Neytendur

Viss líkindi en ekki nóg til að neytendur ruglist

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Á þessari samsettu mynd má sjá merkin þrjú, Jömm, Oatly og Júmbó.
Á þessari samsettu mynd má sjá merkin þrjú, Jömm, Oatly og Júmbó. Vísir/Samsett

Áfrýjunarnefnd Neytendastofu telur að ekki sé hætta á því að neytendur ruglist á vörum frá Sóma annars vegar og Jömm og Oatly hins vegar, þrátt fyrir að viss líkindi séu með útliti á merkingum á vörum framleiðendanna.

Árið 2019 var bent á það á samfélagsmiðlum, meðal annars úr herbúðum Jömm, að umbúðir og merki nýs Júmbó-hafragrautar frá Sóma væru afar líkar merkjum veganfyrirtækjanna tveggja.

Vísir fjallaði um málið á sínum tíma þar sem forsvarsmenn Sóma höfnuðu því að horft hafi verið til vörumerkjanna Jömm og Oatly, sem bæði framleiða vegan vörur, við hönnun á nýjum umbúðum undir merkjum Júmbó.

Sænski haframjólkurframleiðandinn Oatly AB og Veganmatur ehf. sem framleiðir matvörur og rekur veitingastað undir merkjum Jömm kvörtuðu í kjölfarið sameiginlega til Neytendastofu. 

Stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að ekki væru nógu mikil líkindi með merkjum Júmbó og Jömm annars vegar eða Júmbó og Oatly hins vegar til að skapa hættu á því að neytendur ruglist á þeim.

Ákvörðun Neytendastofu var skotið til áfrýjunarnefndar stofnunarinnar sem staðfest hefur niðurstöðu Neytendastofu um að líkindin sé ekki nægilega mikil til að neytendur eigi á hættu að ruglast á vörum fyrirtækjanna.

Kemur fram í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar að vissulega séu viss líkindi með útliti á merkingunum, en ekki ætti að fara framhjá neytendum að vörur Sóma séu ekki grænkerafæða.

„Fyrirtækin nota sitt hvort orðmerkið, þ.e.a.s. JÖMM og JÚMBÓ, og greinilegur munur er á framsetningu bókstafsins J í báðum auðkennum. Þá er augljós munur á þeim fígúrum sem fyrirtækin nota til að skreyta vörur sínar. Önnur horfir fram, er án munns og er hluti af auðkenni kæranda JÖMM sem bókstafurinn Ö en fígúra Sóma ehf. er sýnd frá hlið með greinanlegan munn og er ekki hluti auðkennisins JÚMBÓ heldur stendur fyrir utan bókstafina.“

Var ákvörðun Neytendastofu í málinu því staðfest.


Tengdar fréttir

Al­ætu-Júmbó hafði betur gegn full­trúum græn­kera

Neytendastofa telur að ekki séu nógu mikil líkindi með merkjum Júmbó og Jömm annars vegar eða Júmbó og Oatly hins vegar til að skapa hættu á því að neytendur ruglist á þeim. Nokkur umræða skapaðist um málið í október 2019 þegar sumir höfðu orð á því að ný umbúðahönnun Júmbó líktist hönnun áðurnefndra vörumerkja.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×