Umræðan

Nú þarf að greikka sporið

Kristrún Frostadóttir skrifar

Það er gífurlega ánægjulegt að við stöndum eftir allt saman á sterkum grunni. Ríkissjóður hefur þurft að taka minna að láni en áður var talið þurfa til að eiga við náttúruhamfarir.

Skuldir ríkissjóðs verða um 40 prósent af landsframleiðslu á þessu kjörtímabili miðað við núverandi áætlun ríkisstjórnarinnar. Til samanburðar má benda á að skuldir hins opinbera í Þýskalandi – samtala ríkissjóðs og sveitarfélaga – voru 40 prósent af landsframleiðslu áður en kórónakreppan skall á 2019.

Þetta samhengi skiptir máli. Því nú eru engar afsakanir til að sækja ekki fram. Það er ekki ástæða til að ala á ótta fólks. 

Það eru gríðarleg tækifæri til sóknar. En ekkert gerist í tómarúmi. 

„Einstaklingar móta söguna, sagan ekki þá,“ segir í lauslegri þýðingu á orðum Harry S. Truman, fyrrum forseta Bandaríkjanna. „Á tímum þar sem enginn leiðir, situr samfélagið fast. Framfarir eiga sér stað þegar hugrakkir, hæfir leiðtogar grípa tækifærið til að breyta í betri átt.“ 

Hér er þó enginn að leiða, þrátt fyrir augljós tækifæri.

Það læðist að manni sá grunur að ríkisstjórn sem er mynduð að því virðist um ekki neitt nema að stjórna sé ófær um að sækja fram þegar á reynir. Umfang aðgerða ríkissjóðs á síðustu tveimur árum endurspegla nauðsynleg viðbrögð – ekki stefnu eða sókn. Þetta hafa verið viðbragðsstjórnmál. En nú átti að slá annan tón fyrir næstu fjögur ár. Stærstu áskoranir okkar tíma voru nefndar í stjórnarsáttmálanum, sóknarhugur ofarlega í huga fólks. Ríkisstjórn 21. aldarinnar átti þetta að vera, sem krafðist uppstokkunnar á sem flestum ráðuneytum til að ráða við umræddar áskoranir.

Svo birtast fjárlögin. Plagg sem ákvarðar fjárheimildir fyrir fjórðung af kjörtímabili 21. aldar ríkisstjórnarinnar. Í ljós kemur að ef undanskilin er sú mikilvæga staðreynd að hagkerfið hefur tekið hraðar við sér en við var búist, sem dregur úr lántökuþörf ríkissjóðs, hefur nær ekkert breyst. 

Því er beinlínis haldið á lofti í greinargerð með frumvarpinu að meginviðmiðið við vinnslu fjárlaganna hafi verið að efna ekki „til annarra teljandi nýrra eða aukinna útgjalda en þeirra sem tengjast aðstæðum af völdum kórónuveirufaraldursins.“

Ríkisstjórnin ber fyrir sig að verðbólguhættan haldi aftur af svigrúmi ríkissjóðs til að fylgja eftir sínum sóknarloforðum frá því um helgina. Þessar yfirlýsingar endurspegla viðhorf ríkisstjórnarinnar til eigin hlutverks og ríkisins. 

Þau eru eins konar áhorfandi, þar sem aðrir ráða för og setja þeim skorður. Markaðir falla af himnum ofan og verðbólgan er aðeins hindrun, ekki ástæða til að endurskoða grunnþætti í efnahagsstjórn landsins. 

Stjórn 21. aldarinnar breytist á nokkrum dögum aftur í viðbragðsstjórnina, smáskrefastjórnina og skellir í lás við fyrsta tækifæri. Bakkar, í stað þess að vera virkur þátttakandi í að bæta umhverfið sem það starfar í.

Verðbólgan er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, ekki bara Seðlabankans. Þeir markaðir sem hér allt umlykja eru mótaðir af löggjafanum. Hér fellur ekki neitt af himnum ofan. Það er hægt að komast á undan vandanum ef vilji er fyrir því – en þetta á viðbragðsstjórnin erfitt með. 

Helsti drifkraftur verðbólgu í dag er íbúðaverðshækkanir. Gífurlegir markaðsbrestir einkenna íbúðamarkaðinn, þar sem misvægi í fjármagni á kaup- og byggingarhliðinni er of mikið og sveiflurnar miklar.

Ríkisstjórn 21. aldarinnar myndi mæta þessari áskorun sem uppi er á fasteignamarkaði, og þrýstir í dag á launakröfur, með myndarbrag. Stjórnmálamenn með sýn myndu bregðast við verðbólguþrýstingnum með virkum aðgerðum á húsnæðismarkaði. Skapa þannig svigrúm fyrir sóknaraðgerðirnar. Ekki hörfa eftir tveggja daga stjórnarsamstarf.

En hér skilja leiðir. Milli þeirra sem sjá stjórnmál og ríkissjóð sem hlutlausan aðila sem grípur fólk og fyrirtæki þegar þau falla, og þeirra sem skilja að sönn stjórnmál snúast um að móta markaðina að breyttum þörfum samfélagsins og að beita ríkissjóði með virkum hætti til að efla almenning og einkageirann. 

Smáskrefastjórnin þarf nú að greikka sporið og ekki bara til að verjast. Það gerist ekkert að sjálfu sér.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×