Körfubolti

Kafla­skiptur leikur er Fjölnir sótti sigur í Kefla­vík

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dagný Lísa Davíðsdóttir átti frábæran leik í liði Fjölnis í kvöld.
Dagný Lísa Davíðsdóttir átti frábæran leik í liði Fjölnis í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Keflavík tók á móti Fjölni í hörkuleik í Subway-deild kvenna í körfubolta í kvöld, lokatölur 95-90 gestunum í vil.

Leikur kvöldsins var frábær skemmtun og mikið skorað. Gestirnir úr Grafarvogi byrjuðu leikinn betur og röðuðu niður hverri körfunni á fætur annarri í fyrsta leikhluta með lítið gekk upp sóknarlega hjá heimakonum, staðan 10-20 og Keflavík með bakið upp við vegg.

Þó sóknarleikur Fjölnis hafi einnig verið mjög öflugur í öðrum leikhluta fóru Keflvíkingar gjörsamlega á kostum og settu niður 30 stig gegn 24 hjá gestunum, staðan 40-44 í hálfleik.

Svo virðist sem heimakonur hafi verið smástund að finna taktinn að nýju í síðari hálfleik en aftur vann Fjölnir með tíu stiga mun og staðan því 57-71 fyrir síðasta fjórðunginn. Aftur hrökk Keflavíkur sóknin í gang og var leikurinn orðinn æsispennandi er skammt var til leiksloka.

Gestirnir náðu þó að hanga á forystunni og unnu að lokum fimm stiga sigur, lokatölur 90-95.

Dagný Lísa Davíðsdóttir var frábær í liði Fjölnis með 30 stig ásamt því að taka 13 fráköst. Aliyah Daija Mazyck og Sanja Orozovic komu þar á eftir með 24 stig hvor. Daniela Wallen Morillo skoraði 29 stig í liði Keflavíkur ásamt því að taka 12 fráköst.

Með sigrinum lyftir Fjölnir sér upp í 2. sæti deildarinnar með 14 stig líkt og Njarðvík sem trónir á toppnum og Valur sem situr í 3. sætinu.

Sanja Orozovic var öflug í kvöld.Vísir/Hulda Margrét



Fleiri fréttir

Sjá meira


×