Innherji

Kvikmyndamiðstöð þvertekur fyrir að ætla sér í samkeppni við einkareknar streymisveitur

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Laufey Guðjónsdóttir er forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.
Laufey Guðjónsdóttir er forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Fulltrúi Kvikmyndamiðstöðvar Íslands segir misskilnings gæta í umræðunni um uppbyggingu streymisveitu á vegum ríkisins sem fulltrúar fjarskiptafyrirtækja hafa gagnrýnt undanfarna daga. 

Komið hefur fram að um sé að ræða 510 milljón króna fjárveitingu til uppbyggingar streymisveitunnar sem ríkið hyggst halda úti. Guðrún Helga Jónasdóttir, verkefnastjóri hjá Kvikmyndamiðstöð, segir það einfaldlega ekki rétt heldur sé veitan aðkeypt lausn sem muni kosta innan við fimm milljónir króna á ári. Ríkið ætli sér ekki í samkeppni við einkareknar streymisveitur. 

Umræddar 510 milljónir úr ríkissjóði séu heildarviðbótarframlag til Kvikmyndamiðstöðvar vegna Kvikmyndastefnu til ársins 2030. Ljóst sé að stór hluti þess fari til Kvikmyndasjóðs til framleiðslu á íslensku efni fyrir kvikmyndahús og sjónvarp. 

Í samtali við Innherja í gær sagði Magnús Árnason, framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá Nova, að ekki væri ráðlegt að ríkið byggi upp eigin streymisveitu. Um væri að ræða óþarfa fjárfestingu af hálfu ríkisins. Innlendar streymisveitur gætu tekið að sér að dreifa íslenskum kvikmyndum og þáttaröðum, þær séu nú þegar til staðar og ríkið þyrfti að eyða miklu púðri í að halda streymisveitunni í takt við tímann. Guðrún tekur undir þessi orð.

„Við erum sammála talsmanni Nova um að það sé ekki ráðlegt að byggja upp eigin veitu. Stofnkostnaðurinn yrði mjög hár auk þess kostnaðar sem myndi falla til við viðhald og rekstur,” segir Guðrún Helga.

Ríkisveitan eingöngu hugsuð fyrir efni sem er ekki aðgengilegt annars staðar

„Strax á frumstigum við undirbúning veitunnar átti Kvikmyndamiðstöð samtöl við fulltrúa þeirra sem reka efnisveitur í dag. Þeim var skýrt frá þeim markmiðum stefnunnar sem lúta að aðgengi að íslenskum kvikmyndaarfi. Einnig var undirstrikað að ríkisstofnun ætlaði ekki í samkeppni við einkaaðila sem sinna þessu verkefni vel,” útskýrir hún.

Meginmarkmið streymisveitunnar sé tvíþætt. Annarsvegar að veita almenningi á Íslandi aðgengi að eldra efni, sem ekki er aðgengilegt á íslensku miðlunum nú þegar og hins vegar að bjóða upp á aðgengi að íslenskum kvikmyndaverkum.

„Innlenda veitan er aðeins hugsuð fyrir það efni sem er ekki aðgengilegt á veitum hérlendis, til dæmis eldri myndir, heimildamyndir og stuttmyndir, en okkur reiknast til að nú séu um 70 kvikmyndaverk aðgengileg á íslenskum efnisveitum, sem er einungis brot af því sem framleitt hefur verið hér á landi.”

Uppbyggingin verði þannig að á sérstökum kvikmyndavef, sem sjá má sýnishorn af hér að neðan, verði hnappur sem vísar áhugasömum á þá veitu þar sem viðkomandi mynd er aðgengileg. „Þar koma Síminn, Vodafone, RÚV – eða Nova til greina. Ef myndin er ekki aðgengileg á neinum þessara, er áhorfanda beint á möguleika á streymi gegn gjaldi. Rétthafi fær greiðsluna fyrir utan beinan tækni- og greiðslumiðlunarkostnað við hverja leigu,” segir hún.

Sama eigi við erlenda hluta veitunnar. „Þannig getur áhugasamur til dæmis í Þýskalandi slegið inn myndatitil á vef Kvikmyndamiðstöðvar, og ef hún hefur verið seld í dreifingu þar í landi, er beint á þarlenda rétthafa; ef ekki, þá á hina nýju veitu.”

Sýnishorn af veitunni sem Kvikmyndamiðstöð kemur til með að halda úti. Framsetning veitunnar er þó enn í vinnslu.

Að sögn Guðrúnar fundaði Kvikmyndamiðstöð með fulltrúum fyrirtækja á þessum markaði í vor og óskaði eftir samstarfi. „Vegna þess að íslensku veiturnar og RÚV hafa ekki þróað tækni eða greiðslumódel sem gagnast erlendis frá var farin sú leið, eftir þó nokkra skoðun, að kaupa tilbúna lausn sem fjölmargar erlendar kvikmyndastofnanir nýta sér nú þegar. Með þeim samningi er innfalin tækniaðstoð þeirra sem leigja mynd,” útskýrir hún.

Rammasamingur þessi sé innan við 5 milljón krónur á ári og muni þegar fram í sækir einnig gagnast Kvikmyndamiðstöð í daglegu starfi við að miðla sýniseintökum gagnvart erlendum kvikmyndahátíðum og öðrum fagaðilum.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×