Körfubolti

Sigurganga Suns heldur áfram

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Devin Booker átti flottan leik er Phoenix Suns vann sinn sextánda leik í röð í nótt.
Devin Booker átti flottan leik er Phoenix Suns vann sinn sextánda leik í röð í nótt. AP Photo/Ross D. Franklin

Phoenix Suns heldur sigurgöngu sinni áfram í NBA-deildinni í körfubolta, en liðið vann sinn sextánda leik í röð í nótt er liðið mætti Brooklyn Nets.

Phoenix Suns hafði forystuna allt frá fyrstu mínútu, en þegar flautað var til hálfleiks var staðan 56-46, Suns í vil.

Liðið náði afgerandi forystu í þriðja leikhluta og þrátt fyrir að Brooklyn hafi haft betur með tólf stigum í lokaleikhlutanum kom það ekki að sök og Suns vann að lokum sex stiga sigur, 113-107.

Devin Booker var stigahæstur í liði Suns með 30 stig, en Kevin Durant fór mikinn í liði Brooklyn með 39 stig, níu fráköst og sjö stoðsendingar.

Þá vann lið Minnesota Timbervolwes nauman eins stigs sigur gegn Philadelphia 76ers í tvíframlengdum leik, 121-120.

Að loknum fyrri hálfleik höfðu liðsmenn Minnesota 15 stiga forskot, en góður þriðji leikhluti skilaði 76ers aftur inn í leikinn.

Bæði lið settu niður 13 stig í framlengingunni og því þurfti að framlengja á ný til að skera úr um sigurvegara.

Þar högðu liðsmenn Minnesota betur og unnu að lokum nauman sigur, 121-120. D'Angelo Russell var stigahæstur í liði Minnesota með 35 stig, ásamt því að taka fjögur fráköst og gefa átta stoðsendingar. Joel Embiid gerði sitt besta til að vinna leikinn í liði 76ers og skoraði 42 stig, tók 14 fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.

Úrslit næturinnar

Minnesota Timberwolves 121-120 Philadelphia 76ers

New York Knicks 99-90 Atlanta Hawks

Phoenix Suns 113-107 Brooklyn Nets

Orlando Magic 92-105 Cleveland Cavaliers

Miami Heat 107-104 Chicago Bulls

Charlotte Hornets 143-146 Houston Rockets

Washington Wizards 120-114 Dallas Mavericks

New Orleans Pelicans 105-127 Utah Jazz

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×