Ármann með sannfærandi sigur gegn XY

Snorri Rafn Hallsson skrifar
Ármann - XY

Í þessari fyrstu viðureign kvöldsins tókust á liðin í þriðja og fjórða sæti deildarinnar. Spurning var því hvort XY myndi strykja stöðu sína og skilja sig frá miðjunni, eða hvort Ármanni tækist að jafna XY að stigum og lauma sér þar með upp fyrir þá á töflunni. Í undanförnum leikjum hefur XY ekki staðið sig eins vel og í upphafi tímabils, en hjá Ármanni er því öfugt farið og virðist liðið hafa náð að jafna sig eftir brotthvarf Pallab0nda. 

Kortaval kvöldsins kom skemmtilega á óvart þar sem hvorugt liðið vildi mæta hinu í Nuke sem hefur verið mikið spilað. Leiðin lá því til Marokkó í Mirage kortið sem hefur einungis einu sinni sést áður á þessu tímabili. Mirage býður upp á snarpa og spennandi leiki þar sem ekki hallar of mikið á aðra hliðina. Fyrir leikinn mátti þó leiða líkur að því að kortið hentaði Ármanni betur, og þá sérstaklega Peterrr sem kom inn af bekknum í stað 7homsen, á meðan stjörnuleikmaður XY, Minidegreez hefur gefið það út opinberlega að honum hugnist alls ekki Mirage.

Ármann vann hnífalotuna og kaus að sjálfsögðu að byrja í vörn (Counter-Terrorists). Það féll því í hlut XY að sækja, og það gekk vægast sagt ekki vel. Peterrr stimplaði sig rækilega inn í fyrstu lotu með fjórum fellum og opnaði einnig næstu tvær sem báðar féllu Ármanni í vil. Svo virðist sem hið klassíska „vinna skammbyssulotuna og svo næstu tvær“ sé aftur á leiðinni inn í leikinn hér á landi. XY gerði þó vel og tókst að jafna með því að spila hægt og örugglega og um miðjan hálfleik var leikurinn mjög jafn. Ármann brást hins vegar við með því að keyra upp hraðann og koma XY úr jafnvægi og í óþægilega stöðu þar sem leikmenn Ármanns mættu framarlega, voru hreyfanlegir og börðust af hörku. Ekkert sást til Minidegreez í fyrri hálfleik og ekki tókst öðrum leikmönnum XY að stíga upp í stað hans. Ármann var því með gríðarlega gott forskot eftir fyrri hálfleik.

Staða í hálfleik: Ármann 11 - 4 XY

Ármann vann einnig fyrstu lotuna í síðari hálfleik en XY leið mun betur í vörn heldur en í sókn. Við tók glæsileg röð af lotum þar sem XY slökkti í öllum aðgerðum Ármanns og sótti Minidegreez hvorki meira né minna en tvo ása í þremur lotum. XY vann þannig fimm lotur í röð, og hefði Minidegreez verið í slíku stuði í fyrri hálfleik hefði leikurinn líklegast farið örlítið öðruvísi. Lið Ármanns var í basli með að safna pening í bankann en tókst þó að lokum að setja pressu á XY og vinna mikilvægar lotur til að komast aftur á skrið. Sigldu þeir sigrinum heim a lokum með sannfærandi hætti og eru nú komnir upp fyrir XY á stigatöflunni.

Lokastaða: Ármann 16 - 10 XY

Ármann á þó erfitt verkefni fyrir höndum næsta þriðjudag þegar liðið mætir Dusty, en síðasta viðureign þeirra í Ancient fór 16-3 fyrir Dusty. XY tekur svo á móti Sögu næsta föstudag, en fyrri leikur liðanna var jafn og spennandi en fór 16-14 fyrir XY. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira