Innherji

Óvæntur slagur innan Samfylkingar tapaðist með einu atkvæði

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Hörður Oddfríðarson og Ásta Guðrún Helgadóttir tókust á um formannssæti í fulltrúaráði Samfylkingarinnar.
Hörður Oddfríðarson og Ásta Guðrún Helgadóttir tókust á um formannssæti í fulltrúaráði Samfylkingarinnar. vísir/vilhelm/stöð 2

Þau tíðindi urðu á fulltrúaráðsfundi Samfylkingarinnar í gærkvöldi að Ásta Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata bauð sig óvænt fram gegn sitjandi formanni fulltrúaráðsins, Herði Oddfríðarsyni.

Sá hefur verið virkur innan flokksstarfsins um árabil. Fund fulltrúaráðsins sátu um það bil 90 flokksmenn í gærkvöldi. Ásta Guðrún tapaði formannsslagnum naumlega, með einu atkvæði þrátt fyrir að vera tiltölulega ný í starfi flokksins. 

Samkvæmt heimildum Innherja er gott gengi óvænts framboðs Ástu Guðrúnar til marks um ákveðna óánægju með störf núverandi formanns fulltrúaráðs. Sá er talinn einn helsti hvatamaður uppstillingarleiðarinnar sem Samfylkingin fór fyrir þingkosningarnar og skildi margan jafnaðarmanninn eftir með óbragð í munni. 

Formaður fulltrúaráðs Samfylkingarinnar hefur ákveðin völd, því félagið er eins konar yfirfélag Samfylkingarfélaga í Reykjavík. Ráðið ber meðal annars ábyrgð á framboði til sveitarstjórnarkosninga.

Ásta Guðrún talaði mjög fyrir prófkjörsleið í sinni framboðsræðu.

Tekin var ákvörðun í gærkvöldi um að aðalfundi ráðsins yrði frestað til 17. desember. Þar verður sennilegast tekin endanleg ákvörðun um hvernig skuli haga framboðsmálum Samfylkingarmanna í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.

Þeir sem eru öllum hnútum kunnugir innan flokksins segja til mikils að vinna að uppstillingarleið verði ekki farin, heldur verði frekar haldið rafrænt prófkjör.

Þau segja jafnframt að mjög ólíklegt sé, úr því sem komið er, að uppstillingarleiðin verði farin. Atburðir gærkvöldsins hafi síst verið til þess fallnir að hvetja til þess að sú leið verði farin að nýju.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.