Innherji

Mikil uppstokkun meðal aðstoðarmanna ríkisstjórnarinnar

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Ríkisráðsfundur á Bessastöðum í byrjun viku. Miklar breytingar verða á aðstoðarmannaliði ráðherranna.
Ríkisráðsfundur á Bessastöðum í byrjun viku. Miklar breytingar verða á aðstoðarmannaliði ráðherranna.

Það eru fleiri en ráðherrar sem hafa stólaskipti þessa dagana. Aðstoðarmenn ráðherra eru einnig margir að takast á við ný verkefni í nýjum ráðuneytum og þónokkrir hverfa á braut. Sumir sitja áfram í sama ráðuneyti, jafnvel þótt skipt hafi verið um ráðherra.

Þá eru þrír aðstoðarmenn síðustu ríkisstjórnar komnir inn á þing og einn tók við starfi Árna Páls Árnassonar í Brussel. Innherji greindi svo frá því í morgun að Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokks, myndi taka við starfi aðstoðarmanns Jóns Gunnarssonar í innanríkisráðuneytinu.

Eftirsóttir stólar aðstoðarmanna

Ljóst er að mikil eftirsókn er eftir starfi aðstoðarmanns ráðherra og því er við því að búast að óformlegar starfsumsóknir streymi inn til ráðherranna um þessar mundir. Þónokkur stöðugildi eru enn á lausu. Ekkert segir að starf aðstoðarmanns þurfi að auglýsa, þar sem lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eiga ekki við um ráðningu þeirra.

Aðstoðarmönnum hefur fjölgað talsvert undanfarin ár. Hverjum ráðherra er heimilt að ráða sér tvo. Auk þess er heimild fyrir því í lögum að ráða aðstoðarmenn aukalega til ríkisstjórnarinnar sjálfrar.

Hildur, Diljá og Orri voru öll kosin á þing en voru aðstoðarmenn ráðherra á síðasta kjörtímabili.

Hildur Sverrisdóttir, sem var aðstoðarmaður í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, var kjörin á þing í september auk Diljár Mistar Einarsdóttur, sem gegndi starfi aðstoðarmanns utanríkisráðherra á síðasta kjörtímabili. Orri Páll Jóhannsson, aðstoðarmaður Guðmundar Inga Guðbrandssonar, var einnig kjörinn á þing. Borgar Þór Einarsson, sem var hinn aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í utanríkisráðuneytinu, tekur við stöðu varaframkvæmdastjóra Uppbyggingarsjóðs EES í Brussel nú um áramótin.

Gunnar Atli Gunnarsson og Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir hverfa til annarra starfa, en þau aðstoðuðu Kristján Þór Júlíusson á liðnu kjörtímabili sem ákvað að láta gott heita eftir langan feril í stjórnmálum og gaf ekki kost á sér til endurkjörs.

Eydís Arna Líndal aðstoðar Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur áfram í vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu en hinn aðstoðarmaður hennar á síðasta kjörtímabili Hreinn Loftsson varð eftir í dómsmálunum. Hann kemur til með að aðstoða arftaka Áslaugar Örnu, Jón Gunnarsson í innanríkisráðuneytinu.

Ólafur Teitur og Hrannar hverfa til annarra starfa

Milla Ósk Magnúsdóttir heldur áfram hjá Lilju Alfreðsdóttur. Hrannar Pétursson fyrrverandi aðstoðarmaður Lilju hverfur hins vegar til annarra starfa og það gerir Ólafur Teitur Guðnason líka sem hefur aðstoðað Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur undanfarin ár.

Katrín Jakobsdóttir segir til skoðunar hvort aðstoðarmannalið hennar haldist óbreytt frá síðasta kjörtímabili.

Katrín Jakobsdóttir segir í svari til Innherja að það sé til skoðunar hvort aðstoðarmannaliðið haldist óbreytt. Aðstoðarmenn Katrínar Jakobsdóttir voru á síðasta kjörtímabili Lísa Kristjánsdóttir og Bergþóra Benediktsdóttir. 

Þá voru sérstakir aðstoðarmenn ríkisstjórnarinnar ráðnir. Önnur var Henný Hinz, fyrrverandi aðalhagfræðingur ASÍ, sem aðstoðaði á sviði vinnumarkaðs-, efnahags- og loftslagsmála. Lára Björg Björnsdóttir var svo aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum.

Willum Þór Þórsson, sem er nýr í ráðherraliðinu, hefur ekki gert upp við sig hverjir koma til með að aðstoða hann.

Aðstoðarmannalið Bjarna Benediktssonar, Sigurðar Inga Jóhannssonar og Ásmundar Einars Daðasonar helst óbreytt. Aðstoðarmenn Bjarna eru Hersir Aron Ólafsson og Páll Ásgeir Guðmundsson. Sigurð Inga aðstoða Ingveldur Sæmundsdóttir og Sigtryggur Magnason og aðstoðarmenn Ásmundar Einars eru Sóley Ragnarsdóttir og Arnar Þór Sævarsson.

Ekki náðist í Svandísi við vinnslu fréttarinnar en aðstoðarmenn hennar voru Birgir Jakobsson fyrrverandi landlæknir og Iðunn Garðarsdóttir á síðasta kjörtímabili.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×