Frítíminn

Dagur í lífi Hildar Björnsdóttur: Fjölbreyttum dögum lýkur með því að svæfa útsmogin börn

Ritstjórn Innherja skrifar

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi lifir fjölbreyttu lífi stjórnmálamannsins. Hún er einstaklega matsár og tekur engar áhættur með hádegismatinn. Hún leyfir kvöldsvæfum unnusta sínum alltaf að velja sjónvarpsefnið, því hann sofnar eftir þrjár mínútur og hún tekur þá yfir dagskrárvaldið.

07.00 Ég vakna yfirleitt um sjöleytið en mér hættir til að slökkva á vekjaraklukkunni og reyna að ræna auka korteri. Fyrsta verk er að kveikja á kaffivélinni áður en ég stekk í þá djúpu laug að ræsa börnin. Mín afkvæmi eru engir sérstakir morgunhanar svo þetta getur reynst vandasamt verk. Ég hleypi hundinum út, græja morgunmat og nesti fyrir krakkana, greiði hárið á dætrum mínum og passa að allir séu með skólabækur, sundföt og hvaðeina nauðsynlegt meðferðis.

8.20 Um þetta leyti eru börnin farin úr húsi og ég almennt enn á náttsloppnum. Ég geng frá morgunmatnum og drekk dreggjarnar af kaffinu sem er yfirleitt orðið volgt þegar ég get loks drukkið það. Þá daga sem vinnudagurinn nær fyrirsjáanlega fram á kvöld reyni ég að taka æfingu á þessum tíma, annað hvort stutt útihlaup eða æfingu á Granda101. 

Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins
Annars er ég fljót að koma mér úr húsi - nenni almennt hvorki að greiða mér né mála mig. Set á mig bleikan kinnalit eins og fjörgömul kona, kannski hyljara ef ástandið er slæmt en læt annars gott heita og þýt af stað.

9.00 Vinnudagurinn hefst almennt um níu leytið. Lykilatriði að hefja hann á kaffibolla. Dagar í lífi borgarfulltrúa eru mjög fjölbreyttir. Þeir geta samanstaðið af tólf klukkustunda semfelldri fundarsetu eða sífelldum þeytingi um borgina. Starfið er sveigjanlegt og maður hefur heilmikið frjálsræði um ráðstöfun tíma.

12.00 Hádegismatinn nýti ég oft til að hitta fólk, taka fundi eða jafnvel ná gæðastundum með manninum mínum. Stundum fer ég heim og tek hundinn í stutta göngu. Þá gríp ég mér almennt flatköku með svívirðilegu magni af hnetusmjöri. Mitt starf fer að miklu leyti fram í miðborginni svo ég sæki hádegisverðinn líka oft þangað. 

Hádegismatur borgarfulltrúa á Spírunni í Breiðholti. Jórunn Pála Jónasdóttir og Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir.
Ég er sérlega matsár einstaklingur og ekki reiðubúin að taka neinar stórkostlegar áhættur. Fiskur dagsins á Duck & Rose hefur því verið algengur og traustur valkostur þessa dagana. Súpa og salat á Coocoo’s Nest er líka ákveðið uppáhald.

16.30 Um þetta leyti lokar leikskóli dóttur minnar, enda búið að skerða opnunartíma leikskólanna í Reykjavík. Fjölskyldumeðlimir tínast heim, einn af öðrum, og við tekur hinn alræmdi úlfatími, eða það sem við köllum brimrótið. Flesta daga þarf að skutla í tómstundir, alla daga þarf að sinna heimanámi barna og heimilisstörfum. Stundum reynir maður að koma inn stuttum hlaupatúr með hundinn. Líf og fjör einkennir þennan tíma og aldrei leiðinlegt.

Jón, unnusti HIldar og börnin.

18.30 Við reynum að borða sæmilega snemma, þó það lukkist misjafnlega vel. Við foreldrarnir borðum ekki kjöt svo á matseðlinum eru oftast grænmetisréttir eða fiskur. Á virkum dögum vinnum við almennt með einfaldan mat en flækjum málin frekar um helgar. Það vinsælasta hjá krökkunum er svokallað TikTok pasta eða grjónagrautur. Mitt uppáhald er chili sin carne eða föstudagspizzan.

TikTok pasta er í uppáhaldi

20.00 Við gerum heiðarlega tilraun til að koma yngri börnunum í rúmið um átta leytið. Það gengur misvel enda útsmogin börn sem beita ýmsum klækjum til að lengja vökustundirnar. Þegar þau sofna gefst tími til að klára vinnudaginn, ræða atburði dagsins, lesa eða gleyma sér yfir sjónvarpinu. 

Ég leyfi kvöldsvæfa manninum mínum alltaf að velja sjónvarpsefnið því hann vakir sjaldnast lengur en þrjár mínútur. Þá get ég valið eftir eigin smekk og áhuga. Ákveðin klókindi af minni hálfu, það verður að segjast.

22.00 Ég hef lengst af verið óttaleg náttugla en síðustu mánuði hef ég lagt áherslu á að fara snemma í rúmið. Ég gæti kannski skrökvað því að ykkur að um tíuleytið legði ég ilmolíur fyrir vitin, kveikti á hljómfagurri klassískri tónlist og læsi fagurbókmenntir á satínkoddaveri – en almennt er ég nú bara að horfa á heilalaust sjónarpsefni eða fara yfir helstu fréttir og viðburði dagsins á miðlum og samfélagsmiðlum, áður en ég lognast út af, almennt fyrir miðnætti.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×