafa einnig hækkað,“ segir í minnisblaðinu.

Fjármálastöðugleikanefnd herti í júlí reglur um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda og setti í september reglur um hámark greiðslubyrðarhlutfalls sem tóku gildi í byrjun desember.

„Hækkun íbúðaverðs umfram ákvarðandi þætti bendir til vaxandi ójafnvægis á íbúðamarkaði og vaxandi kerfisáhættu,“ segir í minnisblaðinu.

„Búast má við því að þessar aðgerðir, auk vaxtahækkana, muni hægja á eftirspurn á íbúðamarkaði. Framboð íbúðarhúsnæðis er þó af skornum skammti og óljóst hvenær jafnvægi muni nást á markaðnum.“

Fjármálastöðugleikanefnd.

Nefndin ákvað í ársfjórðungslegu endurmati á sveiflujöfnunaraukanum að halda gildi aukans óbreyttu. Ákvörðun nefndarinnar frá september um að hækka aukann úr 0 prósentum í 2 prósent mun taka gildi í lok september árið 2022.

Fjármálastöðugleikanefnd bendir á að eiginfjárhlutföll bankanna séu á bilinu 6-7 prósentum fyrir ofan þá lágmarks eiginfjárkröfu sem Seðlabankinn gerir. Bankarnir hafi því „gott svigrúm til að mæta hækkun sveiflujöfnunaraukans“ í 2 prósent. Nefndin skoðar hvert hlutlaust gildi sveiflujöfnunaraukans verði til framtíðar.

Þá ítrekar nefndin að hugað verði að rekstraröryggi greiðslukerfa og minnir rekstraraðila á mikilvægi þess að tryggja rekstrarsamfellu. „Brýnt er að áfram verði unnið að innleiðingu á óháðri innlendri smágreiðslulausn án tengingar við alþjóðlega kortainnviði.“


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×